Morgunblaðið - 01.09.2016, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 01.09.2016, Blaðsíða 24
24 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. SEPTEMBER 2016 ✝ Helga ElísabetPétursdóttir fæddist í Gamla- Garði í Suðursveit 24. júlí 1933. Hún lést á hjúkrunar- heimilinu Skjól- garði 24. ágúst 2016. Foreldrar henn- ar voru hjónin Bríet Magnea Stef- ánsdóttir og Pétur Óskar Sigurbjörnsson. Helga var elst þriggja systkina, hin eru Eysteinn Agnar og Erna Kristín. Á jóladag 1959 giftist Helga Herði G. Valdimarssyni, f. 19. júlí 1928, d. 21 febrúar 2004, frá Fáskrúðs- firði. Þau bjuggu lengst af á Sval- barði 4 á Höfn. Helga og Hörður eignuðust eina dóttur, Örnu Ósk. Hún er gift Þórhalli Malmquist Ein- arssyni og eiga þau þrjú börn. Fyrir átti Helga soninn Gísla Pál Björns- son. Hann er kvæntur Hrefnu Lúðvíksdóttur og eiga þau þrjú börn og átta barnabörn. Jarðsett verður frá Hafn- arkirkju í dag, 1. september 2016, klukkan 14. Þegar við fengum símtalið um að þú hefðir fengið áfall og værir meðvitundarlaus þá stoppaði tíminn. Manni finnst stundum að sumir verði alltaf til og þú varst ein af þeim. Þú komst oft til okkar á Sandbakkann og þá varstu allt- af jafnhissa á að búið væri að byggja þarna og hafðir orð á því að við byggjum úti í sjó, þar sem þú mundir eftir því þegar sjórinn náði þarna yfir. Þú hafðir gaman af því að fara á rúntinn og þeir voru ófá- ir ísrúntarnir sem við tókum, bæði upp í Lón og inn í Nes. Framan af talaðir þú um að þessi bóndinn eða hinn þyrfti nú að fara að mála bæinn sinn, en síðari ár þá sagðir þú minna og virtist vera að reyna að finna út hvar þú værir stödd en alltaf varstu samt jafnsæl á rúntinum. Þú barst miklar taugar til Suðursveitar og oft á tíðum tal- aðir þú um hversu gaman væri að fara í berjamó í Staðarfjall. Á áttræðisafmælinu þínu fórum við þangað, og þó að þú áttaðir þig ekki á því hvar þú værir, þá naustu þess og söngst svo skemmtilega fyrir okkur „Það var kátt hérna laugardags- kvöldið á Gili“, öll erindin án þess að þurfa að hugsa þig um. Þú hafðir mjög gaman af að syngja og varst dugleg að syngja fyrir og með barnabörn- unum þínum, sem alltaf áttu at- hvarf hjá ykkur á Svalbarðinu. Þú naust þess að syngja með Gleðigjöfum og eins á samveru- stundunum á Skjólgarði. Síðustu árin hafðir þú ekki mikið að segja en þú talaðir þó oft um veðrið og undantekning- arlaust þá var svo mikið logn. Meira að segja þegar við kom- um til þín eftir vonda veðrið um jólin þegar allt fauk sem fokið gat, þá sagðir þú „ja, ef það væri einhver vindur þá væri kalt“. Á Skjólgarði leið þér vel inn- an um fólkið og þú talaðir um það fram á þinn síðasta dag hversu vel væri hugsað um aldraða hér á Hornafirði og fyrir það erum við þakklát. Það á eftir að verða skrýtið að þurfa ekki að svara aftur spurningunni: „Eruð þið að fara að ferðast eitthvað?“ en við trúum því að nú sért þú far- in að ferðast og vonandi ferðu sem víðast og nýtur þess. Elsku mamma og tengda- mamma. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur. Við minn- umst þín með hlýju og söknuði. Arna Ósk og Þórhallur. Amma, hún er mamma hennar mömmu. Mamma er það besta sem ég á. Gaman væri að gleðja hana ömmu, og gleðibros á vanga hennar sjá. Þessi texti fylgdi okkur oft inn í svefninn þegar við gistum hjá ömmu og afa sem börn. Þá söng afi þetta fyrir okkur og á meðan hugsaði maður um Helgu ömmu. Það var æðislegt að umgang- ast ömmu sem barn. Hún fór með okkur í sund á morgnana, gaf okkur ristað brauð með osti, smjöri og marmelaði í morgunmat, steikti handa okk- ur kleinur og bjó til sína eigin lifrarpylsu. Afi og amma voru okkur al- gjörar fyrirmyndir. Þegar við vorum lítil komu þau einu sinni til okkar í heimsókn eftir að hafa komið úr samkvæmi og voru í sparifötum. Heba spurði þau hvers vegna þau væru svona fín og amma svaraði henni: „Það er fínufatadagur í dag.