Ráðunautafundur - 15.02.1989, Blaðsíða 141
-133-
RÁÐUN AUT AFUNDUR 1989
Beitaratferli og plöntuval sauðfjár og hrossa
Sigþrúður Jónsdóttir
Rannsóknastofnun landbúnáöarins
INNGANGUR
Sambeit hrossa og sauðfjár hefur að öllum líkindum verið stunduð hér frá upphafi
byggðar, en ekki hafa miklar rannsóknir verið gerðar á henni. Áhugi manna á þessu
efni hefur aukist að undanförnu, ekki síst vegna þess að bæði reynsla bænda og
niðurstöður rannsókna hafa sýnt, að gróður nýtist betur og afurðir dýra aukast ef
beitt er saman hrossum og sauðfé (Ólafur Guðmundsson og Ólafur R. Dýrmundsson,
1987).
Víxlverkun plantna og grasbíta er lykilatriði í beitarkerfum og maðurinn getur
með sinni bústjórn haft áhrif þar á. Til þess að beitarkerfi skili sem bestum árangri,
verður að taka tillit til allra þátta þess, bæði gróðurs, dýra og umhverfis. Ef litið er
á hlut grasbíta í þessu samspili, er þekking á atferlismynstri og umhverfisáreiti, sem
verkar á það, mikilvæg bæði fyrir velferð dýranna og farsæla beitarstjórn.
Rannsóknir á atferli eru þess vegna grunnurinn sem má byggja á til að bæta meðferð
dýra, sem aftur leiðir til aukinna afurða.
í þessari grein verður fjallað um beitaratferli og plöntuval sauðfjár og hrossa með
sérstakri áherslu á félagsleg tengsl innan og milli þessara búfjártegunda. Hún er að
mestu leyti byggð á rannsókn sem gerð var í Gnúpverjahreppi sumarið 1987 (Sigþrúður
Jónsdóttir, 1988).
AÐFERÐIR
Tilraunasvæðið var á 36 hektara afgirtri útjörð, í landi Geldingaholts, þar sem greind
voru 8 gróðurfélög; graslendi, mýri, þursaskeggsmói, þursaskeggsmói með grasi,
mosaþemba, melur, jaðar og moldir. Stærð þessara gróðurlenda eru sýnd á 1. mynd. Á
svæðið var beitt 11 ám, 10 þeirra voru lembdar en ein geld, og 5 hrossum.
Rannsókinni var skipt í tvo hluta, í þeim fyrri var einungis beitt sauðfé, en í þeim
síðari var hrossunum bætt við. Var þetta gert til þess að sjá hvort hrossin hefðu
einhver áhrif á kindurnar. Tvær aðferðir voru notaðar til þess að kanna atferli og
landnýtingu dýranna. Önnur var sú að fylgjast stöðugt með þeim og skrá hvað þau
aðhöfðust og hin að fara um svæðið fjórum sinnum á dag á ákveðnum tímum. í hvert
skipti var skráð hvað hver einstaklingur var að gera og hvar hann var (staður og
gróðurgerð).