Ráðunautafundur - 15.02.1989, Side 109
-101-
Skaftafelli 1968, hefur birki breiðst mjög mikið út í dalnum, einkum á aurunum neðan
við Bæjarstaðaskóg. Víða annarsstaðar hefur friðun leitt til þess að birki hefur náð að
komast upp. í sumum tilfellum er um að ræða endurnýjun með rótarskotum, þar sem
birki hefur verið haldið niðri með beit, en í öðrum er um að ræða nýliðun af fræi. í
þessu sambandi má nefna skógræktargirðingarnar á Hallormsstað, Eiðum, í Ytra-Fjalli
í Aðaldal og á Vöglum á Þelamörk í Glæsibæjarhreppi (Sigurður Blöndal, munnlegar
upplýsingar).
LANDGRÆÐSLUAÐGERÐIR
Ef nota á íslenska birkið í landgræðslustarfi, er nauðsynlegt að nýta þá þekkingu og
reynslu sem aflast hefur bæði hér á landi og erlendis um vistfræði birkisins, svo sem
um lífsferil þess, hvaða áhrif það hefur á aðrar tegundir og umhverfi sitt.
Nauðsynlegt er að vita við hvaða skilyrði birki spírar best, þekkja ástæður
fræplöntudauða og helstu þætti sem áhrif hafa á vöxt ungra birkiplantna. Erlendis
hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir á þessum þáttum, en hér á landi hefur fremur
lítið verið gert á þessu sviði. Rannsóknir erlendis hafa t.d. sýnt, að spírun birkifræja
er háð ljósi. Ef fræin eru geymd í kulda um nokkurn tíma geta þau aftur á móti
spírað án þess að þau verði fyrir ljósáreiti og ljósþörfin minnkar einnig með auknu
hitastigi (Black og Wareing, 1955).
Komið hefur í ljós, að gerð svarðarins hefur afgerandi áhrif á hvernig birki
gengur að komast upp af fræi (Miles og Kinnaird, 1979a; Miles og Kinnaird, 1979b;
Olsson, 1984; Pigott, 1983). Birkifræin eru smá, hafa litla forðanæringu og því
skiljanlegt, að smávaxnar fræplöntur þess eigi erfitt uppdráttar þar sem svörður er
þykkur. Raunar hefur verið sýnt fram á, að á grónu þurrlendi verður nánast engin
spírun, nema þar sem sár eru í sverði, eða þar sem svörður er afar þunnur. Einnig
hefur komið fram, að birki getur spírað í sverði, ef raki er nægur t.d. í
barnamosaþúfum (Sphagnum) (Miles, 1973).
Afföll fræplantna eru yfirleitt mest fyrsta árið og eru þær sérlega viðkvæmar
skömmu eftir spírun; rætur eru þá smáar og illa þroskaðar og áföll geta haft
alvarlegar afleiðingar fyrir líf plöntunnar. Talið er, að birkiplöntur séu mjög
viðkvæmar fyrir þurrki á fyrstu stigum lífsferilsins (Kullman 1981; Olsson, 1984).
Dæmi eru um, að á þurrlendi hafi einnar viku þurrkur drepið meira en 90%
fræplantna (Miles og Kinnaird, 1979a). Því hefur verið haldið fram, að endurnýjun
birkis af fræi verði ekki nema þar sem jarðraki er stöðugur og í góðu meðallagi
(Kullman, 1981), einnig er talið, að afföll fyrsta veturinn séu yfirleitt mjög mikil og
eru ástæður þessa yfirleitt raktar til frosthreyfinga í jarðvegi (Miles og Kinnaird,
1979a).
Aukinn áhugi á birki beinist ekki eingöngu að notkun þess við uppgræðslu á illa
grónu eða hálfgrónu landi, því einnig er um að ræða áhuga á að auka birkiskóga á