Ráðunautafundur - 15.02.1989, Qupperneq 108
-100-
hafa verið rannsóknir í jökulskerjum í Vatnajökli (Eyþór Einarsson, 1970), í Surtsey
(Sturla Friðriksson, 1987) og á jökulaurum í Skaftafelli (Persson, 1964). Elín
Gunnlaugsdóttir (1985) hefur auk þess rannsakað gróðurframvindu á uppgræðslusvæðum
á nokkrum stöðum sunnanlands og norðan. Af þeim svæðum sem rannsökuð hafa verið
með þessum hætti kemur birki við sögu á rannsóknasvæði Perssons í Skaftafelli.
Rannsóknir hans leiddu í ljós, að á jökullausu landi voru fléttur og mosar fyrstu
landnemarnir, en í kjölfar þeirra fylgdu ýmsar háplöntur, þeirra á meðal birki, en
allmikill birkiskógur er í hlíðinni norðaustan við aurana og því fremur stutt í
fræuppsprettu. Birki var ekki meðal allra fyrstu háplantna, en var farið að nema land
um 12-30 árum eftir að landið varð jökullaust. Hlutdeild birkisins í þekju fór síðan
stöðugt vaxandi og var orðin um 10%, þegar meira en 60 ár voru liðin frá því land
kom undan jökli. Á þessum tíma voru það aðeins gamburmosi og grámosi sem höfðu
meiri þekju en birkið. Persson taldi líklegt, að tegundir sem mynda svepprót, svo sem
birki, krækilyng og bláberjalyng hafi ekki getað náð góðum þroska á fyrstu stigum
gróðurframvindunnar. En talið er, að góður vöxtur birkis sé yfirleitt háður því, að
svepprót myndist snemma á lífsferlinum (Miles og Kinnaird, 1979a). Af rannsókn
Perssons er ljóst að birki getur komið tiltölulega snemma inn í gróðurframvinduna, en
einnig er ljóst að birki er ein þeirra tegunda sem myndar nokkuð stöðugt samfélag,
þ.e.a.s. birkiskóg (Kullman, 1981). Birkiskógur hefur af sumum verið talinn
hástigsgróður ýmissa svæða hér á landi, einkum á láglendi (Hákon Bjarnason, 1974).
Þar sem birki nemur land, breytast lífsskilyrði þeirra plantna sem fyrir eru.
Breytingar verða á geislun og skjól eykst, sem síðan leiðir til breytinga á t.d. hita og
raka í sverði. Að vetrinum skefur snjó af berangri og safnast hann þá fyrir þar sem
skjól er meira. Þannig safnar birkiskógur í sig meiri snjó en skóglaus svæði. Birki er
sumargrænt tré og lauffall þess sýrir ekki jarðveginn eins og nálar margra barrtrjáa
gera. Laufin rotna auðveldlega og hringrás næringarefna eykst, sem hefur bætandi
áhrif á jarðveg (Gimmingham, 1975). Gera má ráð fyrir, að þær breytingar sem verða
á gróðri samfara landnámi birkisins leiði til minni rofhættu og þannig myndist
samfélag sem er stöðugra og þolir betur ytri áföll en flest skóglaus svæði.
Þótt ekki hafi verið gerðar margar rannsóknir á landnámi birkis hér á landi, er
ljóst, að birki er víða að nema land i nágrenni skógarleifa. Á þetta einkum við um
svæði, sem eru að gróa upp eftir uppblástur, eða þar sem ár eða jöklar hafa skilað
gróðurlausu landi. Þessum svæðum er það sameiginlegt, að þar er engin eða mjög lítil
sauðfjárbeit. Sem dæmi um þetta má taka Haukadal á Rangárvöllum. Þar eru allvíða
skógarleifar á annars uppblásnu landi. Sumarbeit er mjög lítil og algerlega hefur
tekið fyrir vetrarbeit. 1 kjölfar minnkandi sauðfjárbeitar hefur birki náð sér upp á
hálfgrónum eða lítt grónum svæðum og má þar víða finna ungar birkiplöntur. Sama er
að segja um aurana í Morsárdal, en þar hafa miklar gróðurbreytingar átt sér stað á
síðustu árum. Eftir að fór að draga úr beit, sérstaklega með tilkomu þjóðgarðsins í