Kvennalistinn - 01.04.1983, Blaðsíða 3

Kvennalistinn - 01.04.1983, Blaðsíða 3
Aprfl 1983 hf SIÐA 3 Ef hingað til lands kœmi í opinbera heimsókn Marsbúi og vœri, eins og gert er við góða gesti, leiddur fyrir helstu ráða- og fyrirmenn þjóðarinnar og fengi að kynna sér helstu valdastofnanir landsins, þá hlyti hann með réttu að álykta sem svo að þetta land byggi aðeins eitt kyn (ef hann þá þekkti það hugtak), sem hefði svo sér að baki og til aðstoðar einhvers konar vinnudýrategund. Eitt afþvífáa sem hugsanlega gœti ruglað hann í ríminu vceri, ef honum yrði boðið að Bessastöðum. Þar myndi blasa við honum vera, sem liti út einsog vinnudýrategundin. - En sem kurteis og vel upp alinn Marsbúi, myndi hann auðvitað ekki spyrja hvað ylliþessum ruglingi, heldur bara undrast í hljóði. Er þessi sýn Marsbúans rétt eða er hún mikið á skjön við þann veruleika sem við blasir? Ég hygg að sé margfrægum prósentu- reikningi beitt, sé útkomanauð- fundin og hún er sú sama og Marsbúans. Þjóðfélag þar sem karlar ráða lögum og lofum og valda- og áhrifaleysi kvenna blas- ir alls staðar við. Það þarf svo sem hvorki prósentureikning né Marsbúa til rökstuðnings, veru- leikinn einn nægir. Veruleikinn er staðreynd og talar sínu máli, þrátt fyrir og þvert á löggjöf um jafnrétti. e-Og hvað hefur svo þetta lög- festa jafnrétti fært konum? Hefur það fært konum völd á við karla? Hefur það fært konum laun á við karla? Hefur það fært konum endurmat á störfum kvennainnan og utan heimilis? Hefur það í raun fært konum jafnrétti til menntunar? Hefur það fært kon- um jafna stöðu á við karla til að stunda félagslíf, menningu o.s.frv.? Svarið við þessum spurningum er nei og lengi mætti telja enn og svarið yrði áfram nei. Móðurréttur Það er ekki aðeins það að jafn- réttislöggjöfin hafi á borði fært konum harla lítið jafnrétti, held- ur hefur hún beinlínis í ýmsu skert rétt þeirra. í nafni jafnréttis sitja konur ekki einar að smánar- lega stuttu fæðingarorlofi. í nafni jafnréttis hafa þær ekki lengur fortakslausan' umráðarétt yfir börnum sínum, þó þær hafi í lang- flestum tilfellum borið hita og þunga af uppeldi þeirra og umönnun. Móðurréttinum var fórnað í nafni jafnréttis. í nafni jafnréttis var skattalöggjöfinni breytt á þann veg, að það gerir mörgum giftum konum enn erf- iðara fyrir að vinna utan heimilis en áður var. Það er svo létt að færa rök fyrir því að það borgi sig ekki. í nafni jafnréttis skulu nú öll starfsheiti karlkennd. í nafni jafnréttis er hægt að bregða fæti fyrir allar hugmyndir um tíma- bundin forréttindi kvenna, til að hjálpa þeim að ná jafnrétti. Já það hefur miðað hægt og lítið. Enn eru konur í verst launuðu störfunum, enn standa þær utan valdakerfisins að mestu, enn eru þær verr menntaðar er karlmenn og enn bera þær í yfirgnæfandi meirihluta meginþungann af heimilishaldi, uppeldi og umönnun barna, aldraðra og sjúkra, allt til að karlar geti ó- truflaðir notið jafnréttislöggjaf- arinnar. Og síðast en ekki síst hefur jafnréttislöggjöfin í raun firrt karlmenn ábyrgð á stöðu - eða öllu heldur stöðuleysi kvenna, nú er allt undir konum sjálfum kom- ið. Ef eitthvað skortir á jafnrétt- ið, eru þær bara ekki nógu dug- legar að sækja rétt sinn. Enn bæt- ist á syndaregistur kvenna. En þegar nánar er að gáð bygg- ist þetta jafnrétti sem boðið er uppá í lögum, á herfilegu mis- rétti. Því misrétti sem felst í því, að það þjóðfélag sem konum er nú boðið uppá að ná jafnrétti í, er þjóðfélag karlmannsins, byggt á hans hugmyndum, miðað að hans þörfum og mótað af hans reynslu. Hann hefur tekið sér þann rétt, tekið sér segi ég, því það er eng- inn náttúruréttur, að byggja sér hús sem honum hentar til búsetu. Hann hefur meira að segja notað til þess nokkur þúsund ár. Nú opnar hann dyrnar og segir við konuna: „Gjörðu svo vel, allt mitt er þitt, láttu bara eins og þú