Ráðunautafundur - 15.02.1989, Blaðsíða 250
-242-
konur stunda vinnu í nærliggjandi þéttbýli, en þær landfræðilegu aðstæður eru ekki
alls staðar fyrir hendi. Flestar konur kjósa að stunda vinnu á þeim tímum sem lítið
er að gera við búskapinn. Konurnar vilja, eða verða, að sinna bústörfum á álagstímum,
þó tekjur af búskapnum nægi ekki til árslauna. Slík aukavinna verður þá að vera
heima eða í næsta nágrenni. Sveigjanlegur vinnutími er slíkum konum nauðsyn.
Vetrarvinna er í flestum tilfellum æskilegust. Sumarvinna við ferðaþjónustu skapar
mörgum konum atvinnutekjur, en þó eru á því sviði margir ónýttir möguleikar.
Edduhótel og veiðihús eru víða rekin með aðfluttu vinnuafli. Á því málefni verður að
taka, því sveitunum er lífsnauðsyn að nýta þau atvinnutækifæri sem til verða á
þeirra svæði.
Reyndar má hafa þrennt að Ieiðarljósi við leit að atvinnu fyrir sveitafólk:
1. að starfið sér arðbært, gefi viðunandi tekjur, ekki föndur.
2. að starfið byggi sem mest á þeim auðlindum sem fyrir eru,
s.s. jarðarafnotum og verkkunnáttu.
3. að starfsemin treysti byggðafestu.
Hvað geta bændakonur gert? Svarið er einfalt, fjögurra stafa orð; allt. Frá
landnámstíð hefur þeim verið ætlað það, svo vart erum við nútímakonur forverum
okkar lakari. Það er aðeins meðan einhver annar er tilbúin til að vinna ákveðin verk
sem okkur er vantreyst. Smiður, kóngur, kennari, kerra, plógur, hestur, á jafnvel við
bændakonur, sem bændur.
Hvað vilja þær gera? Því get ég ekki svarað, þær hafa ekki verið spurðar. Og það
sem meira er, margar þeirra hafa ekki spurt sjálfar sig þessarar spurningar. Það
hefur ekki verið ætlast til þess að þær hefðu skoðanir á þeim málum. Margar hafa þó
ákveðnar skoðanir á málefninu og hafa lýst þeim skoðunum í heyranda hljóði. Flestar
þær konur sem ég hef talað við, vilja auka fjölskyldutekjurnar. Óska eftir atvinnu
hluta úr ári, þannig að eftir sem áður gegni þær þýðingarmiklu hlutverki við
búskapinn. Langanir annarra kvenna snúast ekki um búreksturinn, þær konur vilja
nota starfshæfni sína, óháðar atvinnu eiginmanns/sambýlismanns. Rétt er að minnast
þess að inngönguskilyrði í bændakvennastétt eru aðeins þau, að hafa valið sér bónda
sem maka. Það er ekki spurt um löngun, vilja eða hæfni, að axla þær skyldur sem
starfinu fylgja, aðeins makaval ræður. Þess vegna má búast við að innan stéttarinnar
sé fjöldi kvenna sem býr yfir menntun, starfsþjálfun og löngun til starfa, sem á
engan hátt tengjast landbúnaði. Til þess að missa ekki þessar konur og maka þeirra
burtu úr sveitunum verður að skapa sem fjölbreyttust atvinnutækifæri í hverju
byggðarlagi. Þá erum við komin að því hvað er framkvæmanlegt og hvernig.