“ Við vorum ekki lengi að vippa okkur í sparigallann og halda upp á daginn með þeim. Helga amma var ekkert lamb að leika sér við. Eins og hún var lítil og fíngerð tókst henni að takast á við erfiðan sjúkdóm eins og Alzheimer með bros á vör, syngjandi og hlæjandi til skiptis. Skemmti- legt dæmi er þegar þeirri gömlu var boðin mjólk út í kaffið sitt í veislu fyrir ekki svo löngu. Hún hafnaði því boði al- varleg í bragði og kvaðst vera svo drykkfelld að hún kynni illa við að blanda drykkina sína. Jól með ömmu er eitthvað sem aldrei gleymist. Við skreyttum jólatréð hennar og afa á Svalbarði hver einustu jól og borðuðum gómsæta hálf- mána sem hún bakaði. Við vor- um svo heppin að fá að halda jólin með ömmu og afa frá því að við munum fyrst eftir okkur. Nú þegar amma hefur kvatt okkur getum við tekið gleði okkar yfir því að hún muni halda jólin með afa á ný. Hvíldu í friði, elsku amma. Minningin um þig mun lifa og ylja okkur í hjartastað um ókomna tíð. Við elskum þig, Hörður, Heba og Eggert. Í dag verður hún amma lögð til hinstu hvílu. Mig langar að minnast hennar í nokkrum orð- um. Við amma áttum margar góðar stundir saman og ég er svo innilega þakklát fyrir allar þær góðu minningar sem ég á. Ég hef verið svo heppin að geta umgengist hana föður- ömmu mína að vild alveg frá því ég leit dagsins ljós. Hún að- stoðaði við að taka á móti mér í heiminn, en foreldrar mínir bjuggu á neðri hæðinni hjá ömmu og afa og þar fæddist ég og bjó fyrstu tvö ár ævi minn- ar. Í minningunni var ég oft hjá ömmu og afa sem barn, mamma vann á símanum á vöktum og pabbi var á sjó svo ég, og síðar ég og bróðir minn höfum sjálfsagt verið þar í pössun oft. Ég á minningar um jólafönd- ur, bakstur, sláturgerð, grímu- búningagerð með mömmu og ömmu, ásamt músasögum afa í hádeginu, hesthúsaferðir, sveitaferðir, skautaferðir og svo margt fleira. Síðar á ævinni kynntist ég ömmu upp á nýtt, við hjónin hófum búskap okkar á Höfn á neðri hæðinni hjá ömmu og afa, og þar bjuggum við þegar dóttir okkar fæddist og þar til hún var um fjögurra mánaða. Amma aðstoðaði mig mikið og það var gott að kíkja á efri hæðina í kaffisopa og spjall. Og það var líka ósjaldan sem afi gekk með litlu dömuna mína um gólf og söng fyrir hana. Eftir að við fluttum í okkar eigin íbúð fækkaði kannski stundunum sem við áttum saman, en ég kom oft við hjá ömmu og afa. Það passaði svo vel að kíkja inn þegar mað- ur skrapp í búðina. Þegar ég var ófrísk að yngsta barninu mínu var ég í veikindaleyfi alla meðgönguna. Þá fékk ég mér oft gönguferð á Svalbarðið til ömmu og við átt- um margar góðar stundir við eldhúsborðið yfir spjalli um allt milli himins og jarðar, við leystum nú oft vandamál heimsins mörgum sinnum. Amma var með Alzheimer og vissulega var erfitt að fylgjast með henni hverfa inn í sjúk- dóminn. Við vorum samt svo heppin að henni leið alltaf vel, var alltaf glöð og brosandi. Hún elskaði að leika, að gant- ast í yngstu langömmubörnun- um, kannski af því þau gerðu engar kröfur um samræður eða að hún svaraði einhverjum spurningum. Hún átti það jafn- vel til að skella sér í eltingaleik með þeim ef þannig lá á henni og það er alveg spurning hver hafði meira gaman af, hún eða börnin a.m.k. ætlaði hlátra- sköllunum aldrei að linna. Ég mun ylja mér við