Norðurslóð - 15.12.2005, Blaðsíða 8

Norðurslóð - 15.12.2005, Blaðsíða 8
8 - Norðurslóð Haust Ursvalur morgunn, þoka niður á tún, súld í brjóstinu. Gullhamrar gærdagsins virka ekki í dag. Eitthvað fór úrskeiðis. Skyldi morgundagurinn verða góður? Rimarnar lokuðu sjóndeildarhringnum áður fyrr. Svo fór eg að heiman, þær fluttu með mér. Nú hvíli eg augu mín á hlíðum þeirra þegar víðáttan þreytir mig. Þú söðlar hest þinn, leitar einn á vit fjallsins í morgunskímunni. Efþú brynnir honum í læknum á heiðinni, líttu þá niður í dalinn sem gaf þér ungum kraft til að stíga á bak þessum villta hesti sem ber þig í ógöngur. Heiða Hrings- dóttir fædd 1961, er hjúkrun- arkona á Dalvík og býr í Svæði. Talfrclsi unglingsins Ég tala við ömmu, þegar mig vantar kjól á árshátíðina. Ég tala við afa, þegar mig vantar peninga. Ég tala við pabba, þegar mig vantar bílinn. Ég tala við mömmu, þegar mig vantar hrein föt. Ég tala við vinina, um allt annað. Hvað! er ekki talfrelsi í þessu landi? Til Ömmu Elsku besta amma mín alltaf mjúk var höndin þín. Mig þú breiddir ofaná, engla baðst svo um að sjá. Þú kenndir mér kvæði og hvað væri rétt, kærleikur þinn gerði störfin öll létt. Hjá þér ég skjól og hlýju fann, þitt hjartalag gerði mig betri mann. Vinátta Að eiga vin á ævibraut er ekki lítils virði Það lífgar, gleður, læknar þraul og léttir lífsins byrði. Störukcppni Ég hef staðið mig vel í störukeppni við dauðann, svo oft hef ég horfst í augu við hann og unnið. Sjónvarpið Fyrsta vísan sem ég orti og skráði niður, þegar ég var 10 ára. Sendi hana í Stundina okkar þar sem hún var lesin upp. í sjónvarpinu við sjáum margt sem er vert að skoða. Blíðalogn og blómaskart böl og mikinn voða. Minning Það mun hafa verið í öðrum bekk í barnaskólanum á Dalvík sem Stefán Bjarman kenndi okkur söng. Ekki man ég margt úr tímunum, en sé Stefán fyrir mér, þennan stóra og höfðing- lega mann með myndarlegt nef, þar sem hann situr við flygilinn, spilar undir sönginn og kemur inn á milli með ábendingar og athugasemdir um raddbeitinguna hjá okkur. Hann átti stóran rauðköflóttan neftóbak- sklút. Það hefur líklega verið við skólaupp- sögn. Stefán sat við flygilinn og spilaði undir söng á milli atriða. Þá var það mitt í ræðu Steingríms skólastjóra, að hávær og hressi- leg snýta kvað við frá flyglinum og rauf hina hátíðlegu stemningu. Éinkennilegt hvernig svona smáatvik festast í huga manns. En eftir á að hyggja er þessi snýta líklega táknræn um Stefán Bjarman. Hann var ekki maður sem hegðaði sér endilega eftir siðabókum, heldur lifði lífinu á sinn persónulega hátt og hafði sína hentisemi. Hann sagði á efri árum að sig hefði alveg skort metnað til að sækjast eftir borgaralegum vegtyllum. Það var áreiðanlega rétt. En hins vegar er hann minnisstæðari þeim sem þekktu hann, jafn- vel aðeins lítið eitt, en margir aðrir sem hærri stöður skipuðu. I Mér finnst maklegt að minnast Stefáns Bjarman í Norðurslóð. Þótt hann væri ekki Svarfdælingur og ætti meginhluta ævinnar heima utan byggðarlagsins, kom hann við sögu þess og er engan veginn gleymdur Dalvíkingum sem komnir eru yfir miðjan aldur og mega minnast dvalar hans í bænum - eða þorpinu eins og þá var sagt. Stefán átti heima á