SÍBS blaðið - feb. 2016, Síða 30
30
SÍBS-blaðiðGrein
Núvitund er að taka eftir með ásetningi og að vera meðvit-
aður um það sem er að gerast hér og nú án þess að dæma.
Núvitundarþjálfun kennir þér að hafa meðvitaða athygli á
því sem þú tekur eftir á hverju andartaki fyrir sig. Að dvelja í
andartakinu þar sem þú mætir því sem kemur upp og viður-
kennir það.
Núvitund fær okkur til að líta á fleiri hliðar og skoða á
meðvitaðan hátt aðrar áhrifaríkari leiðir til að bregðast við
erfiðleikum eða óþægindum í lífinu. Í hvert sinn sem okkur
tekst að fanga hugsun sem kemur upp í hugann og í hvert sinn
sem við sleppum hugsun og drögum athyglina aftur að öndun-
inni eða líkamanum þá erum við að styrkja núvitund okkar.
Tilfinningar eru hluti af lífinu og hvort þær orsaka vanda eða
ekki fer eftir því hvernig við bregðumst við þeim. Viljum við að
hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru eða leyfum við þeim að vera
nákvæmlega eins og þeir eru? Ef við bregðumst við óþægileg-
um tilfinningum með andúð þá eru allar líkur á að tilfinningin
magnist og við festumst í vanlíðan.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að þjálfun í núvitund getur
dregið marktækt úr bakslögum hjá þeim sem hafa fengið
endurtekið þunglyndi og minnkað hættuna á næstu þung-
lyndislotu um helming. Áhrifin virðast álíka góð og þegar
notuð eru þunglyndislyf. Einnig hafa rannsóknir sýnt að þjálf-
un í núvitund dragi úr streitu og kvíða.
Dæmi I: Þú ferð í gönguferð með ungu barni, gengur hægt og
stoppar oft. Þú sérð með augum barnsins hversu merkilegir
einfaldir hlutir eru. Þú ert að sjá eins og þú hafir aldrei séð
áður.
Dæmi II: Þú ekur leið sem þú þekkir vel, þú áttar þig
skyndilega á því að þú hefur ekki tekið eftir umhverfinu í góða
stund. Þú varst með hugann fastan í hugsunum um aðra hluti,
þú hefur ekið á „sjálfstýringunni.”
Þessi tvö dæmi sýna muninn á milli þess að lifa lífinu lifandi
hér og nú og þess að þjóta gegnum lífið, án þess að sjá, finna
bragð, lykt eða snerta á, úr sambandi við umheiminn. Oft
ökum við á „sjálfstýringu” en við nánari skoðun þá sjáum við
að við förum líka að miklu leyti í gegnum lífið á „sjálfstýring-
unni”. Hugurinn er ekki aðgerðalaus heldur er hann að
hugsa um það sem við ætluðum að gera eða hann dvelur í
dagdraumum um það sem við gætum gert. Þegar við erum á
„sjálfstýringu“ þá fer hugur okkar í vinnugír. Hann vinnur á
bak við tjöldin án þess að við vitum, samþykkjum eða veljum
það. Þá er auðvelt fyrir okkur að renna inn í vanlíðan sem
getur leitt af sér næstu þunglyndislotu eða áhyggjur sem festa
okkur í kvíða. Þetta hindrar okkur í að njóta jákvæðra þátta
í lífi okkar og verður til þess að við tökum varla eftir nema
hluta af því sem gerist í lífi okkar á hverju augnabliki. Það er
eðlilegur hlutur að líða illa inn á milli en það sem festir okkur í
vanlíðan eru tilraunir okkar til að losna undan erfiðum tilfinn-
ingum sem við viljum ekki hafa. Hugurinn reynir að losa sig
við vanlíðan með því að hugsa sig úr vandanum. Þessi tilraun
okkar að losna við vanlíðan með því að hugsa okkur úr henni
getur dýpkað og lengt enn frekar vanlíðan okkar. Vandinn
liggur í því hvernig hugurinn bregst við.
Aðferðafræði vinnuhugans virkar vel þegar við leysum
vandamál eins og að byggja hús og að komast á milli staða en
þegar vandamálið snertir líðan okkar þá virkar þetta ekki eins
vel. Því vinnuhugurinn notar sömu aðferðafræði þegar við ætl-
um ná fram innri persónulegum markmiðum. Markmiðum eins
og að vera hamingjusamur, vera ekki kvíðinn, vilja ekki vera
þunglyndur. Það er hér sem það fer að halla undan fæti. Vinnu-
hugurinn þarf að hafa í huga allan tímann, hvar við erum, hvar
Jóhanna Kr. Steingrímsdóttir
hjúkrunarfræðingur Reykjalundi
Anna Kristín Þorsteinsdóttir
hjúkrunarfræðingur Reykjalundi
„Að gera“ er ástand hugans
þar sem okkur finnst að við
getum ekki hætt að reyna að
ná því fram sem við viljum
eða losnað við það sem við
viljum ekki
Núvitund