Bændablaðið - 24.09.2015, Blaðsíða 46
46 Bændablaðið | Fimmtudagur 24. september 2015
Áður en ég held út um sveitir lands-
ins til að skoða fallegt sauðfé sem ég
vænti að mæti mér víða á þessum
haustdögum þá langar mig aðeins
að víkja að örfáum atriðum sem
varða nautgriparæktina.
Þetta kann að vísu að vera algert
brot á þeim fáguðu starfsferlum sem
þroskast hafa hjá stofnun þeirri sem
ég hef starfað hjá að hluta til síðustu
misserin. Það verður þá bara að hafa
það.
Nú eru að hefjast nýir búvöru-
samningar og þeir gefa ætíð tilefni
til endurskoðunar á mörgum hlutum.
Mér finnst samt sem umræða, ekki
síst á meðal kúabænda sem óneitan-
lega eiga þarna mikilla hagsmuna að
gæta, hafi verið hógvær og hljóðlát.
Mjólkurframleiðendur hafa síðustu
misserin búið við mikla gósentíð að
því leyti að þeir hafa verið óbundn-
ir framleiðslutakmörkunum og
geta framleitt það magn sem geta
þeirra leyfði. Á sama tíma hafa þeir
lesið sífelldar fréttir um lækkandi
heimsmarkaðsverð mjólkur (ásamt
fréttum af eignarhaldi mjólkurbúa í
Austurlöndum fjær).
Það virðist nánast sama hvar
gripið er niður í skrif hjá mjólkur-
framleiðendum í nálægum löndum,
verulegur brestur er í afkomunni, hin
árabilsvissa gjaldþrotahrina meðal
danskra mjólkurframleiðenda og því
miður í fleiri löndum blómstrar. Fáir
virðast sjá sólskin fram undan í þess-
um efnum og því miður sýnist mér að
það geti verið blákaldur veruleikinn.
Við þessar aðstæður þegar beita verð-
ur upp í vindinn held ég andvaraleysi
eigi ekki beint við.
Eðlilegt að stansa aðeins og spyrja
spurninga
Á slíkum vegamótum er ef til vill
eðlilegt að stansa aðeins og spyrja
spurninga eins og þeirra hvort mögu-
lega hafi skútuna eitthvað borið af
réttri leið. Sífelldar hagræðingar-
kröfur hafa óneitanlega hér á landi
og víða um heim skilað umtals-
verðu á undangengnum áratugum.
Hagræðingin getur verið margs
konar og margt af því sem þar trónir
í mjólkurframleiðslunni má tengja
tækniþróun og stækkun eininga mjög
oft á kostnað aukinnar vatnsnotkunar
og í sumum tilfellum einnig lands,
þ.e. minni sjálfbærni. Erfitt er hins
vegar að greina að stór hluti þessar-
ar hagræðingar hafi skilað sér til
þeirra sem þar starfa nema þá sem
lægri tekjur og atvinnumissir. Annar
aðili er hins vegar nokkuð dyggur
förunautur þessar þróunar en það er
fjármagn, ákaflega oft lánsfjármagn.
Það virðist hins vegar hafa feng-
ið drjúgan hluta af hagræðingunni,
jafnvel stundum meira en eðlilegan
hlut. Mætti ekki líka skoða þessa
hagræðingarþróun í ljósi alþjóðlegra
upplýsinga um að 30–40% mat-
vælaframleiðslu verði ýmiss konar
sóun að bráð á leiðinni frá jörð til
borðs. Þetta eru feikimiklar tölur og
þó að hagræðing skili enn verulegu
eru þær tölur samt bláber í helvíti í
þessum samanburði.
Halda vel aðgreindri dauðri og
lifandi hagræðingu
Ég tek að það sé löngu komið að
þeim tímamótum að menn verði í
hugsun sinni að halda vel aðgreindri
dauðri og lifandi hagræðingu.
Fjármagnsfrek tækniþróun er dauð
fjárfesting og reynsla ætti ef til vill
að vera farin að kenna okkur hver
nýtur afraksturs hennar.
Lifandi framleiðni tengist hins
vegar bættri nýtingu hinna lifandi
framleiðsluferla. Það gerum við m.a.
með markvissu ræktunarstarfi sem
skilar okkur lífeðlisfræðilega hæfari
gróðri og gripum í framleiðslunni
og aukin þekking á hinum lífrænu
ferlum skilar okkur bættri nýtingu
áburðar og fóðurefna sem notuð eru
í framleiðslunni. Á þann hátt einan
eflum við til frambúðar það sem
við megum kalla landbúnað sem
stendur undir nafni. Í seinni hluta
greinarinnar velti ég fyrir nokkrum
sundurlausum atriðum sem tengjast
ræktunarstarfinu.
