Ráðunautafundur - 15.02.1989, Page 217
-209-
HELSTU GILDANDI LÖG OG REGLUR ER SNERTA DÝRAVERND
(í tímaröð):
- Lög um dýravernd, frá 13. apríl 1957.
- Reglugerð um útbúnað sláturhúsa og kjötfrystihúsa, 1958.
- Lög um geldingu húsdýra, frá 27. desember 1933 og reglugerð um geldingu húsdýra
og afhendingu deyfilyfja nr. 28/1959.
- Reglugerð um mynda- og kvikmyndatöku af örnum, fálkum, snæuglum og
haftyrðlum nr. 97/1968.
- Reglugerð um meðferð búfjár við rekstur og flutning með vögnum, skipum og
flugvélum, nr. 127/1958 og breyting á henni, nr. 232/1968.
- Reglugerð um dýragarða og sýningar á dýrum, nr. 67/1971.
- Reglugerð um notkun dýra í vísindalegum tilgangi, nr. 77/1973.
- Lög um fuglaveiðar og fuglafriðun, nr. 33/1966 með breytingum um sektarákvæði
frá 1982.
- Reglugerð um loðkanínurækt frá 3. október 1984.
- Reglugerð um hænsnahald í búrum, nr. 125/1986.
Frumvarp til nýrra laga um fuglaveiðar og fuglafriðun bíður þess að verða lagt fram.
Auk þess er komið beint eða óbeint að dýravernd í fjölda annarra laga og reglugerða.
TIL ATHUGUNAR
Því miður hafa viðbrögð við dýraverndarmálum hérlendis oft einkennst af tómlæti.
Þetta eru ósjaldan viðkvæm mál, sem flestum þykir betra að þurfa ekki að skipta sér
af. Tómlætið hefur einkennt afskipti almennings, stjórnvalda, bænda og jafnvel
þeirra, sem lögum samkvæmt eiga að hafa afskipti af dýraverndarmálum.
Skynsamlegt er að huga að því hvað gerst hefur í öðrum löndum þar sem umræðan
hefur stundum farið út í öfgar og spillt sambandinu milli framleiðenda og almennings.
Skemmdarverk öfgahópa hafa stundum valdið stórtjóni. Ekkert mælir þvl móti að
svipuð umræða og aðgerðir geti hafist hér á landi fyrr en varir. Endurskoðun
dýraverndarlaganna er tímabær. Búskaparhættir hafa breyst mjög síðan lögin voru
sett 1957. Verksmiðjubúskapur er að ryðja sér til rúms, bilin milli húsdýrs og hirðis,
milli sveitar og þéttbýlis breikka. Betra er að vera á undan öfgaöflunum og bæta það
áður en illa fer og setja eðlilegar reglur í tæka tíð. í október s.l. kom út í Noregi
bókin "Etikk í fjöset" og fjallar um hina siðfræðilegu hlið búskapar, vel gerð bók sem
ástæða er fyrir landbúnaðarfólk og aðra að kynna sér. Við þurfum að breyta viðhorfi
almennings og ýta hressilega við samvisku þeirra, sem ekki standa sig nógu vel.
Enginn vafi er á því að ráðunautar geta gert verulegt gagn á þessu sviði sökum
þekkingar sinnar, reynslu og aðstöðu.