Ráðunautafundur - 15.02.1989, Page 75
-67-
RÁÐUNAUTAFUNDUR 1989
Veðurfar og jarðvegur
Grétar Guðbergsson
Rannsóknastofnun landbúnaðarins
INNGANGUR
í þessu erindi verður fjallað um helstu jarðvegsgerðir hérlendis og áhrif veðurfars á
jarðveginn. Einkum verður fjallað um þurrlendisjarðveg, enda er hann mun viðkvæmari
fyrir áhrifum veðurfars en votlendisjarðvegur.
íslenskum jarðvegi má skifta í tvo meginflokka: þurrlendisjarðveg - móajarðveg,
og votlendisjarðveg. Flokkunin er einkum háð jarðvatnsstöðu, en hún gloppu eða
gleypni bergsins, t.d. er þurrlendisjarðvegur nokkru útbreiddari á móbergssvæðum en
á blágrýtissvæðum.
Þurrlendisjarðvegurinn er að mestu gerður úr foki og eldfjallaösku.
Votlendisjarðvegurinn telst hins vegar lífrænt set enda að mestu gerður úr
jurtaleifum.
Lágur lofthiti veldur því að efnaveðrun er mjög hæg hérlendis. Nýmyndun leirs er
því hæg, sem er slæmt, því leir tefur fyrir útskolun næringarefna fyrir jurtir og
bindur áburð. Af sömu ástæðu losnar einnig treglega um ýmis næringarsölt úr
bergmylsnunni. Sömuleiðis veldur lágur lofthiti því að mýrarjarðvegur rotnar mjög
hægt og upphleðsla mýra því allhröð, t.d. hafa mýrar þykknað um allt að 60 cm frá
landnámi til þessa dags.
MÓAJARÐVEGUR OG SAMSETNING HANS
Á hlýviðrisskeiði nútímanns var allt þurrlendi þakið fokjarðvegi. Fokið er tilkomið á
tvennan hátt. Annars vegar hefur frostþensla, sjávarrof, og jökul- og vindsvörfun
kvarnað úr bergi, en hins vegar hafa eldfjöll lagt jarðveginum til mikið af gosösku
og vikri sem dreifst hefur yfir landið meðan á gosi stóð. Öskulögin eru oft skýrt
afmörkuð og veita upplýsingar um myndun og sögu jarðvegsins.
Vindurinn hefur auk þess feykt fíngerðri bergmylsnunni af eyrum og aurum
vatnsfalla, af söndum með ströndum fram, úr lítt grónu fjalllendi, og sett hana af
sér á gróið land. Einnig hefur vindurinn flutt þannig til vikur og ösku, einkum þar
sem þykkt gosefna var mikil, þ.e.a.s. öskugeirunum.
Bergfræðileg samsetning fokjarðvegs hefur verið rannsökuð á nokkrum stöðum á
landinu, svo sem í Holtum í Rangárvallasýslu, á Árskógsströnd við Eyjafjörð, í
Skagafirði og í Kelduhverfi í S-Þingeyjarsýslu.