minn- ingar um skemmtilegar sam- ræður yfir góðum kaffibolla. Ekki síst mun ég minnast fal- lega brossins, dillandi hláturs og glettni í augum. Hvíl í friði, elsku amma. Íris Gísladóttir. Helga Elísabet Pétursdóttir ✝ Jóhanna Guð-leif Þórhalls- dóttir fæddist á Breiðabólsstað í Suðursveit 11. nóv- ember 1921. Hún lést á öldrunardeild Landakotsspítala 21. ágúst 2016. Foreldrar henn- ar voru Þórhallur Bjarnason, bóndi á Breiðabólsstað, f. 1897, d. 1967, og kona hans Steinunn Þórarinsdóttir hús- freyja, f. 1895, d. 1963. Jóhanna var þriðja í röð átta systkina, sem öll eru látin. Þau voru Þór- ir, Björgvin, f. 1919, Steinunn Sigurbjörg, f. 1920, Bjarni Run- ólfur, f. 1922, Rannveig Þórunn, f. 1924, Sveinbjörg, f. 1925, Vaka, f. 1976, Þrándur, f. 1978, og Tinna Margrét, f. 1980. 2) Jónína Ingibjörg, f. 1951, Hún var gift Finnboga Bjarnasyni, f. 1946, d. 2004. Þeirra börn eru Ragnhildur Hanna, f. 1972, Ingi- björg Sunna, f. 1978, og Gunndís Ýr, f. 1979. 3) Steinþór, f. 1953. Eiginkona hans er Inga Hlíf Ás- grímsdóttir, f. 1956. Börn þeirra eru Saga, f. 1978, og Brynja, f. 1996. Barnabarnabörn Jóhönnu eru 15. Jóhanna og Gunnar bjuggu mestalla sína búskapartíð í Smá- íbúðahverfinu í Reykjavík, fyrst á Sogaveginum, þá í Langagerði og þegar aldurinn færðist yfir í íbúð sem byggð var fyrir aldr- aða í Hæðargarði 35. Meðan börnin voru ung var Jóhanna mest heimavinnandi, en þegar þeim óx fiskur um hrygg fór hún að vinna utan heimilis við verslunarstörf þar til hún fór á eftirlaun. Útför Jóhönnu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 1. sept- ember 2016, og hefst hún kl. 13. Rósa, f. 1928, og Steinn, f. 1936. Jó- hanna var á öðru ári send í fóstur til afasystur sinnar, Rannveigar Run- ólfsdóttur, að Svínafelli í Öræfum og ólst hún þar upp. Jóhanna giftist, árið 1948 Páli Gunnari Jóhanns- syni, f. á Þinganesi í Nesjum 9. júní 1919, d. 6. sept- ember 2004. Foreldrar hans voru Jóhann Pálsson, f. 1893, og Ingibjörg Pálsdóttir, f. 1900, bændur á Hofi í Öræfum. Börn Jóhönnu og Gunnars eru 1) Rögnvaldur, f. 1948. Eiginkona hans er Þ. Kolbrún Ásgríms- dóttir, f. 1945. Börn þeirra eru Mig langar með örfáum orð- um að minnast ástkærar tengdamóður minnar Jóhönnu Þórhallsdóttur. Síðasta misserið var hún búin að berjast fyrir betri heilsu en varð að lokum að lúta í lægra haldi. Það er alltaf erfitt að kveðja og ég kveð þig með trega og söknuð í hjarta. Hanna, eins og hún vildi láta kalla sig, var mjög greind og at- hugul en hafði skemmtilegan húmor fyrir sjálfri sér og sinni tilveru. Hún var ein af þeim fáu sem hugsuðu fyrst og fremst um aðra en sjálfa sig og hvað gera þyrfti til að bæta hag annarra. Að hennar mati var hin mesta vesöld að geta ekki gert neitt gagn og þegar hún var að alast upp í Svínafelli fyrir rúmum níutíu árum voru menn ekki að hendast upp á fjöll eða fara milli bæja í erindisleysu. Allt hafði tilgang og tilgangsleysi var eitt- hvað sem Hanna hristi bara höf- uðið yfir. Þrátt fyrir ævilanga búsetu í Reykjavík ásamt eig- inmanni sínum Gunnari Jóhannssyni breyttust viðhorf hennar lítið enda var hugur þeirra beggja ávallt hjá ættingj- um og vinum fyrir austan. Hanna var einstök kona og hjartahlý sem vildi öllum vel og fór ekki í manngreinarálit og kom eins fram við alla. Ég hef vart kynnst jafn félagslyndri manneskju og var hún dugleg að halda utan um félagsmálin í Hæðargarði sem formaður í mörg ár. Hún var forkur til vinnu og var verslunarstjóri hjá húsgagnaverslun Kristjáns Sig- geirsonar þegar ég kynntist henni og fannst mér hún njóta sín þar og ávallt sýna ákveðna