Dalvík tvö tímabil. Fyrsl kom hann árið 1937, hafði þá árin á undan fengist aðallega við kennslu og skrif- stofustörf í Reykjavík og á Akureyri, en til Dalvíkur kom hann frá kennslu á Siglufirði. Stefán tók við skólastjórn unglingadeildar Dalvíkurskóla af Pétri Finnbogasyni (ævi- saga hans, rituð af Gunnari bróður hans, kom út fyrir nokkrum árum). Stefán gegndi þessu starfi í þrjú ár, til 1940. En það kemur á óvart og sýnir fjöllyndi hans, að árið 1939 sótti hann um starf hafnarstjóra á Dalvík þegar sú staða var fyrst auglýst (Saga Dalvíkur III, 373). Steingrímur Þorsteinsson var þá ráðinn hafnarstjóri, en 1942 tók Gunnar Jónsson við því starfi og gegndi síðan um áratugaskeið eins og Dalvíkingar muna vel. - Frá 1940 bjó Stefán Bjarman á Akureyri og fékkst við kennslu og skrifslofustörf sem fyrr. - Svo var það árið 1949 að hann kom aftur út eftir og varð kennari við unglinga- og miðskól- ann á Dalvík. En 1956 fluttist hann enn til Akureyrar og var skrifstofustjóri vinnumið- lunarskrifstofunnar til 1968. Kennslu Stefáns get ég ekki lýst af eigin raun fram yfir það sem í upphafi sagði. En tveir af nemendum hans í unglingaskólanum, gamlir nágrannar mínir, Jóhann Tryggvason og Nanna Jónasdóttir, hafa lýst honum fyrir mér sem mjög lifandi og skemmtilegum kennara. Hann hélt sig ekki stíft við bókina, tók útúrdúra og sagði sögur þegar tilefni gafst, af sinni víðtæku reynslu og þekkingu. Hann var svolítið óútreiknanlegur, sagði Nanna,en hafði góð tök á nemendahópnum. Hann kenndi ýmsar greinar, til dæmis land- afræði, en sérstaklega var hann rómaður enskukennari, sem ekki kemur á óvart, slíkt vald sem hann hafði á þeirri tungu. Þeim Jóhanni og Nönnu ber saman um að hann hafi verið virtur kennari, enda naut sú starfsstétt almennt virðingar í þá daga. Hann hneigðist alla tíð nokkuð til víns, en aldrei kom það niður á kennslu hans, þótt stundum mætti merkja af honum áfengislykt, sagði Jóhann. Um skeið bjuggu þau hjón, Stefán og Þóra, í Sunnuhvoli, en síðustu árin á Dalvík áttu þau heima á Bjarkarbraut 5. Ekki mun Stefán Bjarman hafa blandað sér mikið í almenn mál á Dalvík, en hann naut virðingar á staðnum, jafnt meðal pólitískra samherja sem andstæðinga, sagði Jóhann mér, en Stefán var alla tíð mjög pólitískur, róttæk- ur vinstri maður. Það leyndi sér ekki í fram- göngu hans að þar fór heimsborgari, þó hann væri engu síður alþýðlegur og án alls yfirlætis. í söngmálum Dalvíkur lét hann til sín taka, því að forgöngu hans var stofnað Söngfélagið Sindri 1952. Stefán stjórnaði þeim kór þar til hann fluttist burtu, en Sindri var fyrirrennari Karlakórs Dalvíkur. í tónlistarsögu byggðar- lagsins skipar Stefán því merkissess sem sjást mun þegar sú saga verður sögð. um Stefán Nanna Jónasdóttir lét í ljós við mig að hann myndi hafa notið sín betur sem kenn- ari með eldri og þroskaðri nemendum. Vafalaust er það rétt. Samt hefur Stefán haft ánægju af kennslunni og gaman af að kynn- ast ungu fólki, þótt hann hefði ekki búið sig undir kennslu með formlegu námi frernur en önnur störf sín. Hann var líka mjög vel að sér í tónlist, hafði ágæta heyrn í þeim efnum og stjórnaði skólakórnum með rniklum tilþrif- um. Víst má sjá slíkan mann fyrir sér