Örfá önnur stór mál
búvörusamnings
Mér er ljóst að forysta bænda stendur
frammi fyrir mörgum stórum vanda-
málum sem krefjast lagfæringa eða
lausna í komandi samningum. Þar
er ef til vill kvótakerfið sjálft stærsti
Gordonshnúturinn. Mér sýnist að í
núverandi stöðu sé það að óbreyttu í
fjörbrotunum.
Það sem ef til er þar alvarlegast
núna er að mínu viti að bændafor-
ystan bindist bandalagi við kvótahafa
í öðrum atvinnurekstri að semja um
batnandi hag þeirra fjárfestinga. Því
miður treysti ég hluta hennar dável til
að ganga þannig fyrir björg. Annað
mál sem oftsinnis kemur upp í þessari
umræðu og ég held því miður að
aðeins vaxi að alvarleika er endurnýj-
um starfsstéttar mjólkurframleiðenda.
Í þeim efnum held ég að fjármagns-
púkinn þrífist ágætlega.
Það má velta fyrir sér hvort allt
eigi í auknum mæli að þróast af reglu-
gerðarbundnum atriðum stjórnað af
tommustokkum og líkum verkfær-
um. Að höfða til dómgreindar viðist
horfið enda má vera að það sem einu
sinni kallaðist það hafi að mestu verið
drepið. Hugtökin réttlæti, jafnrétti,
dómgreind og mennska virðast eiga
fremur fáa formælendur þessa dag-
ana.
Snúum okkur heldur að raunhæf-
ara efni. Eftir að ég hætti að mestu
störfum að nautgriparæktinni fyrir
nær áratug játa ég að hafa tæpast
fylgst sem skyldi nema ég hef reynt
að halda við þekkingu minni í kyn-
bótum.
Ending hjá mjólkurkúm
Þegar flett er erlendum tímaritum um
nautgriparækt eru vaxandi umræð-
ur um endingu mjólkurkúa mjög
áberandi. Öllum verður ljósara með
hverju ári hvílíku meginhlutverki í
hagkvæmni mjólkurframleiðslunnar
gripir sem framleiða mikið um langa
ævi hafa.
Í nýlegu dönsku nautgriparækt-
artímariti segja þeir frá mælikvarða
sem notaður hefur verið í einhver ár
í Þýskalandi sem þeir kalla meðal
ævidagsnyt kúnna. Í skýrsluhaldi þar-
lendra er þetta birt fyrir allar kýr við
förgun. Þetta held ég að væri góður
mælikvarði fyrir íslenska mjólkur-
framleiðendur vegna þess að hann
sameinar afkastagetu og aldur kúnna
við fyrsta burð. Því miður fór aldur
kvígnanna í hreina öfugþróun á alltof
mörgum búum hér á landi og er víða
ekki enn í því horfi sem ætti að vera.
Hér á landi eru ekki birtir árlega
listar um mestar æviafurðir sem eru
að verða jafn áberandi erlendis og
skrár um afurðahæstu kýr. Þessu held
ég mætti breyta hér og vekja þannig
meiri athyli á þessum mikilvæga
þætti.
Í þessu sama danska blaði eru
sagðar fréttir af því sem þeir segja
nýtt heimsmet mjólkurkúa í ævi-
afurðum. Það var kanadísk kýr sem
hét Gillete Smurf sem féll í sumar
18 ára gömul og hafði þá skilað
247.611 kg af mjólk. Íslandsmethafar
í þessari grein ná því ekki að vera
hálfdrættingar í þessum efnum enda
búast greinarhöfundar við að metið
geti staðið um einhvern tíma.
Ending er undarlegur eiginleiki í
ræktunarstarfi vegna þessa að hann
mælist raunverulega ekki fyrr en
kýrin fellur og því aldrei mögulegt að
velja beint á grunni mælinga. Menn
veltu þessum eiginleika lengi fyrir
sér í ræktunarstarfinu en höndluðu
hann aldrei af góðri íþrótt fyrr en
franskur snillingur þróaði aðferðir
til mats síðla á síðustu öld. Baldur
Helgi tók síðan að sér að innleiða
þessar aðferðir til notkunar í íslenskri
nautgriparækt um aldamótin og eru
þær síðan þáttur í kynbótamatinu hér
á landi.
Kynbótamat er að vísu aðeins
reiknað fyrir nautin út frá upplýs-
ingum um dætur þeirra en venjuleg
BLUP módel falla ekki að þessu kyn-
bótamati. Til gamans má geta þess
að áður en þetta kom til höfðum við
verið að fikta við að setja á nautkálfa
undan kúm sem sýnt höfðu óvanalega
mikla endingu. Þetta skilaði að sjálf-
sögðu engu. „Einstaklingsmælingin“
er þarna fádæma ónákvæm og þessar
kýr löngu úreltar í ræktunarstarfinu
sökum aldurs.