fágun og góðmennsku sem fylgir fólki sem lítur á alla menn jafna án stéttar og stöðu. Hanna nefndi oft að hún væri þakklát fyrir að hafa lifað góðu lífi með Gunnari og getað komið börnum sínum til mennta hér í bænum. Alltaf hafði hún ánægju af að fá heimsóknir í Langagerðið og síðar í Hæð- argarðinn og mér fannst ein- staklega gaman þegar við hitt- umst og spjölluðum, einkum um það þegar hún var ung stúlka í Öræfasveitinni. Á fallegri ljós- mynd situr Hanna hest þannig að unun er á að horfa. Ég get vel séð hana fyrir mér unga og ákveðna ríða yfirferð á hesti eða eins og Hanna sagði ríða hart. Ég sé hana í anda eftir að hafa sundriðið austur stóru fljótin í Öræfunum í góðum hópi, ríðandi hart, yfir svörtu sandana og verða síðan fyrst í hlað að Svínafelli. Dugnaður Hönnu er á margra vitorði, ekki síst eftir að hún reis upp á ný eftir erfið veikindi fyrir átta árum. Eftir spítalavist á Landakoti dreif hún sig heim og rak heimili sitt með sóma og hélt áfram sínu striki. Hanna hafði sértaklega gaman af því að spila félagsvist með vinum sínum í Bústaða- kirkju og í Hæðargarði og var ávallt athafnasöm. Það var aðdá- unarvert hversu vel hún fylgdist með fjölskyldu sinni og einnig hennar kæru sveitungum og vin- um. Vissi hún alltaf hvað væri að gerast hjá börnum, barna- börnum og barnabarnabörnum. Elsku tengdamamma, fyrir hönd okkar hér sem nutum leið- sagnar þinnar og góðmennsku, takk fyrir kærleiksríku stund- irnar sem við áttum saman. Haf þökk fyrir allt og allt. Þín Inga Hlíf. Mig langar að minnast Jó- hönnu tengdamóður minnar. Hún fluttist ung úr Öræfunum með Gunnari heitmanni sínum. Þau hófu búskap í Reykjavík og áttu þar heima alla tíð síðan. Lengst af í Smáíbúðahverfinu, Sogavegi, Langagerði og að lok- um í Hæðargarði 35. Ég kynntist fjölskyldunni eft- ir að þau fluttu í fallega húsið sitt í Langagerði. Mér varð fljótt ljóst að hún Hanna var yf- irburðamanneskja á mörgum sviðum. Hún var mjög traust sínum vinnuveitendum og vönd- uð til orðs og æðis. Hún gegndi oft trúnaðarstörfum bæði í vinnu og í félagsmálum. Má þar sérstaklega nefna ferðafélagið Breiðamörk, Skaftfellingafélagið í Reykjavík og byggingarfélagið Réttarholt. Heimili þeirra Gunn- ars var alltaf opið börnum þeirra og barnabörnum. Stund- um var stór hópur þeirra kom- inn fyrirvaralaust í hinar frægu innan fjölskyldunnar „föstu- dagsbollur“ sem öllum þóttu himneskar. Alltaf var nóg í frystikistunni hennar Hönnu. Hanna og Gunnar áttu mjög góða sambúð og góðu barnaláni að fagna. Þau hjón voru afar trygg vinum og ættingjum úr Öræfum og Suðursveit. Skyld- menni þeirra og sveitungar áttu alltaf athvarf hjá þeim þegar þeir þurftu að dvelja í Reykja- vík til lengri eða skemmri tíma. Þau voru bæði mikið fyrir að hafa fallegan gróður í kringum sig og bar garður þeirra við Langagerði þess glögg merki. Á seinni árum byggðu þau sér sumarbústað í Þrastaskógi og Gunnar vann það verk svo til einn með hjálp sona og tengda- sonar við að reisa húsið. Í Þrastaskógi leið þeim ákaflega vel og undu sér við gróðursetn- ingar og viðhald hússins. Eftir sjötugt ákváðu þau að söðla um og fluttu í Hæðargarð 35 sem þá var nýreistur. Hún valdist þar í stjórn húsfélagsins, lengst af sem formaður. Í Hæðargarðin- um þróaðist mjög gott félagslíf meðal íbúanna sem þau nutu mjög vel. Fyrir tólf árum tók líf Hönnu miklum breytingum við að missa sinn ástkæra maka. Hún lagði þó ekki árar í bát heldur hélt sinni reisn og bar harm sinn í hljóði. Alltaf var það þannig hjá Hönnu ef hún þurfti á smáhjálp eða greiða að halda að hún vildi borga hann margfalt til baka. Hún vildi ekki skulda neinum neitt eða vera byrði á neinum. Ein setning frá samskiptum okkar Hönnu er mér afar minn- isstæð. Við vorum að því komn- ar að móðgast út í hvor aðra af ástæðu sem mér er ekki í minni. Þá sagði hún: „Kolla mín, lífið er of stutt til þess að eyða því í að vera móðgaðar út í hvor aðra.