sért heima hjá þér“. Og hvað er það þá sem hindrar konuna í að finnast hún eiga heima þarna og hreiðra um sig. Einfaldlega það að hún teiknaði ekki þetta hús, byggði það ekki, réði ekki lit þess eða lögun, herbergjastærð né húsbúnaði. Er furða að hún vilji byggja við. Eða jafnvel byggja nýtt hús, sem er þá í fyllingu tfmans hægt að tengja húsi karl- mannsins með skemmtilegri göngugötu, jafnvel yfirbyggðri. Orð Þannig blasir nú jafnréttislög- gjöfin og jafnréttishugtakið við konum. Og því fer eins og oft áður þegar eitthvað reynist á skjön, að það þarf að skyggnast bak við orð og hugtök, athuga réttmæti þeirra og gagnsemi. Og fyrst konum gagnast hugtakið jafnrétti ekki betur en nú horfir, þá verður að finna annað. Og hvert er þá andsvarið við þessum jafnréttishugmyndum á forsend- um karla? - Kvenfrelsi... Jafnrétti er fallegt orð og virðist við fyrstu sýn víðfeðmara en orðið kvenfrelsi, þar sem orð- ið kvenfrelsi tekur aðeins til frels- is annars kynsins, þ.e. kvenkyns- ins, og gefur óbeint til kynna að til sé þá eitthvað sem kallist karl- frelsi. En göngum varlega um orðin. Frelsi er stórt orð og auðvitað ekki til í hreinni mynd. Frelsi eru skorður settar. Otal aðstæður bæði náttúru og samfélags tak- marka frelsi hverrar manneskju, hvers kyns sem hún er. En notum þó orðið frelsi til hægðarauka. Það er auðvitað ljóst að jafnrétti allra karla innbyrðis er ekki fyrir hendi og frelsi þeirra því mismikl- ar skorður settar, en það breytir ekki því að auk þeirra frelsistak- markana sem samfélagið setur körlum jafnt sem konum, er sú staðreynd sem hefur dugað til að takmarka frelsi kvenna, allra kvenna, meira en karla, sú staðreynd að þær ala börn og annast þau. Þessa vinnu inna konur af hendi launalaust, svo nauðsynleg sem hún þó er hverju þjóðfélagi. Án hennar, engin börn, ekkert þjóðfélag. Þessi ólaunaða vinna kvenna hefur, þrátt fyrir að hún er lofuð í orði, verið á borði ein höfuðforsenda kvennakúgunar og eru konur ekki búnar að bíta úr nálinni með það. Tölur um efnahag kvenna tala þar sínu máli. Það þarf enginn að fara í grafgötur með það hvað það efnahagslega ósjálfstæði sem flestar konur búa við sníður þeim þröngan stakk. Hindrar þær í að finnast þær með fullum rétti geta * X r V K XKK X X xxx X; T»x XXX X XXX X X XX XXX X staðið upp og látið til sín heyra. Það að vera öðrum háður um efnahagslega afkomu elur á minnimáttarkennd og efa- semdum um að eigih skoðanir eigi rétt á sér. Sérstaklega ef þær ganga í berhögg við ríkjandi skoðanir. Þannig neyðast konúr til að taka þátt í og styðja eigin kúgun, með þögninni. En það er alþekkt að besta leiðin til að við- halda kúgun er að láta þann kúg- aða sjá um eigin kúgun. Það er ódýrast og hagkvæmast, sparar gæslusveitir. Það er þörf á kven- frelsisbaráttu til að lyfta þessu oki ósjálfstæðis af herðum kvenna, svo þær geti rétt úr kútnum og hafið upp raust sína. Rödd í þjóðfélagssinfóníunni Það efnahags- og félagslega misrétti, sem konur búa við er í sjálfu sér næg ástæða fyrir kven- frelsisbaráttu, en fleira kemur til. Ég ætla ekki að fara að tíunda það frekar hér, hve brýn nauðsyn er á því að sjónarmiða kvenna, sem þær hafa öðlast við þessa ólaunuðu vinnu í aldanna rás, fari að gæta í ríkum mæli í þessu þjóðfélagi og víðar, aðeins að undirstrika að því aðeins munar um rödd kvenna í þjóðfélagssin- fóníunni, að þær syngi með eigin nefi, skilgreini sig sjálfar, sitt líf og sín viðhorf og beri þau fram. Reki kvennapólitík. En hvað er þá kvennapólitík? Um hana væri hægt að fara mörg- um og flóknum orðum. Konur um víða veröld eru að vinna að því að koma því öllu skilmerki- lega á blað. Vinna að kvenna- rannsóknum, skapa konum nýja sögu, skapa þeim fortíð, afhjúpa líf, störf og menningu kvenna sem hafa verið sveipuð þagnar- hjúpi, stuðla að endurmati á öllu því sem okkur hefur verið innrætt