Ráðunautafundur - 15.02.1989, Blaðsíða 107
-99-
RÁÐUNAUTAFUNDUR 1989
Birki til landgræðslu
Sigurður H. Magnússon
Rannsóknastofnun landbúnaðarins
INNGANGUR
Hér á landi hefur mikil áhersla verið lögð á að græða upp land með sáningu grasfræs
og dreifingu áburðar. Með sáningu og áburðargjöf hefur verið hægt að auka
gróðurþekju tiltölulega fljótt, jafnvel við erfiðar aðstæður (Sturla Friðriksson, 1969;
Sturla Friðriksson og Jóhann Pálsson, 1970). Þegar áburðargjöf er hætt verða fljótlega
miklar gróðurbreytingar, hlutdeild grasa í gróðurþekju minnkar, en jafnframt verða
breytingar á hlutföllum annarra tegunda svo sem mosa og fléttna (Elín
Gunnlaugsdóttir, 1981). Aftur á móti er lítið vitað hvaða áhrif þetta hefur á
gróðurframvindu þegar til lengri tíma er litið. Við þessar uppgræðsluaðgerðir hefur því
í meginatriðum verið beitt sömu aðferð og við ræktun í hefðbundnum landbúnaði og
hefur aðferðin verið notuð víða um lönd við uppgræðslu (sjá t.d. Younkin og Martens,
1987; Johnson, 1987; Bloomfield o.fl., 1982).
Á undanförnum árum hefur athygli manna beinst í ríkari mæli að vistfræðilegri
nálgun við uppgræðslu (Bradshaw 1983; Cargill og Chapin, 1987). Þar er lögð áhersla á
að afla þekkingar á náttúrlegri framvindu gróðurs og nýta hana í uppgræslustarfi.
Slíka þekkingu má nota til að segja fyrir um gróðurframvindu á svæðum sem græða
þarf upp og til að finna aðferðir sem henta þeim markmiðum sem stefnt er að með
uppgræðslunni. Ef slík grundvallarþekking er ekki fyrir hendi, má gera ráð fyrir, að
árangur verði ómarkviss (Cargill og Chapin, 1987).
Hér á landi hefur skilningur manna á þessu farið vaxandi og má í því sambandi
nefna, að talsverð áhersla er nú lögð á að nota frumherja, svo sem ýmsar
niturbindandi tegundir við uppgræðslu. Einnig er nú mikill áhugi á að nota ýmsar
innlendar tegundir, t.d. birki og víði, sem eru betur aðlagaðar þeim aðstæðum sem
ríkja á því svæði sem græða á upp en erlendar tegundir.
í þessari grein er í örstuttu máli fjallað um þátt birkis í gróðurframvindu og með
hvaða hætti megi koma upp birki hér á landi. Að lokum er greint frá
landgræðslurannsóknum á birki, sem hafnar eru á Rangárvöllum og drepið á nokkrar
niðurstöður þeirra.
ÞÁTTUR BIRKIS í GRÓÐURFRAMVINDU
Frumframvinda gróðurs hefur verið rannsökuð á nokkrum stöðum hér á landi. Gerðar