Norðurslóð


Norðurslóð - 14.12.1984, Blaðsíða 7

Norðurslóð - 14.12.1984, Blaðsíða 7
Hrakningar Guðmundar Góða 1192 Helför á Heljardalsheiði Árni Hjartarson tók saman, Sigrún Eldjárn gerði myndirnar Heljardalsheiði var fjölfarnasta leið milli byggða i Eyjafirði og Skagafirði á öldum áður. Þar geta veður orðið válynd sem kunnugt er. Margir munu þeir orðnir sem lent hafa í hrakningum á heiðinni og margir hafa borið þar beinin. Elsta frásögn af mannskaða sem þar hefur orðið er í Guðmundar sögu Arasonar og fer sá kafli sögunnar hér á eftir. Guðmundur biskup góði Arason var um árabil prestur á Völlum í Svarfaðardal áður en hann tók við biskupsdómi á Hólum. Þeir atburðir sem hér greinir frá munu hafa átt sér stað í ársbyrjun 1192. Guðmundur býst til ferðar Það var annan vetur eftir jól Brettifumessu, að Guðmundur Arason bjóst heiman að fara vestur um heiði til Hóla að hitta Brand biskup og aðra vini sína, og slóst í för með honum margt manna, sem jafnan var vant. Þau urðu saman sextán menn og fóru um aftaninn upp á Skeið og voru þar um nóttina. En um morguninn eftir þá bjuggust þau til heiðarinnar, og skyldu þau fara Heljardalsheiði, og kalla menn að Guðmundi presti, að hann skyldi skunda að tíðum. En það varð ekki svo, og urðu tíðirnar seinni en aðrir vildu, en skjótari en hann vildi, og segir, að þeim mundi hvergi að betur farast, þótt hann hrapaði að tíðunum. Og nú búast þau til fararinnar og verða síðbúin. Þar var í för Helgi bóndi af Skeiði og Erlendur prestur Brandsson, er munkur var síðan, og Bjarni Jónsson, er Söng-Bjarni var kallaður, og Sigmundur hét maður og Klængur Þorsteinsson. Þar voru og í för fóstrar hans og lærisveinar. Gestur hét sveinn, sonur Snorra assabana. Hann var subdjákn að vígslu. Annar hét Vermundur, sonur Þorgríms af Brattavelli. Unni hann þeim svo mikið sem þeir væru hans synir. Þar var og í för með honum fóstra hans, er Jódís hét. Hún var Bersadóttir. Helga hét kona, er bjó hið næsta Völlum í Gröf. Hún var þar og sonur hennar, er Ingjaldur hét, og ein mær, er hét Dýrhildur, og enn hét kona Una. Hún var Herleifs- dóttir. Hrafnkell hét maður og var Skeggjason og kona hans Hallbera. Þau voru þar í för. En er þau komu á leið, þá var þannig veðri farið, að veður var þjökkt og vætudrífa og vind- lítið, og þótti öllum mönnum óteygiligt, en honum sjálfum óteygiligast. Veðrið brestur á En er þau sækja upp á heiðina, þá tekur veðrið að vaxa og kólna, þar til er fjúk gerir. Veðrið var á móti þeim, vestan- veður, og tók þá að kólna liði þeirra, og seinkaðist förin, því að margt var lið þeirra, börn og konur, klæðfátt og ófrátt. Veðrið gerir og hvasst og svo illt, að varla máttu karlar ganga í mót. Þá gerir og svo myrkt fjúk, að ekki sá af tám fram, og þá tekur að nátta. En er hann var kominn á heiði upp sjálfur, þá sest hann niður og bíður þess liðsins, er ófrára var. En er saman kom lið þeirra, þá lézt hann vilja, að þau snúi aftur forviðris ogforbrekkis, því að þá vissi enginn þeirra, hvar þau voru komin, og lézt honum þykja vænna, að nokkuð mundi til húsa komast af liði þeirra, ef þau heldi eigi fram förinni, og var það ráðs tekið. En Hrafnkell og þau Hallbera höfðu fyrst verið á leiðinni, og bar þau vestur af heiðinni, og kemst hann til byggðar til Heljardalsár, en hún lá úti við garðinn sjálfan og hafði þó líf sitt. Endalok mæðginanna frá Gröf Nú er þar til máls að taka, að þau Guðmundur prestur snúa aftur ferð sinni, og flæst hann úr kyrtlinum áður og steypir yfir meyna Unu, er þá kól áður mjög. Þá tekur hann í hönd Jódísi, fóstru sinni, og leiðir hana, en Erlendur prestur leiðir Vermund, en Gestur gekk með þeim einn saman. Þá tekur að skiljast lið þeirra, og saknár sveinninn Ingjaldar móður sinnar, og hafa þau Sigmundur skilizt frá liðinu og hún Helga, móðir sveinsins. Þau hrata í gil nokkurt ofan, en þá þóttist hún eigi ganga mega lengra, og grefur hann hana í fönn, og þar gengur hann frá henni, og hleypur þar yfir skriða. Hún ferst þar, og fannst eigi fyrr en um sumarið