“ Hanna mín, hafðu þökk fyrir þau 46 árin sem við áttum sam- leið og hvað þú varst börnum okkar og barnabörnum góð amma. Kolbrún. Elsku Hanna amma, takk fyr- ir samfylgdina í öll þessi ár. Við systkinin og langömmubörnin erum einstaklega heppin að hafa haft þig hjá okkur svona lengi. Okkur birtast ótal fallegar minningar og bros færist yfir varir okkar þegar við lítum til baka. Þú varst alltaf svo sterk og dugleg, alltaf að. Allt frá því að hugsa um stórt heimili til þess að vera fyrirmyndar starfsmað- ur og formaður húsfélagsins í Hæðargarði. Þú hvattir okkur til að vera dugleg og berjast fyrir bæði menntun okkar og starfi og hvert hrós hjálpaði okkur skrefi lengra í lífinu. Ekki mátti samt hrósa þér fyrir neitt. Lítillæti var einkenni þitt og aldrei nokkurn tímann datt þér í hug að kvarta. Það var svo notalegt að koma í Langagerðið til ykkar afa Gunnars. Alltaf var eitthvað gott á boðstólum, hvort sem það voru dásamlegu kjötbollurnar þínar, kleinurnar, ís eða frábær félagsskapur. Við systkinin komum oftar en ekki gangandi til ykkar úr Heiðargerðinu eftir kvöldmat og þið afi mættuð okk- ur alltaf með opinn faðminn. Það var svo dýrmætt fyrir okk- ur að hafa ykkur í næsta ná- grenni. Svo vel leið okkur í kyrrðinni og hitanum í Langa- gerðinu að iðulega sofnuðum við systkinin í sófanum og afi í stólnum sínum fyrir framan sjónvarpið. Að lokum kom pabbi keyrandi að sækja okkur södd og sæl. Við munum líka alltaf eftir því þegar þér fannst við nú orðin heldur löt að vilja ekki labba heim. Þá fengum við að heyra ótrúlegu sögurnar ykkar afa frá því í gamla daga. Dugn- aðurinn og eljan sem bjó í þér var engu lík. Hvernig þú gekkst frá Svínafelli að Hofi, yfir ár og læki til að fara á ball þegar þú varst ung stúlka. Sagan af því þegar þú varst send í fóstur að Svínafelli tveggja ára gömul. Hversu stutt var á milli bæj- anna sem þið afi bjugguð á fyrir austan. Og baslið sem fylgdi því að flytja til Reykjavíkur og stofna heimili á Sogavegi. Að ótöldum öllum kvæðunum sem þið afi þulduð upp við hvert tækifæri. Okkur fannst svo merkilegt að þið skylduð kunna öll þessi kvæði. Minnisstætt er okkur líka hve mikið þú sást eftir því að taka ekki bílpróf á þínum yngri ár- um. Það kenndi okkur að nýta tækifæri okkar vel svo við sæt- um ekki eftir með eftirsjá. Meiri félagsvera en þú, amma, verður vandfundin. Dag- urinn var oftar en ekki fullbók- aður hjá þér í Hæðargarðinum. Hvort sem það var línudans, tölvutímar eða félagsvist, alltaf varst þú á fullu og allt í öllu. Þú varst með allar fréttir á hreinu og hafðir svo gaman af því að segja okkur frá því sem var að gerast hjá frændfólki okkar. Hvernig lifnaði yfir þér þegar langömmubörnin komu í heimsókn og hvað þér fannst gaman að gefa þeim eitthvert sætabrauð og fara með vísur fyrir þau. Elsku amma, við eigum eftir að sakna stálbláu augnanna þinna, sterkra andlitsdráttanna og hvatningarinnar sem alltaf kom frá þér. En minning þín lif- ir í blámanum því að blái lit- urinn mun alltaf vera þitt tákn. Það fylgir því huggun að þú sért komin í stóra faðminn hans afa og þið vakið bæði yfir okkur. Hvíl í friði, elsku amma. Þín, Vaka, Þrándur og Tinna Margrét. Jóhanna Þórhallsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.