SÍBS blaðið - 01.10.2001, Blaðsíða 23
23
Hlíðabær er til húsa í hlýlegu og einstaklega
fallegu einbýlishúsi á mótum Flókagötu og
Lönguhlíðar. Andrúmsloftið er notalegt og það
er ró yfir heimilisfólkinu. Meðal þeirra er Una
Herdís Gröndal, Reykvíkingur en segist einnig
rekja ættir í Hergilsey og víðar um Breiðafjörð.
Hún er Alzheimersjúklingur og fellst góðfúslega
á að spjalla við blaðamanninn. Hún tekur þó
fram að minnið sé ekki alltaf sem best vegna
sjúkdómsins, einkum hvað snertir tímasetningar.
„Svo þú kemur frá SÍBS,“ segir hún. „Ég var
berklasjúklingur á Vífilsstöðum hér áður fyrr
og á góðar minningar þaðan. Þar var oft glatt
á hjalla þrátt fyrir að fólk væri veikt.“
Herdís er kvik og hressileg kona sem hefur
sannarlega frá mörgu að segja. Hún hefur verið
í Hlíðabæ síðan um miðjan síðasta vetur og
segist una hag sínum þar afskaplega vel. „Þetta
er sérstaklega góður staður að dvelja á. Starfs-
fólkið hérna fær allt fyrstu einnkunn A,“ segir
hún. „Heimilisbragur er með ágætum og öllum
líður vel hérna. Þetta er nefnilega heimili en
ekki stofnun og það er okkur mikils virði.“
Herdísi finnst sjúkdómur hennar frekar hafa
haldist í horfinu síðan hún kom hingað en
tekur fram að hún geti þó ekki gert sér fulla
grein fyrir því. „Mér finnst dagarnir hérna
dásamlegir og ég hlakka til þeirra, hvers og
eins. Það er frekar að helgarnar séu erfiðari. Ég
hef góða aðstöðu til þess að mála hérna niðri
og það gefur mér mikið.“ Þetta er orð að
sönnu, því í vinnuherbergi á neðstu hæðinni er
að finna fjölmarga listmuni sem bera hand-
bragði Herdísar gott vitni.
Í samtali okkar kemur líka fram að Herdísi er
margt fleira til lista lagt. Hún lærði ung að
teikna og mála í Handíðaskólanum, hún lék á
fiðlu í Sinfóníuhljómsveitinni í yfir fjörutíu ár
og var ein af fyrstu hljóðfæraleikurum sveitar-
innar. Köllunin til að spila vitjaði hennar í
draumi þegar hún var nítján ára gömul.
„Ég vaknaði um morguninn og sagði: „Mamma,
ég held ég geti spilað á fiðlu.“ Og það var svo
skrítið að ég kannaðist strax við gripið um háls-
inn þegar ég snerti á fiðlunni.“ Í Hljóðfæra-
verslun Sigríðar Helgadóttur sá hún svo gamla
fiðlu sem Ólafur Ólafsson kristniboði hafði áður
átt. Fiðlan hafði verið lengi úti í Kína og fékkst á
500 krónur. Nágranni Herdísar, Árni Arinbjarnar,
þá átta ára gamall varð fyrsti kennari hennar.
Hún segir að þegar hún sótti um inngöngu í
Tónlistarskólann þá hafi setið þar í inntökunefnd
Páll Ísólfsson og fleiri stórmenni úr
tónlistarheiminum. „Kanntu eitthvað að spila?“
spurði Páll. „Ég hef fengið tilsögn í nokkrar
vikur hjá strák hérna. Á ég að spila fyrir ykkur?“
„Nei, í guðanna bænum!“ sagði Páll. En Herdís
var prófuð í takti og tónheyrn, komst í skólann
og var nokkrum árum seinna með í stofnun
Sinfóníuhljómsveitarinnar.
Ég bið Herdísi að segja frá sjúkdómi sínum og
viðbrögðum hennar við honum.
„Mér finnst maður verða að reyna að gera sér
grein fyrir því hvernig sjúkdómurinn þróast.
Fyrir nokkrum árum fannst mér minnið vera
farið að bila og fór til læknis. Hann lagði fyrir
mig spurningalista, sem ég svaraði eftir bestu
getu. Að því loknu sagði hann við mig að ég
væri án vafa með Alzheimersjúkdóminn. Þetta
var eins og köld gusa framan í mig og það tók
tíma að jafna sig á þessum dómi. Ég man að
meðal þess sem ég gat ekki svarað var hver
hefði verið fyrsti forseti Íslands.“
En hvernig var afstaða hennar til Hlíðabæjar
áður en hún kom hingað?
„Ég sagði bara við dóttur mína: „Nú, já. Á nú að
fara að setja mig í fóstur?!“ En svo var þetta bara
hrein upplifun að koma hingað og sú tilfinning
hefur haldist. Þetta er dásamlegur staður.“
Herdís er sagnabrunnur og margfróð og vissu-
lega hefði verið gaman að ræða miklu fleira við
hana, en hér verður ekki vettvangur fyrir það.
Áleitin spurning í lokin: „Grípurðu ekki stund-
um í fiðluna þína?“
Svarið er stutt en ákveðið. „Aldrei. Ég get ekki
hugsað mér það. Þessi kafli í lífi mínu er að
baki og þá er honum lokið. Mér finnst það best.“
P.B.
„Mamma, ég held ég geti
spila› á fi›lu“
V i ð t a l v i ð U n u H e r d í s i G r ö n d a l
Hér er Herdís vi› nokkur verka sinna í vinnustofunni
á ne›stu hæ›inni
V
i
›
t
a
l
i
›