Þegar menn höfnuðu innflutningi
á öðru kúakyni
Aðeins langar mig að spinna þenn-
an þráð áfram. Mögulega hef ég
einhverju sinni á árum þegar inn-
flutningsmál voru til umræðu látið í
það skína að ending væri mögulega
jákvæður eiginleiki íslensku kúnna.
Hafi svo verið er mér í öllu falli ljóst
að það var og er reginfirra. Jákvæður
þáttur hjá íslenskum kúm í þessu sam-
hengi er að þær eru léttar og fóta-
vandamál því hverfandi í samanburði
við kynsystur þeirra erlendis þar sem
þetta er sívaxandi vandamál. En því
miður eru annmarkar íslensku kúnna
í slíkum samanburði það margir og
miklir að ending þeirra getur aldrei
talist þeim til framdráttar.
Í þessu sambandi rifjast upp inn-
flutningsumræðan um síðustu aldamót
þegar íslenskir mjólkurframleiðendur
höfnuðu boði Guðna Ágústssonar,
sem þá var landbúnaðarráðherra,
um leyfi til tilraunainnflutnings. Það
var vafalítið rétt ákvörðun þar sem
meirihlutinn vildi slíkt. Ég held að
ekki sé erfitt að gera sér grein fyrir
hvar íslensk nautgriparækt væri á vegi
stödd hefði hin leiðin verið valin en
það verður ekki rætt hér.
Þeir sem höfnuðu innflutningi
höfðuðu mikið til þeirra miklu
möguleika sem sérstaða íslenskrar
mjólkur skapaði. Ég vil alls ekki gera
lítið úr þeim möguleikum. Hins vegar
vil ég beinlínis saka þá sem þessum
málflutningi héldu á lofti um að hafa
sofið á verðinum.
Mér er með öllu ókunnugt um
vinnu sem unnin hafi verið í þess-
um efnum á þeim tíma sem liðin er
frá aldamótum. Árangur í þessum
efnum fremur en flestu öðru í mark-
aðsstarfi næst ekki nema með þrot-
lausu og markvissu starfi sem menn
hafa fulla trú á sjálfir. Í fullri alvöru
held ég að jafnvel megi alveg velta
því fyrir sér hvort íslenskir „mark-
aðsmenn“ hafi mögulega hent frá sér
miklum möguleikum í þessum efnum
í sambandi við markaðsstarf með skyr
erlendis.
Breyttar ræktunaráherslur
Á þeim árum sem ég var að paufast
við að stjórna ræktunarstarfinu í naut-
griparækt þá býst ég við að flestum
hafi verið ljóst að hugmyndir að því
sem verið var að gera hverju sinni
sótti ég oft til Noregs. Fyrir því voru
fleiri ástæður. Ég hafði sótt mikið af
minni menntun þangað og taldi mig
þess vegna skilja flest að því sem þar
var gert nokkurn veginn til fullnustu
og til viðbótar þekkti ég persónulega
á þeim árum flesta sem í þessu stafi
stóðu þar. Til viðbótar voru fram-
leiðsluskilyrði mjólkurframleiðsl-
unnar hér á landi líklega líkari því
sem gerðist í Noregi en í nokkru öðru
landi. Ýmis atriði bar samt á milli
sem gerðu að ekki var mögulegt að
apa hluti beint eftir þeim.
Mestu skipti þar stærð ræktun-
arhópanna í löndunum tveim og
hið öfluga sjúkdómaskráningakerfi
sem Norðmenn byggð upp á áttunda
áratugnum en okkur skorti að mestu
enn. Þess vegna var ekki mögulegt að
gera líkar kröfur til lágarfgengiseig-
inleika, frjósemi og sjúkdóma og þar
var gert. Áherslur ræktunarstarfsins
endurspeglast í ræktunarmarkmiðum
sem í flestum löndum taka vissum
breytingum í áranna rás þó að þær
muni litlar hér á landi allra síðustu
árin.
Í nýlegu hefti af Buskap tímariti
norskra nautgripabænda er birt ný
endurskoðun á ræktunarmarkmiði
þeirra. Þeir hafa minnkað áherslur
á júgurbólgu í 18%. Þarna ber að
vísu að hafa í huga að megináhersla
er á beina skráningu eiginleikans,
frumutalan hefur aðeins 15% af vægi
eiginleikans öfugt við hér þar sem hún
er eina mælingin sem er notuð en við
verðum að muna að þetta er aðeins
óbein mæling júgurbólgu. Frjósemi
hefur einnig 18% vægi í nýja ræktun-
armarkmiðinu og hjá Norðmönnum
er matið byggt á mælingum á fjölda
frjósemismælikvarða sem sameinaðir
eru í einn. Við látum okkur aðeins
nægja mælingu á bili á milli burða.
