Ráðunautafundur - 15.02.1989, Page 67
-59-
RÁÐUNAUTAFUNDUR 1989
Landeyðing og landgræðsla á norðurslóðum
Sturla Friðriksson
Rannsóknastofnun landbúnaðarins
og
Sveinn Runólfsson
Landgrœðsla ríkisins
Dagana 7-13. september 1986 var haldin í Reykjavík ráðstefna á vegum Alþjóða
heimskautanefndarinnar um uppgræðslu og þróun gróðurlendis á norðurslóðum.
Sérfróðir menn um þetta efni komu frá flestum löndum umhverfis
norðurheimskautið nema Ráðstjórnarríkjunum. Flutt voru 36 erindi auk sérstaks
hátíðarfyrirlestrar forseta félagsins, Dr. Louis Rey, og setningarræðu formanns
ráðstefnunnar, sem var Sturla Friðriksson. Auk þess voru sýnd 26 viðfangsefni með
veggspjöldum. Síðar birtust 30 þessara erinda í tímariti Arctic and Alpine Research
(Vol 19(4): 1987) sem gefið er út í Colorado, Bandaríkjunum. Ritstjóri þeirrar útgáfu
taldi sér samt ekki fært að birta öll erindin og þurfti að hafna 32 erindum og
spjaldefnum. Hér skal reynt að gera nokkra grein fyrir því helsta af efninu, sem um
var fjallað og birt hefur verið.
Vert er að geta þess í upphafi, að vistkerfi norðursvæðis eru ekki aðeins á landi
heldur einnig í lofti og á legi. En landsvæðin ná yfir 19 milljón km2, það er land
sem liggur norðan 60°N br. Á þessum svæðum búa um 16 milljónir manna af ýmsu
þjóðerni. íbúar norðurslóða hafa að mestu lifað á veiðum og hjarðmennsku, aflað
viðurværis af villtu landi og er eðlilegt að þeim sé annt um að varðveita höfuðstól
þess lífríkis, sem þeir eðlilega telja undir sinni yfirstjórn. Árekstrar verða, þegar
þjóðir, er sunnar liggja, ásælast ýmsar auðlindir norðursins (Múller-Wille, 1987).
Gróðurfar heimsskautasvæða er sérstætt. Eðlismunur er á gróðri suðurhvels og
norðurslóða. Þar sem Suðurskautslandið er einangrað landflæmi umlukt hafsvæðum hafa
flutningaleiðir gróðurs til og frá verið örðugri þar en á norðurslóðum á síðari
tímaskeiðum jarðsögunnar. Áreiti á plöntur á heimskautaslóðum er af ýmsu tagi, þó er
frostfyrirbrigðið áhrifamest. Af 250 000 tegundum háplantna eru aðeins 1000 tegundir
á heimskautasvæðum norðan trjálínu. Tegundum fer fækkandi eftir því sem
meðalárshiti lækkar (1. mynd). Sérkenni norðlægra plöntutegunda er það að geta
stundað tillífun við hitastig á bilinu 0°-10°C (Billings, 1987).