Ráðunautafundur - 15.02.1989, Síða 136
-128-
Alls fundust 115 plöntutegundir í rannsóknarreitum í tilraunalandinu, töldust 52
þeirra til háplantna, 57 til mosa og 6 til fléttna. Mikill munur kom fram í útbreiðslu
háplantna og mosa. Meiri hluti háplöntutegundanna fannst í öllum hólfum og sjö
tegundir fundust í öllum rannsóknarreitum. Um fjórðungur mosategundanna fannst í
öllum hólfum en aðeins ein tegund í öllum reitum. Fjöldi háplöntutegunda var
svipaður í hólfunum þremur, en mosategundir voru langflestar í þungbeitta hólfinu.
Fléttutegundum fjölgaði i landinu með vaxandi beitarþunga (2. tafla).
Gróður þakti yfir 99% jarðvegsyfirborðs í léttbeitta og miðlungsbeitta hólfinu og
ógrónir blettir voru skráðir í innan við 10% mælipunkta. í þungbeitta hólfinu var 5-
10% af yfirborði ógróið og ógrónir blettir skráðir í 87% mælipunkta. Merki um
jarðvegsrof út frá ógrónum blettum sáust ekki. Þekja háplantna og sinu minnkaði í
hólfunum með vaxandi beitarálagi. í léttbeitta hólfinu var háplöntuþekja yfir 75% og
helmingi meiri en í þungbeitta hólfinu. Land var nær sinulaust í þungbeitta hólfinu,
en í miðlungsbeitta og léttbeitta hólfinu huldi sina um og yfir 40% jarðvegsyfirborðs.
Fremur lítill munur var á þekju mosa milli hólfa. Minnst var hún í léttbeitta
hólfinu, eða tæplega 50%, í samanburði við tæp 60% í hinum hólfunum (3. tafla)
Rikjandi háplöntutegundir í léttbeitta og miðlungsbeitta hólfinu voru hálíngresi,
mýrastör og snarrótarpuntur, en í þungbeitta hólfinu blávingull, mýrastör, kornsúra,
belgjastör og klófífa. Breytingar á magni einstakra plöntutegunda, sem rekja mátti
til beitarþunga, voru litlar milli léttbeitta og miðlungsbeitta hólfsins, en miklar milli
þungbeitta hólfsins og hinna hólfanna. Beitarþungi hafði áhrif á flestar þær tegundir
er fundust að einhverju marki í beitilandinu. Ámóta fjöldi háplöntutegunda jókst að
þekju og/eða tíðni með auknum beitarþunga og sá er lét undan síga, en þorri mosa
og fléttutegunda jókst.
Háplöntutegundir er létu undan síga með vaxandi beitarþunga voru flestar eftirsóttar
af hrossunum. Dæmi um það eru hálíngresi, mýrastör, vallarsveifgras og túnvingull.
Tegundirnar belgjastör, klófífa og blávingull jukust í landinu með vaxandi
beitarþunga þrátt fyrir að beitarálag á þær færi jafnframt vaxandi. Margar þeirra
tegunda er högnuðust af auknum beitarþunga eru næringarkræfar og/eða aðlagaðar
raski. Talið er að bætt næringarástand í jarðvegi vegna hlands og taðs, og aukið
svarðarrask, sem fylgir miklum beitarþunga hafi átt ríkan þátt i aukningu þessara
tegunda (4. tafla).