Kólumbamessu, en Sigmundur kom til byggðar á Skeið. Þá hvarf og sveinninn Ingjaldur, er hann vildi leita móður sinnar, og fannst lík hans Antonius- messu, og hringdist klukka sjálf í móti líki hans á Völlum, er hann var til kirkju færður. En Helgi bóndi fór með meyna Unu og Björn, uns hana þraut. Þá bjuggu þeir um hana og grófu hana í fönn og vöfðu hana i kyrtil Guðmundar prests, og gengu svo frá henni, og komust þeir heim loksins um nóttina. Sveinarnir verða úti En það lið, er fylgdi Guðmundi presti, tekur að dasast mjög og hörklar af heiðinni ofan. Þá var sveinninn Vermundur ógengur, og vildi Guðmundur prestur eigi ganga frá honum. Þá tekur Erlendur prestur að grafa þau í fönn, og meðan hann grefur fönnina, þá andaðist sveinninn í faðmi fóstra sínum undir kápu hans, og settist hann í fönnina og hjá honum Jódís, fóstra hans, og lík sveinsins Vermundar lá á honum ofan. Þá gengur Erlendur prestur á brott og með honum Gestur og Helgi. Þá hleypur sveinninn Gestur í á, og má hann þá eigi ganga lengra. Þá gróf Erlendur prestur hann í fönn. Hann andaðist, áður þeir gengu frá. Þá fara þau, unz þau koma til byggða loksins um nóttina og kunnu að segja þann skilnað, hversu þau höfðu skilið við sitt föruneyti, sumt líflátið, en sumt litlu betur. í fönn Þá voru þegar sendir menn ofan á Völlu að segja hvarf Guðmundar prests og margra manna með honum, og safnar Brandur Amþrúðarson mönnum þegar að leita Guðmundar prests, og verða þeir saman nær fjórir tigir manna. En er þau Guðmundur prestur liggja í fönninni, þá ræðir Jódís um, að hana kali á hálsinn, er berr var við snjóinn. En þá var ekki annað til aðgerða en þá rétti hann hönd sína undir háls henni, og lá hon þar á ofan um nóttina. Hann horfði í loft upp. En sveinninn lá á honum ofan, og gerir hann svo stirðan undir þeim báðum, að hann mátti nær ekki víkja sér. En er lýsa tekur um morgun- inn, þá leita þau ór fönninni, og er þá nær aflétt fjúkinu. Hann mátti þá ekki ganga, og verður þá lítt af förinni, en þó leita þau við að fara. Þá kemur fyrst í móti þeim Helgi bóndi af Skeiði með eyk og sleða, og ekur hann heim til bæjar þess, er næstur er heiðinni, og er þar um nóttina og um daginn eftir og hvílast. Þá sendir hann þegar eftir líkunum sveinanna, Gests og Vermundar, og váru þau færð ofan á Skeið. Þá var geisla- dagur á föstudegi, en þvátt- daginn eftir þá var farið upp á heiðina af nýju að leita líkanna, (og fannst þá eigi fleira en lík . Dýrhildar, af því að veður var Isvo illt, að ekki mátti leit við koma. Komast þeir aftur á Skeið um kveldit með Guðmund prest og með lík Dýrhildar. En dróttinsdaginn þá var farið ofan með líkin á Völlu og váru ekin í sleða, en í öðrum sleða var ekinn Guðmundur prestur og Jódís fóstra hans. En þá sendir hann enn Helga bónda og menn með honum upp á heiðina að leita, ef fleira fyndist af liði þeirra, og koma að þar, er búið var um meyna Unu, og var hún alls hvergi kalin váðakulda nema á tá eina, en það eitt hafði tekið undan kyrtlinum Guðmundar prests, er kalið var á, og er þá hætt leitinni þaðan af. Greftrun að Völlum Annan dag eftir þá eru líkin niður sett, og kemur fjöldi manna á Völlu um daginn, og fannst það á því, hversu mikið Svarfdælar unnu Guðmundi presti, að þeir þóttust hann hafa úr helju heimtan. En Guðmundur prestur söng yfir líkunum, en aðrir menn saum- uðu um þau. Þá klappaði hann í höfuð sveinunum og kyssti og grét við og mælti: „Guð lífgi þig og ykkar með sjálfum sér í ríki sínu.“ En er lokið var greftrinum, þá hlaupast að hundar, er fylgt höfðu mönnum þangað, og bitust svo ákaft, að menn máttu eigi skilja þá, og var hellt vatni á þá og togaðir í sundur og barðir, og létu eigi laust að heldur. Þá gengur Guðmundur prestur að hundunum og blessar þá og mælti við þá, að þeir láti laust og þegi í nafni föður og sonar og anda heilags. Þá láta hundarnir laust og þagna, og gengur síns vegar hvárr. „Þá gengur Guðmundur prestur að hundunum og blessar þá." NORÐURSLOÐ - 7

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.