Dagblaðið Vísir - DV - 28.02.2017, Blaðsíða 38
Vikublað 28. febrúar–2. mars 201730 Menning
Atvinna í boði á einum
skemmtilegasta
vinnustað landsins
Á markaðsdeild DV er í
boði starf fyrir góðan og
harðduglegan starfsmann.
Hæfniskröfur: Viðkomandi þarf að vera
skemmtilegur, jákvæður, harðduglegur,
samviskusamur, heiðarlegur, ábyrgur,
úrlausnamiðaður, hafa áhuga á
sölumennsku og markaðsmálum.
Laun eru árangurstengd. Góð laun í boði
fyrir góðan og duglegan sölumann.
Umsóknir sendist á steinn@dv.is
3 Börn náttúrunnar (1991)
Hápunktur magnaðs ferils Friðriks Þórs Friðrikssonar er líklega Börn náttúr-
unnar, sem er eina íslenska myndin sem hefur verið tilnefnd sem besta er-
lenda myndin á Óskarsverðlaunahátíðinni. Gísli Halldórsson leikur roskinn
bónda sem bregður búi og flyst á elliheimili í Reykjavík. Hann hittir gamla
vinkonu sína og saman strjúka þau af elliheimilinu til að halda á æskuslóð-
irnar.
„Mikilvægasta mynd íslenskrar kvikmyndasögu er Börn náttúrunnar eftir
Friðrik Þór Friðriksson, en hlutur hans í íslenskri kvikmyndasögu verður
ekki ofmetinn,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við
Háskóla Íslands. „Ég held að það hafi bjargað miklu fyrir þróun íslenskrar
kvikmyndamenningar að við eignuðumst evrópskan listabíósmeistara á
akkúrat þeim tímapunkti sem við gerðum. Frá Rokkinu í gegnum Skytturnar
og að Börnunum, þarna sjáum við ísbrjót í mannsmynd að verki, ísbrjót sem
er gegnsósa í módernísku kvikmyndahefðinni, þekkir hana eins og handar-
bakið á sér.“
Oddný Sen, kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri kvikmyndafræðslu
í Bíó Paradís, nefnir myndina einnig sem eina bestu íslensku kvikmyndina
frá upphafi: „Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson er listavel gerð.
Sagan er einföld og innri átök eru sýnd með látlausum hætti. Myndin er
vel uppbyggð og það er stígandi í myndinni þannig að eftir því sem líður á
myndina endurspeglar landslagið sálarástand persónanna og verður villt-
ara og frumstæðara. Líf og dauði, æska og elli mynda hrífandi andstæður og
í lokin er vel heppnuð vísun í aðra kvikmynd; Himinn yfir Berlín eftir Wim
Wenders, en í henni ganga englar um Berlín og hugga þá jarðnesku sem
þjást. Bruno Ganz, sem leikur engil í þeirri mynd, birtist hjá Þorgeiri þegar
hann er búinn að jarða vinkonu sína og snertir hann.“
2 nói alBínói (2003)
Næstbesta mynd íslenskrar kvikmyndasögu er frumraun Dags Kára Pétursson, Nói albínói frá árinu 2003.
Myndin fjallar um hinn 17 ára gamla Nóa, leikinn af Tómasi Lemarquis, sem býr í afskekktu og snjóþungu
sjávar þorpi á Vestfjörðum. Hann þráir að komast burt og leggur á ráðin um flótta frá heimabænum en áætlan-
irnar renna þó klaufalega úr greipum hans.
Ásgeir H. Ingólfsson, skáld og menningarblaðamaður, nefnir myndina sem eina þá allra bestu sem gerð
hefur verið á Íslandi: „Maður var alinn upp við íslenskar sveitamyndir með vondu hljóði – sveitin týndist að-
eins á tíunda áratugnum en í upphafi nýrrar aldar kom Nói, þetta var smábæjarlífið eins og maður kannaðist við
það, ekki einhver horfinn heimur.“
„Hinn ógleymanlegi listræni heimur Nóasögunnar fjallar um lífið og dauðann, hversdagsleika og annarleika,
innri og ytri veruleika,“ segir Heiða Jóhannsdóttir, aðjúnkt í kvikmyndafræði, um myndin. „Nói albínói nýtir af
listfengi alla þætti kvikmyndalistar;kvikmyndatöku, sagnasmíð, myndmál, tónlist, umhverfingu og leiklist. Tón-
list Slowblow umvefur jafnframt heiminn eins og gullþráður.“
Nína Richter, sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, segir myndina hreinlega vera meistaraverk: „Það er eins
og ég gleymi alltaf aftur og aftur hvað þessi mynd er alveg fáránlega frábær, og svo þegar ég sé hana aftur þá er
ég alveg gapandi af hrifningu, í hvert sinn. Ég hef séð hana örugglega tíu sinnum. Sagan, myndræna frásögnin,
sviðsmyndin, litavinnslan og leikframmistaða Tómasar Lemarquis er alveg í heimsklassa. Tónlist Slowblow er
síðan algjörlega ómissandi hluti af verkinu. Síðan tekst þessari mynd að slá á velflestar nóturnar á tilfinninga-
skalanum, fyndin og hrikalega sorgleg í senn. Ég man þegar ég sá hana nýja á sínum tíma, þá hugsaði ég „Vá,
þetta er líklega besta íslenska mynd sem gerð hefur verið.“ Svo hélt ég að það myndi nú breytast fljótlega, en
það gerði það bara ekki. Þessi mynd kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum og setti nýtt viðmið fyrir íslenskt
kvikmyndagerðarfólk. Algjört meistaraverk.“
1 101 reykjavík (2000)
Munurinn á efstu þremur myndunum gæti ekki verið naumari en besta
íslenska bíómyndin að mati álitsgjafa DV er 101 Reykjavík, leikstjórnar-
frumraun Baltasars Kormáks frá árinu 2000.
Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu Hallgríms Helgasonar frá 1996
og fjallar um Hlyn sem er leikinn af Hilmi Snæ Guðnasyni, miðbæjarrottu og
eilífðarunglingi á fertugsaldri sem enn býr í móðurhúsum. Einfalt heimilis-
líf mæðginanna flækist hins vegar þegar hann verður ástfanginn af kærustu
móður sinnar, tvíkynhneigðum spænskum flamingókennara sem er leikin er
af Victoriu Abril.
„Þetta er sú mynd sem breytti viðhorfi mínu til íslenskra kvikmynda sem
unglingur. Allt í einu kom „contemporary“ saga sem höfðaði til ungs fólks,
var í senn skemmtileg og virkilega vel unnin kvikmynd,“ segir Baldvin Z kvik-
myndagerðarmaður um myndina og Ásgeir H. Ingólfsson, skáld og menn-
ingarblaðamaður, tekur í svipaðan streng: „Loksins kom borgarlíf sem mað-
ur kannaðist við í bíó – þarna náðu íslenskar bíómyndir loksins í skottið á
samtímanum.“
Heiða Jóhannsdóttir, aðjúnkt í kvikmyndafræði, nefnir myndina sem eina
þá allra bestu sem gerð hefur verið á Íslandi: „Fyrsta íslenska leikna kvik-
myndin sem myndaði órofa heild með frábærum söguefnivið og kraftmiklum
myndrænum stíl. Handritið er frábært, leikstjórn og klipping fáguð og fum-
laus. Tónlistin undirstrikar ögrandi og skoplega undirtóna myndarinnar og
Reykjavík myndar ógleymanlega sviðsmynd. Leikstíllinn er afslappaður en
með slagkraft, og leikararnir hrista allir af sér þjóðleikhússtílinn í samleikn-
um við Victoriu Abril.“ Björn Þór Vilhjálmsson, kollegi hennar við kvik-
myndafræðideild Háskólans, er sama sinnis: „Baltasar stígur fram sem kvik-
myndaleikstjóri með fumlausum, öguðum og útsjónarsömum hætti.“
Tómas, kvikmyndagagnrýnandi Fréttablaðsins, segist telja þessa fyrstu
mynd Baltasars í leikstjórastólnum enn vera hans bestu: „Hún hefur alvar-
lega undirtóna en er umfram allt meinfyndin, prakkaraleg og hnyttin. Hér
segir frá einhverjum furðulegasta ástarþríhyrningi sem finna má í hvaða
kvikmyndasögu sem er, ekki bara íslenskri. Hilmir Snær er ógleymanlegur í
hlutverki stefnulausrar og svartsýnnar miðbæjarrottu sem á í ástarsambandi
við kærustu móður sinnar. Samleikur Hilmis við Victoriu Abril er nokkuð
einstakur og er haug af kostulegum senum hér að finna. Frumleg, mann-
eskjuleg og skemmtileg kómedía.“
álitsgjafar Dv
Anna María Karlsdóttir kvikmyndaframleiðandi, Arnar Elísson kvikmyndafræðingur, Ásgeir Ingólfsson menningarblaðamaður,
Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður, Björn Þór Vilhjálmsson lektor í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, Elsa G. Björnsdóttir
kvikmyndagerðarkona, Heiða Jóhannsdóttir aðjúnkt í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, Helga Rakel Rafnsdóttir
kvikmyndagerðarkona, Hugleikur Dagsson teiknimyndasögu- og sjónvarpsþáttagerðarmaður, Hrönn Marinósdóttir stjórnandi
Reykjavík International Film Festival, Kristinn Þórðarson kvikmyndaframleiðandi, Maríanna Friðjónsdóttir fjölmiðlari,
Nína Richter sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, Oddný Sen kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri kvikmyndafræðslu í Bíó Paradís,
Tómas Valgeirsson kvikmyndagagnrýnandi Fréttablaðsins, Valur Gunnarsson rithöfundur og kvikmyndagagnrýnandi, Þóra
Hilmarsdóttir kvikmyndagerðarkona, Þórir Snær Sigurðarson umsjónarmaður kvikmyndaþáttarins Hvíta Tjaldið á ÍNN.