við ann- ars konar menntastofnanir en unglingaskóla. Sú ályktun er því nærtæk að hæfileikum hans hefði mátt verja betur en í þeim störfum sem urðu lífshlutverk hans. En meiru skiptir að Stefán Bjarman reyndist nemendum sínum vel, opnaði fyrir þeim víðari heim en þeir höfðu áður kynnst. Hann bar umhyggju fyrir þeim og uppskar hlýjan hug þeirra þaðan í frá. Það eru mannleg verðmæti sem endast ævilangt að kynnast slíkum kennurum og fullur vafi á að orðstír Stefáns hefði orðið meiri á öðrum starfsvettvangi. II Stefán Árnason, sem síðar tók upp ættar- nafnið Bjarman, fæddist 10. janúar 1894, á Nautabúi í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, en ólst upp á Reykjum í Tungusveil. Foreldrar hans voru Árni Eiríksson og Steinunn Jónsdóttir. Þau voru af grónum skagfirskum ættum, en að einum fjórða var ætt Stefáns úr Þingeyjarsýslu. Hann var af miklum fremdarmönnum kominn; langafi hans í móðurætt var Sveinn Pálsson læknir og náttúrfræðingur, en langalangafi Bjarni Pálsson, fyrsti landlæknir íslands (frá Upsum). Forfaðir hans lengra aftur var Skúli Magnússon fógeti. Árni Eiríksson, faðir Stefáns, var gáf- aður maður, en fyrir meinleg atvik komst hann ekki til langskólanáms. En hann var tónhneigður og nam tónlist í Reykjavík, hjá Jónasi Helgasyni, söng og orgelspil. Þau áhrif bar Árni heim í Skagafjörð. Synir hans tveir, Stefán og Sveinn Bjarman, sem varð aðalbókari KEA á Akureyri, eri'ðu tónlist- arhneigð föður síns og komu báðir við tón- listarlíf á Norðurlandi. Um fermingaraldur fluttist Stefán ineð fjölskyldu sinni úr Skagafirði til Akureyrar þar sem foreldrar hans bjuggu upp frá því og Árni gerðist gjaldkeri við íslandsbanka. Stefán lauk námi í Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1911. Síðar lá leið hans til Reykjavíkur til náms í Menntaskólanum. Þá fékk hann að búa í hinu fræga Unuhúsi, hjá Unu og Erlendi syni hennar, en þangað þyrptist óvenjuleg sveit ungra andans manna þjóðarinnar, svo sem margsinnis hefur verið rakið opinberlega. Stefán varð mikill vinur Erlendar og tengdi þá í senn áhugi á tónlist og bókmenntum og einnig munu stjórnmála- skoðanir þeirra hafa farið saman. Alla tíð mat Stefán Erlend öðrum mönnum meira og kynnin af honum örvuðu hann til þeirra andlegu afreka sem hann vann. En sá víðtæki menningaráhugi sem glædd- ist í Unuhúsi varð líka til að glepja Stefán við skólanámið og fór svo að hann hætti því eftir fjórða bekk. Næstu árin var hann nokk- uð óráðinn, ætlaði um sinn að bæta sér upp ósigur á menntabraut með því að auðgast á kaupsýslu, en það fór út um þúfur, enda áhugi hans og hæfileikar engan veginn á því sviði. Upp úr því fór Stefán af landi brott, Bjarman Eftir Gunnar Stefáns- son vestur um haf. I fimm ár, 1925-30, bjó hann í Kanada og Bandaríkjunum og fékkst við banka- og vátryggingarstörf og fleira. Þetta var rnikill mótunar- og reynslutími, Stefán öðlaðist þá kunnugleika af Vesturheimi, mannþekkingu og færni í enskri tungu sem síðar kom honum að góðu gagni. Á þessum árum kynntist hann ýmsum Vestur- Islendingum, þeirra frægastur var Stephan G. Stephansson, sýslungi Stefáns Bjarman. Hann hreifst mjög af skáldinu sem hann sat með eitt sinn í fámennu samsæti í Winnipeg, og