um konur. Allt rennir þetta stoð- um undir hvað kvennapólitík er, er nauðsynlegur aflvaki og ómetanleg aðstoð. Auðiindir En jafnvel sú kona sem aldrei hefur lesið eina einustu bók um kvennafræði, aldrei heyrt neina fræðilega útskýringu á því hvað kvennamenning er, aldrei tekið sér orðið kvennapólitík í munn, þarf ekki að láta hugfallast. Því kvennapólitík er, þegar allt kem- ur til alls, ekkert annað en að hlusta eftir eigin rödd, taka mið af eigin reynslu, draga ályktanir af eigin hversdagsamstri og þeim vandamálum, stórum og smáum sem mæta okkur daglega, vera óhræddar við að vita hvað við viljum, hvað við viljum ekki og bera svo niðurstöður okkar fram, í nafni kvenfrelsis, þar til hlustað er á rödd kvenna til jafns við karla, þá fyrst getum við farið að tala um jafnrétti. Kvennapólitík þýðir nýtt gild- ismat, ný viðhorf, hugarfars- breyting. Kvennapólitík er að setja spurningar við öll sjónarmið sem lögð eru til grundvallar arðsemisútreikningum. Setja nýj- ar stærðir inn í dæmið í stað við- tekinna. Leggja ekki aðeins þau verðmæti sem mæld verða í pró- sentum og krónum til grundvall- ar, heldur önnur meiri, eins og til dæmis velferð barna okkar og líf. Hvaða arðsemissjónarmið ráða því að betra þykir að malbika götu en að skapa barni aðhlynn- ingu og skjól, meðan foreldrar vinna? Hvaða arðsemissjónarm- ið ráða því að vænlegt þykir að ganga hart að náttúru lands, og auðlindum? Hvað ræður því að það þykir arðbært að setja gróðurland undir vatn? Hvað ræður því að öllu er hent, ekkert endurnýtt og ólífrænum efnum og skaðlegum sífellt hlaðið upp allt í kring um okkur? Hvað ræður því mati að stríð sé vænlegt til varðveislu friðar, að dauði sé til verndar frelsi og lífi? Öll þessi sjónarmið verða konur að setja spurningarmerki við. Bregða á þau ljósi kvennamenningar, kvennapólitíkur, kvenfrelsis. Ein leið þessarar kvenfrelsis- baráttu er sú að bjóða fram sér- stakan kvennalista til Alþingis. Engan veginn sú eina og útilokar enga aðra. Kvenfrelsisbaráttu þarf að heyja á öllum víg- stöðvum, utan þings og innan, utan og innan veggja heimilisins, innan lands og utan. Það að rödd kvenna heyrist líka á Alþingi, ótrufluð af sjónarmiðum karla, hlýtur að vera tilraunarinnar virði. Að konur sitji þar á sínum eigin forsendum, kann að mjaka þessu þjóðfélagi fram á við. Látum að minnsta kosti enga leið ókannaða. Að standa vörð um lífíð Þó að baráttumál íslenskra kvenna kunni að virðast fáfengi- leg samanborið við það ástand sem milljónir kvenna um allan heim búa við, dregur það ekkert úr nauðsyn kvennabaráttu hér á landi, hér og nú, því með sömu rökum mætti halda því fram að ísland væri paradís á jörð, mælt á alheimsmælikvarða og því engra aðgerða þörf. En auðvitað erum við ekki stikkfrí. ísland er hluti af heild og í þeirri heild er enginn jarðarbúi undanskilinn, hvorki karl né kona. Þau öfl sem mestu ráða í heiminum í dag eru fjandsamleg þessari heild allri, öllu lífi, þar skal engu eirt, hvorki manni né náttúru. Ef við trúum því að konur hafi eitthvað til málanna að leggja sem gæti breytt þessari helstefnu og sameinast um að halda vörð um lífið, þá ber öllum íslenskum konum að leggja sitt af mörkum, eftir leiðum sem þær sjálfar kjósa sér og nota til þess öll ráð, að sú nóta sem þeim er úthlutað í al- heimshljóðfærinu megi hljóma kröftuglega og hreint. Þórhildur Þorleifsdóttir. s ic w *> c : cm k • P • • • 9 • • »• * • X ff • 9 ■ 9 « ■ ■ ■ «■» : ? w * 3 * PM pwp i : 9 r m 9 'm * • $ •r ■ S» 5 \ ' uyi * m C n ■ » C" • «411 nr» * Pjrm m • c . > « 3 • m • ■ ? : * • • : c 9 9 • . í 9 9m 9 • 9 w * .9 i. •> m 9 • • Þ * o m 9 • n «n • , J. f m * • 5 • 9. í w • • • I <• >ftr»

x

Kvennalistinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kvennalistinn
https://timarit.is/publication/1236

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.