Ráðunautafundur - 15.02.1989, Page 44
-36-
í plöntuvali skepnunnar eftir því sem hlutur hennar í sverðinum eykst (Anna Guðrún
Þórhallsdóttir, 1981). Þéttleiki og hæð gróðurs hefur einnig áhrif á plöntuval
(Kenney og Black, 1984).
Efnainnihald gróðurs. Efnainnihald plöntunnar hefur afgerandi áhrif á hvort hún er
bitin. Ekki er hér eingöngu átt við næringargildi, heldur einnig ýmiskonar
beitarletjandi aukaefni (secondary compounds). Næringarinnihald gróðurs var lengi
talið afgerandi þáttur er ákvarðaði plöntuval, og skepnan talin hafa meðfædda
eiginleika til að velja ávallt úr bestu bitana (Arnold, 1964). Yfirleitt er næringargildi
þeirra plantna sem bitnar eru hærra en svarðarins yfirleitt (Arnold, 1964), en erfitt
hefur reynst að sýna fram á að um meðfæddan hæfileika sé að ræða (Provenza og
Balph, 1987).
Beitarletjandi aukaefnum hefur verið veitt sífellt meiri athygli að undanförnu í
tengslum við plöntuval (Freeland og Janzen, 1974). "Plant defense theory" (Rhoades,
1979) gerir ráð fyrir að plöntur þrói með sér varnir gegn beit. Hvers konar varnir
þróist taki mið af hversu miklar líkur séu á að plantan verði bitin og kostnaðinum við
vörnina (Feeny, 1975; Bryant et al., 1983). Sígrænar, hægvaxta tegundir sem vaxa á
næringarsnauðum stöðum hafa beitarletjandi aukaefni úr kolvetnissamböndum sem hafa
þau áhrif að meltanleiki plöntunnar minnkar. Sútunarsýrur (tannin) eru dæmi um slík
efni. Fljótvaxta tegundir er að jafnaði að finna á næringarríkari svæðum. Þessar
tegundir hafa þróað með sér beitarletjandi aukaefni með köfnunarefnissamböndum, svo
sem lútarefnum (alkaloids), sem hafa áhrif á miðtaugakerfi skepnunnar. Hérlendis eru
beitarletjandi aukaefni lítt könnuð en rannsóknir á íslensku birki benda þó til að það
hafi mun minna af slíkum aukaefnum en stofnar sömu tegundar frá Alaska og
meginlandinu (Bryant, pers. uppl.). Þó er ljóst að sútunarsýrur eru útbreiddar í
sígrænum jurtum hérlendis sem og annars staðar. Kísill (silica) hefur einnig verið
nefnt sem beitarletjandi aukaefni (Malechek et al., 1986; Van Soest, 1982). Töluvert
af kísil er að finna í íslenskum gróðri, þar á meðal í snarrót.
Eðlisbygging gróðurs. Beit hefur mikil áhrif á eðlisþætti gróðursins svo sem byggingu
(Archer og Tieszen, 1986). Bitin grös verða lágvaxnari og jarðlægari sem aftur dregur
úr líkum þess að plantan verði bitin á nýjan leik (Penning, 1986).
AÐLÖGUN BEITARDÝRA AÐ GRÓÐRI
Hin siðari ár hefur áhugi vaknað fyrir því að aðlaga beitardýr að þeim gróðri sem
fyrir er í landinu, í stað þess að breyta gróðrinum. Hægt er að aðlaga beitardýr með
því að velja og rækta fram stofna sem lífeðlisfræðilega eru sérstaklega vel fallnir til
að nýta sér ákveðin beitilönd og ákveðinn gróður (Warren et al., 1984). Einnig er
möguleiki að hafa áhrif á beitarval einstakra dýra með því að aðlaga beitaratferli
þeirra (Provenza og Balph, 1987; Anna Guðrún Þórhallsdóttir, 1988).