Eins og fram kom í grein sem ég
birti í blaðinu í vetur er það að vísu sá
eiginleiki einn sem langflestar þjóðir
nota sem mælingu hér um. Ég held að
lán okkar sé að hið sterka neikvæða
erfðasamband á milli afurðagetu og
frjósemi er alls ekki jafn mikið hjá
íslenskum kúm og í mörgum öðrum
erfðahópum. Þetta samband hefur að
vísu aldrei verið fyllilega metið hjá
íslensku kúnum og væri tímabært að
einhver mundi gera atlögu að því á
næstu misserum. Það sem vekur samt
mesta athygli mína er að Norðmenn
taka mjaltir alveg út úr ræktunarmark-
miðinu. Með því eru þeir að segja að
mjaltir hjá NRF kúnum eru orðnar
það góðar að ekki er réttlætanlegt
að verja frekari vinnu eða fjármun-
um í þann eiginleika. Þetta er í raun
alveg sama staða og við höfum fyrir
marga erfðahópa af svartskjöldóttu
kúnum víða um heim. Þó að mæli-
tækni á þessu sviði hafi tekið helj-
arstökk á síðustu misserum er lítið
um rannsóknir erlendis á þessu sviði.
Gagnvart mjöltum vitum við að staða
íslensku kýrinnar er því miður allt
önnur og miklu verri.
Ofuráhersla á aukningu í
skyldleikarækt?
Að síðustu langar mig að víkja örfá-
um orðum að áherslur á að halda uppi
erfðabreytileika og forðast skyld-
leikarækt. Mér hefur virst að þetta
hafi verið viss fagnaðarboðskapur
þeirra sem stýrt hafa ræktunarstarf-
inu síðustu misserin. Ég hef ætíð haft
vissar efasemdir í þessum efnum og
langar enn einu sinni að bera þær á
borð.
Í fyrsta lagi er þekking mín á raun-
verulegri minnkun á erfðabreytileika
hjá virkum ræktunarstofnum ákaf-
lega af skornum skammti þó að aðrir
viti þar eflaust betur og þætti mér
forvitnilegt að sjá þær niðurstöður.
Eina þekkta dæmið sem ég þekki
er að vísu tengt íslensku kúnni en
er ekki afleiðing ræktunarstarfsins
heldur skýrist af ræktunarsögulegum
atburðum.
Skyldleikahnignun í afurðum
skoðuðum við Ágúst Sigurðsson fyrir
meira en tveim áratugum og þær gáfu
vísbendingar um að ef til vill væru
þessi áhrif hlutfallslega ívið minni en
í öðrum stofnum. Mér eru ekki aðrar
rannsóknir í þessum efnum kunnar
hér á landi.
Ég hef leitt ræktunarsöguleg rök
að því að eðlilegt geti verið að skyld-
leikahnignun sé minni hjá íslensku
búfé en öðru. Ég fæ ekki betur séð
út frá aragrúa erfðamengisrannsókna
á síðustu árum að þær styðji þessa
ályktun mína. Enda eru erfðamengis-
rannsóknir í raun ekki annað en að
lesa ræktunarsögu hópsins til baka í
tíma. Í ljósi þessa leyfi ég mér vissar
efasemdir um að eðlilegt sé að leggja
eitthvað ofurkapp á þessa þætti í stað
þess að beina kröftum að sem bestu
úrvali fyrir veigamestu eiginleikana
í framleiðslunni. Þar held ég að sé
alveg nægjanleg verkefni og sum
þegar nefnd. Eigi að leggja ofurá-
herslu á skyldleikaræktina ber þá að
gera það á sem bestan hátt með nýt-
ingu erfðatækni þar sem hún nýtist
einmitt verulega vel til að skapa betri
mynd af skyldleikaræktinni en mat út
frá ætternisupplýsingum.
Læt þar með þessu rabbi lokið sem
líklega er í vanþökk margra þó að
ég vilji meina að ýmsir þeir þættir
sem nefndir eru þarfnist jafnvel enn
frekari skoðanaskipta.
Nokkrir punktar um nautgriparækt
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins
Jón Viðar Jónmundsson
Ráðunautur hjá RML
jvj@bondi.is
Íslensk kýr á beit. Greinarhöfundur bendir m.a. á breyttar ræktunaráherslur í Noregi í samanburði við íslensku
kýrnar. Mynd /HKr.
Þeir sem höfnuðu innflutningi höfðuðu mikið til þeirra miklu möguleika sem sérstaða íslenskrar mjólkur skapaði. Ég vil
alls ekki gera lítið úr þeim möguleikum. Hins vegar vil ég bein-
línis saka þá sem þessum málflutningi héldu á lofti um að hafa
sofið á verðinum.