Skólavarðan - 01.12.2006, Blaðsíða 6

Skólavarðan - 01.12.2006, Blaðsíða 6
6 GESTASKRIF SKÓLAVARÐAN 8.TBL. 6. ÁRG. 2006 sé undir því komin að allir innan hennar séu sáttir við sitt hlutskipti. Það er því ljóst að mikilvægasti þátturinn í því að fjölskyldunni líði vel á Höfn hlýtur að vera velferð barnanna í skólanum. Grunnskóli sveitarfélagsins Horna- fjarðar skiptist í þrennt: Nesjaskóla sækja þrír yngstu bekkirnir, í Hafnarskóla eru fjórði, fimmti, sjötti og sjöundi bekkur og unglingarnir sækja Heppuskóla. Þessa þrjá skóla sækja grunnskólanemar sem búa á Höfn og í nálægum sveitum. Það var okkur smá áhyggjuefni að börnin yrðu ekki í sama skóla og gætu notið stuðnings hvort af öðru, eins og þau höfðu gert á Spáni. Þetta reyndist þeim þó ekki erfitt og kannski spilaði þar inn í að Árni Birgir fer í skólabíl bæði í og úr skólanum (Nesjaskóli er í Nesjahverfi nokkuð fyrir utan Höfn) og það fannst honum afar spennandi kostur – þótt hann væri reyndar nokkuð vonsvikinn þegar hann sá að um „venjulega rútu“ var að ræða en ekki gulan skólabíl eins og hann hafði séð í bandarískum bíómyndum. Eins og gefur að skilja veldur skipting aldurshópanna á milli þriggja skóla því að hver skóli er fámennari en ella og ég tel að þetta hafi einnig auðveldað börnunum aðlögunina því þau koma úr tiltölulega litlum og „heimilislegum“ skóla í Reykjavík. Líklega er óhætt að fullyrða að flestir kennarar séu sér mjög meðvitaðir um það hversu erfitt getur verið fyrir ung börn að koma ný inn í bekki þar sem allir aðrir eru á heimavelli og sem betur fer er svo komið að eineltismál eru tekin föstum tökum um leið og þeirra verður vart. Ég tel mig geta fullyrt að vel var tekið á móti báðum börnunum í nýju skólunum og þau hafa aðlagast vel og eignast vini á þeim tæpu þremur mánuðum sem liðnir eru og í raun finnst mér það ótrúlegt hversu vel þessi umskipti hafa gengið. Í skólunum báðum er fylgt stefnu um einstaklingsmiðað nám, þar sem mið er tekið af námsgetu og áhugasviði einstakra nemenda fremur en að um „ítroðslu“ sama efnis, á sama tíma inn í alla „hausa“ sé að ræða, með misjöfnum árangri. Þetta tel ég afar jákvætt og einnig tel ég að það ýti undir metnað og sjálfstæði hjá nemendum þegar þau fá sjálf að taka þátt í að áætla á sig námsefni hverrar viku. En þessi stefna gerir miklar kröfur til kennara og ekki síður til foreldra sem verða að fylgjast með námsframvindu barna sinna og þá kannski sérstaklega með því að þau séu ekki að vinna undir getu. Og líklega er það þetta atriði, það er að segja samvinna þessara þriggja aðila, nemenda, kennara og foreldra, sem mestu máli skiptir þegar kemur að því hversu vel börnum gengur í skólanum, hvort sem um nýjan eða „gamlan“ skóla er að ræða. Ég er mjög bjartsýn á að börnunum mínum muni ganga vel að aðlagast lífinu á Hornafirði og nýjum skóla. Þau eru strax farin að finna fyrir frjálsræðinu sem fylgir því að búa í litlu samfélagi þar sem er stutt að fara í allt sem sækja þarf (nema til Reykjavíkur). Og hér er hægt að fara allra sinna ferða hjólandi mestan part ársins sem er mikill kostur. Auðvitað sakna þau ennþá gamla skólans og vinanna þar og þau nýta sér vel heimatölvuna til samskipta við þá og skrifa jafnvel gamaldags sendibréf við og við. En ég held þau verði fljót að verða „heimamenn“ á Höfn; þau eru alla vega farin að sperra eyrun þegar minnst er á Hornafjörð í fréttum. Sigríður Þórunn var stolt af því um daginn þegar Hafnarskóli var tilnefndur sem Nýsköpunarskóli ársins (en minnti þó um leið á það að Fossvogsskóli hefði fengið Grænfánann mörg ár í röð). Nýsköpunar- og frumkvöðlastarf eru hugtök sem mikið eru notuð hér á Höfn og um síðustu helgi komu 20 nemendur Heppuskóla saman á Hrollaugsstöðum í Suðursveit til að taka þátt í frumkvöðlavinnu. Nemendum var skipt upp í hópa sem unnu saman að gerð viðskiptaáætlana sem sýna áttu fram á hvernig hugmyndir þeirra um nýsköpun innan atvinnulífs gætu orðið að veruleika. Slíkt starf með börnum og unglingum hlýtur að stuðla að eflingu samfélagsins þegar fram líða stundir. Það virðist vera lögð mikil áhersla hér á skapandi nám, hópastarf, íþróttir og tónlist sem allt telst til kosta að mínu mati. En er þá ekkert sem ég get kvartað yfir? Það væri þá helst málefni sem snúa að bæjarstjórninni og hafa með fjármál að gera. Sérstaklega mætti kvarta yfir þeirri staðreynd að ekkert mötuneyti er í Hafnarskóla og skilst mér að ekki sé nægur vilji hjá bæjaryfirvöldum til að leysa það mál á næstunni. Einnig vantar nokkuð upp á að búnaður sé fullnægjandi í ýmsum skólastofum og skólayfirvöldum hefur reynst erfitt að fá nauðsynlegar fjárveitingar til að bæta úr því. Líklega er þetta mál sem flestir skólar þekkja af eigin raun, peningar til skólahalds og menntunar virðast alltaf vera skornir við nögl þótt gildi menntunar sé lofsungið opinberlega. Um daginn bað Árni Birgir mig um að fletta upp í ættfræðibókum til að athuga hvort hann ætti ekki einhverja frændur og frænkur á sínu reki hér á svæðinu; hann var orðinn leiður á því að vera „eini krakkinn í bekknum“ sem ekki átti frænda eða frænku í skólanum. Þetta hlýtur að sýna löngun hans til að tengjast samfélaginu á áþreifanlegan hátt – helst í gegnum blóðbönd! Ég gat sagt honum að þegar liði á vorið og sumarið myndu frændur hans og frænkur hópast hingað því enginn okkur tengdur myndi keyra fram hjá Hornafirði á leið sinni um hringveginn án þess að koma í heimsókn. Það er enn einn af kostunum sem við höfum kynnst við að búa úti á landi: margir góðir gestir koma í heimsókn og gista. Soffía Auður Birgisdóttir Höfundur er bókmenntafræðingur Ég er mjög bjartsýn á að börnunum mínum muni ganga vel að aðlagast lífinu á Hornafirði og nýjum skóla. Þau eru strax farin að finna fyrir frjálsræðinu sem fylgir því að búa í litlu samfélagi þar sem er stutt að fara í allt sem sækja þarf (nema til Reykjavíkur). Nemendum var skipt upp í hópa sem unnu saman að gerð viðskiptaáætlana sem sýna áttu fram á hvernig hugmyndir þeirra um nýsköpun innan atvinnulífs gætu orðið að veruleika. Slíkt starf með börnum og unglingum hlýtur að stuðla að eflingu samfélagsins þegar fram líða stundir.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.