Skagfirðingabók - 01.01.1997, Page 136
SKAGFIRÐINGABÓK
til að undirbúa virkjun og rafvæðingu á Sauðárkróki. Nefndina
skipuðu þeir Magnús Guðmundsson sýslumaður, sr. Hálfdán
Guðjónsson, Pétur Sighvats og Pálmi Jónsson. Sér til aðstoðar
réðu þeir Halldór Guðmundsson raffræðing til að kanna virkj-
anleg fallvötn í grennd við Sauðárkrók. Hann skoðaði árnar á
Reykjaströnd, Sauðá og Gönguskarðsá, en þá síðastnefndu taldi
hann hægt að stífla um 2.800 m frá sjó með 16 m hárri stíflu,
og virkja afl allt að 1.000 hö. Taldi hann þá virkjun vera sveitar-
félaginu ofviða vegna mikils kostnaðar, en með þessari hug-
mynd Halldórs var kominn fram að mestu sá kostur sem síðar
varð að veruleika, þegar áin var beisluð árið 1949.6 7
Einna álitlegastan kost fyrir Sauðárkrók taldi hann virkjun
Hólakotsár með væntanlegri viðbótarvirkjun Fagranesár, sem
liggur nær Sauðárkróki. Þessar virkjunarhugmyndir voru mikið
ræddar, en þóttu vera of dýrar fyrir tekjulítið sveitarfélag. Lftið
gerðist næstu árin í virkjunarmálum, þótt þau hafi væntanlega
verið rædd í sveitarstjórn, því fullljóst var orðið á þessum tíma
að raforka var nauðsynleg fyrir atvinnulífið og íbúa hreppsins.
Halldór Guðmundsson ferðaðist líka um sveitir Skagafjarðar
á kostnað sveitahreppanna til rannsókna á virkjunarkostum þar,
bæði stórum og smáum sem gætu þjónað einstökum sveita-
býlum eða nokkrum saman, og hafa þær rannsóknir líklega
verið notaðar þegar virkjaðir voru nokkrir bæjarlækir um ára-
tug síðar. I þessari ferð gerði Halldór áætlanir um virkjanir í
Hofsá og Grafará fyrir Hofshrepp. Ein tillaga hans var að taka
Hofsá úr farvegi sínum við Hof og veita henni í skurði að stíflu
ofan Staðarbjargavíkur og virkja fallið að stöðvarhúsi neðst í
víkinni. Með þessu móti taldi hann hægt að virkja 300 hestöfl.
Aætlun um þennan kost og nokkra aðra skilaði hann til hrepps-
nefndar 6. mars 1920." Einn var þó sá kostur sem hann skoðaði
6 Eysteinn Bjarnason: „Þættir úr sögu rafveitumáls Sauðárkróks ...“, bls. 86.
7 Halldór Guðmundsson: „Hofsós - Grafará" Skýrsla til hreppsnefndar Hofs-
hrepps. Dags. 25.2.1920. HSk. 369 fol.
134