Ráðunautafundur - 15.02.1989, Page 145
-137-
HEIMASVÆÐI ("home range")
Hver ær átti sitt heimasvæði, þ.e. svæði þar sem hún hélt sig oftast. Þessi
heimasvæði voru tvenns konar. Ær, sem voru vanar að vera á tilraunasvæðinu, héldu
gjarnan hópinn (sumar voru skyldar) og voru þeirra heimasvæði á, eða nálægt svo
nefndum Fagurhól. Hinar áttu sín eigin heimasvæði, lengra frá Fagurhól.
Við náttúrulegar aðstæður eru félagsleg tengsl sauðfjár mjög stöðug. Jafnvel þar
sem landrými er nóg halda þær sig á sömu stöðum, með sömu einstaklingunum (Hafez
o.fl., 1969). Sauðfé hefur gott langtímaminni (Kilgour og Dalton 1984) og sækir aftur
á þá staði, sem það ólst upp á. Þetta er ekki ný speki sbr. íslenska málsháttinn,
"Man sauður hvar lamb gekk". Það er þvi ekki tilviljun að fjölskyldur haldi sig á
sömu stöðum ár eftir ár. Hunter og Milner (1963) ályktuðu, að fæðuval mæðgna væri
líkara en óskyldra kinda, vegna þess að þær halda sig á sömu svæðum og bíta í
sömu gróðurlendum. Staðhæfing Provenza og Balph (1987), um að móðir hafi mikil
áhrif á fæðuvenjur afkvæmis og að nám snemma á æfinni sé þar mjög mikilvægt,
styður jafnframt þessa ályktun.
Hunter (1964), sem athugaði skoskt Svarthöfðafé taldi að heimasvæði mynduðust
vegna félagslegrar samkeppni milli dýra, og því neyddust sum þeirra til að vera á
lélegri svæðum og næðu þar með ekki i bestu beitarplönturnar. Ef sú tilgáta er rétt,
hefur það áhrif á afurðir ánna og þær sem verða undir í þeirri samkeppni, ná ekki
fullri afurðagetu. Þetta getur því truflað úthagastjórnun og eins getur skipulag manna
s. s. flokkun kinda eftir aldri eða afurðum haft áhrif á myndun heimasvæða og
félagsskipulags dýra.
Eiginleg heimasvæði fundust ekki hjá hrossunum. Þau héldu alltaf hópinn og
notuðu aðeins um helming tilraunasvæðisins, þannig að dreifingin í haganum var
ójöfn.
PLÖNTUVAL
Plöntuval grasbíta er flókið fyrirbæri. Dýr þurfa að velja sér æti úr fjölda plantna,
sem eru breytilegar bæði milli og innan einstaklinga. Valið verður því flóknara eftir
því sem gróður er fjölbreyttari. Val getur verið bæði lárétt og lóðrétt. Með láréttu
vali er átt við, þegar dýr velja sér ákveðna bletti til að bíta, en með lóðréttu vali
þegar þau velja eftir lóðréttu sniði gróðursins. Þar sem gróður er lágvaxinn, 3-9 sm
t. d. i einsleitum túnum, er lárétt val mikilvægara. Þá eru efstu topparnir bitnir, en
lægri grös skilin eftir. Þannig myndast nokkurs konar hringbeit og með nákvæmri
stjórnun á beitarþunga er hægt að viðhalda stöðugri hæð grasanna. Ef gróður er
hávaxinn verður lóðrétt plöntuval æ mikilvægara og t.d. fer sauðfé að velja
mismunandi plöntuhluta.