Ráðunautafundur - 15.02.1989, Page 72
-64-
3. mynd. Hlutdeild plantna i sáðreit
i heiðargróðursflagi í Kanada.
Álitið er að um helmingur gróðurlendis hafi tapast við búsetu manna hér á landi.
Unnið hefur verið að því að sporna við áframhaldandi gróðureyðingu. í því augnamiði
var Sandgræðsla ríkisins stofnuð 1907, sem unnið hefur að stöðvun sandfoks og
uppgræðslu. Hefur melgresi verið notað í foksanda en túnvingull og vallarsveifgras til
uppgræðslu á örfoka melum. Nú hafa um 2% af flatarmáli landsins verið varin með
girðingum gegn beit búpenings. Þar hefur átt sér stað umtalsverður gróðurfarsbati og
á öðrum svæðum hefur gróðri farið fram, þar sem beit er létt af úthaga. Árangur í
endurheimt gróðurs er misjafn eftir hæð og jarðvegi, en einnig hefur fjarlægðin frá
frægjöfulu gróðurlendi áhrif og ennfremur þær uppgræðsluaðferðir sem notaðar eru
(Sveinn Runólfsson, 1987).
Hér er ógróið land einkum af fimm gerðum: jökulaurar, sandar, hraun, fokjörð og
vikrar. Gróður á aurunum er strjáll, þekur minna en 5% af yfirborði þeirra og lífrænt
efni þeirra er um 1%. Þekja gróðurs eykst í 50% eftir fimm ára áburðargjöf en lítil
aukning er í lífrænum efnum jarðvegs (Ólafur Arnalds, Ása L. Aradóttir og Ingvi
Þorsteinsson, 1987).
Álitið er að 8% landsins séu hæfir til skógræktar. Enda þótt björkin, sem er
innlend, henti vel til að varðveita jarðveg byggist skógrækt meira á notkun erlendra
trjátegunda. Af þeim hafa um 100 tegundir og 700 kvæmi verið reynd og þykja tíu
til fimmtán tegundir álitlegastar til ræktunar, en þrjár bera samt af, þær eru
Síberíulerki, Sitkagreni og stafafura. Hefur afrakstur af lerki árlega verið 7 m3 af
ha á 48 árum. Nú eru afgirtir 48 000 ha til skógræktar og hefur verið plantað í 5000
ha. Er árlega plantað um 800 000 ungplöntum á vegum Skógræktar ríkisins (Sigurður
Blöndal, 1987).