Ráðunautafundur - 15.02.1989, Blaðsíða 52
-44-
Lífeðlis- og lífefnafræðileg viðbrögð skepna við hitabreytingum eru mjög flókin (J.
Slee, 1979). Tveir þættir hafa aðallega áhrif á neðri mörk kjörhita hjá dýrum. Það eru
einangrun (fita, skinn og hár) og viðhaldsvarmi (hiti sem myndast í líkamanum vegna
efnaskipta, hreyfingar og áts) í líkamanum. Viðhaldsvarmi er breytilegur bæði innan
og milli dýrategunda. Viðhaldsvarmi í skepnum nærri burði eða í mikilli framleiðslu er
hærri, og neðri mörk kjörhita því lægri, en hjá dýrum á viðhaldsfóðri (1. tafla).
Samkvæmt þessu þola mjólkurkýr í hárri nyt vel lágt hitastig, en alþekkt er að í
kuldum sem eru vel yfir neðri mörkum kjörhita dregur úr framleiðslu þeirra. Fyrir
þessu geta eflaust verið nokkrar ástæður. Þær eru þó ekki að fullu þekktar, en nefna
má sem dæmi bein áhrif kuldans á júgrið. Fleiri dæmi mætti taka sem víkja frá
þessum reglum, því ljóst er að veðurfar getur haft áhrif á búfé án þess að það
tengist neðri eða efri mörkum kjörhitasviðs. Það eru líka sterkar líkur fyrir því að
lágt hitastig til lengri tíma orsaki viðvarandi breytingar á meltanleika og
efnaskiptum hjá búfé (R.J. Christopherson og B.A. Young, 1986). Þetta hefur vissa
kosti í köldu veðri, en einnig ókosti s.s. meiri orkunotkun.
Fari hitastigið niður fyrir neðri mörk kjörhita tekur ósjálfráða kerfi líkamans við
s. s. skjálfti, til að reyna að halda uppi líkamshitanum. Gagni þetta ekki lækkar
hitastig líkamans og skepnan deyr. Mest hætta er á þessu hjá nýfæddum dýrum, en
ólíklegt er að þetta eigi sér stað hjá fullvöxnu búfé á beit hér á landi sé
næringarástand og heilbrigði þeirra eðlilegt. Næstum öll lömb sem fæðast úti hér á
landi verða fyrir streitu vegna kulda af því neðri mörk kjörhitasviðs þeirra eru yfir
30 °C fyrstu klukkutímana eftir að þau fæðast. í 1. töflu sést áætlaður aukahiti sem
skepnan þarf að framleiða fyrir hverja gráðu sem lofthiti fer niður fyrir neðri mörk
kjörhita (R.J. Christopherson og B.A. Young, 1986). Tölurnar gilda ekki í votu veðri
og vindi, því þá hækka neðri mörk kjörhitans, vegna þess að einangrunargildi húðar
og hára minnkar.
Át er oft í öfugu hlutfalli við lofthita. Venjulega eykst át eftir því sem hiti
lækkar, en minnkar eftir þvi sem hitinn hækkar út fyrir kjörhitann. Þetta er þó ekki
algilt þvt sýnt hefur verið fram á að það dregur úr meltanleika og orkuáti eftir því
sem kólnar í veðri (Young, 1976). Meltanleiki og át eru þó oft óháð hvort öðru í
þessu tilviki. Oft dregur úr áti fyrst eftir að lofthiti lækkar en þegar skepnurnar
venjast kuldanum eykst átið og verður meira en það var áður en kólnaði (J. Slee,
1979). Það hefur sýnt sig að það dregur úr meltanleika þegar skepnur eru lengi í
kulda. Þetta stafar m. a. af því að fæðan fer hraðar í gegnum skepnuna og getur
þannig stuðlað að meira áti og betri orkunýtingu hjá búfé á beit. Þetta getur líka
haft jákvæð áhrif á próteinnýtinguna vegna minni leysanleika í vömb. Að öðru jöfnu
hefur lofthiti mest áhrif á meltanleika í minni dýrum með tiltölulega há neðri mörk
kjörhita s.s. rúið sauðfé og kálfa (R.J. Christopherson og B.A. Young,1986).