hafði þau orð síðar að Stephan G. hefði verið „fallegasti vínneytandi“ sem hann hefði kynnst. Eftir heimkomuna til íslands tóku við kennslu- og skrifstofustörf á Norðurlandi sem áður var rakið og loks störfin hjá vinn- umiðlunaskrifstofu Akureyrar. Árið 1931 kvæntist Stefán Ágústu Kolbeinsdóttur saumakonu, en þau slitu samvistir 1937. Síðar hóf hann sambúð með Þóru Eiðsdóttur iðn- verkakonu og gengu þau í hjónaband 1957. Stefán eignaðist ekki afkomendur. Á fimmta áratug síðustu aldar vann Stefán Bjarman þau störf sem einkum halda nafni hans á lofti, en það eru þýðingar á öndvegis- verkum í bandarískum bókmenntum. Fyrst þýddi hann söguna The Grapes of Wrath, Þrúgur reiðinnar, eftir John Steinbeck. Það var snemma á styrjaldarárunum sem Stefáni barst sú bók ný af nálinni og fannst honum þegar að sagan yrði að koma út á íslensku. Þýðing þessarar miklu bókar kom út í tveimur bindum á árunum 1943-44. Þá þýddi Stefán, ásamt öðrum, tvær sögur eftir Pearl Buck, Drekakyn, 1945, og Búrma, 1948. Síðan kom saga þriðja Bandaríkjamannsins og þess frægasta, Ernests Hemingways, For Whom the Bell Tolls, sem þýðandinn nefndi Hverjum klukkan glymur, en útgefandinn vildi nefna Klukkan kallar þegar hún kom út. Þessi þýðing var lengi í deiglunni og sagð- ist Stefán ekki hafa getað sinnt henni fyrstu kennaraárin á Dalvík, enda hefði hann þá líka tekið að sér bókhald fyrir tvö útgerð- arfélög og eitt nótaverkstæði á staðnum, - það hefur vafalaust verið á vegum Kristins Jónssonar. En þýðingunni lauk Stefán, for- málinn er skrifaður í Sunnuhvoli í nóvember 1951, en í árslok kom bókin út. - Þar með var ekki lokið þýðingastarfi hans. Á efri árum þýddi hann enn tvær bækur, það eru Brœðurnir Rico eftir belgíska glæpasagna- höfundinn Georges Sinrenon, 1970, og loks Umrenningar (Landstrykere) eftir norska sagnameistarann Knut Hamsun, 1972-73. Það voru sannarlega engir aukvisar í rithöf- undahópi sem Stefán Bjarman glímdi við. Af þýðingum Stefáns eru frægastar Þrúgur reiðinnar og Hverjum klukkan glym- ur. Hafa báðar verið endurútgefnar tvisvar, sú seinni með þeim titli sem þýðandinn valdi henni. Þessi stórverk munu öllum ógleym- anleg sem lesið hafa. Þýðingar Stefáns eru gerðar af mikilli íþrótt og nýtur orðfærni hans og stílþróttur sín sérstaklega vel í hinni litríku og átakanlegu skáldsögu Steinbecks. Hverjum klukkan glymur er geysilega vand- þýdd saga, sumir segja óþýðanleg, samin á „spænskri amerísku“, en hún gerist í borg- arastyrjöldinni á Spáni. Vandkvæðunum á að þýða þessa bók lýsir vinur þýðandans, Halldór Laxness, með miklum tilþrif- um í bréfi til hans á áttræðisafmælinu (í Þjóðhátíðarrollú), en sjálfur hafði Halldór áður þýtt Vopnin kvödd eftir Hemingway og mátti því trútt um tala. En hann dáist að kjarki Stefáns og segir að með Hverjum klukkan glymur hafi hann skilað „einstöku og rnjög svo virðíngarverðu verki í íslensk- um þýðíngabókmentum.“ - Annars er ekki staður til þess hér að lýsa þýðingum Stefáns Bjarman frekar. Sjálfur sagði hann söguna af þýðingunni á bók Hemingways í löngu bréfi til Sigfúsar Daðasonar sem birtist í Andvara 1988. Aðdragandi þess bréfs og tildrög er

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.