Ráðunautafundur - 15.02.1989, Page 36
-28-
RÁÐUNAUTAFUNDUR 1989
Áhrif beitar á plöntur og Ifkanasmfð f beitarrannsóknum
Halldór Þorgeirsson
Rannsóknastofnun landbúnaöarins
INNGANGUR
í ágúst 1985 var haldin að Hvanneyri ráðstefna, sem styrkt var af Atlandshafs-
bandalaginu, um beitarrannsóknir á norðlægum slóðum. Hér verður gerð grein fyrir því
helsta sem fram kom á ráðstefnunni um áhrif beitar á plöntur og líkanasmíð í
beitarrannsóknum. Einnig verður farið nokkrum orðum um ýmislegt sem fram hefur
komið á sérsviðum þessum síðan. í næstu þremur erindum hér á eftir verður gerð
grein fyrir því sem fram kom á öðrum sérsviðum.
ÁHRIF BEITAR Á PLÖNTUR
Öll beitarstjórnun byggir á ákveðnum forsendum um áhrif beitar á plöntur. Það má
færa rök að því, að hið mikla starf, sem lagt er í þróun beitarkerfa víða um heim um
þessar mundir, felist fyrst og fremst í því að finna það beitarfyrirkomulag sem best
fellur að eðli beitarplantna viðkomandi svæðis. Sífellt færist í vöxt að beinar
mælingar á viðbrögðum plantna við beitarmeðferðinni séu þar lagðar til grundvallar, þó
hyggjuvit og reynsla skipi enn mikilvægan sess.
Steve Archer (Archer og Tieszen, 1986) gaf yfirlit á ráðstefnunni um rannsóknir á
áhrifum beitar á plöntur. Hann gerði greinarmun á rannsóknum eftir skipulagstigi,
þ.e. rannsóknum á stökum plöntum, stofnum plantna og plöntusamfélögum. Þessi
greinarmunur er mikilvægur, því sjálfstæðar fræðigreinar innan plöntuvistfræðinnar
fást við hvert skipulagsstig um sig. Þannig fæst vistfræðileg plöntulífeðlisfræði við
rannsóknir á viðbrögðum stakra plantna, stofnavistfræði við rannsóknir á viðbrögðum
plöntustofna og plöntusamfélagsfræði við rannsóknir á viðbrögðum plöntusamfélaga.
Við beitarrannsóknir þarf að kanna viðbrögð plantna á öllum þessum skipulagsstigum
samtímis, enda eru viðbrögðin mismunandi eftir skipulagsstigum og ekki sjálfgefið
hvernig áhrifin berast frá einu stigi til annars (MacMahon o.fl., 1981; Allen og Star,
1982).
Stakar plöntur
Plöntur þola beit misvel eins og alkunna er. Ef leita á svara við þvi hvað veldur
þessum mun, verður að gera greinarmun á tveimur flokkum beitarþolinna plantna, þ.e.
plöntum sem þola blaðskerðingu og plöntum sem komast hjá blaðskerðingu. Plöntur,