Ráðunautafundur - 15.02.1989, Blaðsíða 37
-29-
sem komast hjá blaðskerðingu, geta vaxið vel og dafnað þrátt fyrir töluvert beitarálag
á plöntusamfélagið i heild. Plöntur komast hjá beit af ýmsum orsökum, t.d. vegna
þess að þær eru mjög smáar; vegna þess að þær vaxa rétt ofan við jarðvegsyfirborðið;
vegna þyrna; vegna beitarletjandi efnasambanda; vegna sölnaðra plöntuhluta sem
hindra aðgang beitardýra að plöntunni, og svo mætti lengi telja. Þessar plöntur þola
hins vegar ekki allar blaðskerðingu.
Varðandi plöntur, sem eru beitarþolnar vegna þess að þær þola blaðskerðingu, er
svarið nokkru flóknara. Plöntur í þessum flokki mynda flestar ný blöð strax í kjölfar
blaðskerðingarinnar. Archer (Archer og Tieszen, 1986) ræðir um athygliverðan
samanburð á blaðskerðingarþoli plantna með mismunandi vaxtarform (Archer og
Tieszen, 1980). Hann kemst að þeirri niðurstöðu að plöntur með litinn burðarvef og
skammlíf blöð, og þ.a.l. mikla blaðveltu, þola almennt betur blaðskerðingu en plöntur
með mikinn burðarvef, langlíf blöð og litla blaðveltu. Þannig þola sígrænir runnar
blaðskerðingu mun verr en grös.
Til viðbótar við slíkan almennan mun milli vaxtarforma, þá er umtalsverður munur
á blaðskerðingarþoli plantna með sama vaxtarform. Grös eru gott dæmi um þetta.
Caldwell og Richards (Caldwell o.fl., 1981; Caldwell, 1984; Richards og Caldwell,
1985) hafa t.d. borið saman tvær tegundir þúfugrasa, sem eru af sömu ættkvísl, en
þola blaðskerðingu misvel. Blaðskerðingarþolið virðist í þessu tilfelli fyrst og fremst
felast í sveigjanleika í úthlutun kolvetna innan plöntunnar. Þannig fór hlutfallslega
meira af kolvetnum blaðskerðingarþolnu tegundarinnar í nýja sprotamyndun ofanjarðar
samhliða hægari rótarvexti eftir að plönturnar höfðu verið klipptar.
Ný blöð myndast ekki ef blaðmyndandi vaxtarbroddur er ekki fyrir hendi (Briske,
1986) . Þegar blaðsproti blómstrar, og verður að kynsprota, myndar hann ekki fleiri
blaðmyndandi vaxtarbrodda. Staðsetning toppbrums blaðsprota ræður miklu um
blaðskerðingarþolið. Ef toppbrumið er ofan í sverðinum, þar sem lítil hætta er á að
það klippist af við beit, getur blaðvöxtur haldið áfram óhindrað og blaðskerðingarþolið
er þ.a.l. mikið. Ef toppbrumið situr hins vegar hærra er töluverð hætta á að það
klippist af. Ef svo fer, er blaðmyndun háð nýmyndun sprota frá axlabrumum, sem er
hæggengur ferill. Þroskastig grasplöntunnar getur þannig ráðið úrslitum um
blaðskerðingarþol hennar. Þessa staðreynd nýta menn sér oft í beitarstjórnun t.d. með
þvi að beita graslendi einungis áður en toppbrumið lyftist upp úr sverðinum.
Það er fleira sem hefur áhrif á endurvöxt grasa eftir blaðskerðingu en hvort virkir
vaxtarbroddar eru fyrir hendi. Þar ræður mestu framboð kolvetna og steinefna. Hvað
kolvetnin varðar þá koma til tveir þættir, þ.e. hraði kolefnisnáms þeirra blaða sem
eftir standa og magn nýtanlegra lausra kolvetna í plöntunni. Hið síðarnefnda hefur
oft verið nefnt forðanæring. Tiltölulega lítið er vitað um hlutfallslegt vægi þessara
tveggja þátta, en nýjar niðurstöður benda til þess að mikilvægi forðanæringar grasa
hafi verið ofmetið (Richards, 1986). Þannig reyndist forðanæring tveggja tegunda