Morgunblaðið - 15.03.2017, Side 31

Morgunblaðið - 15.03.2017, Side 31
MINNINGAR 31 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 15. MARS 2017 Við gamlir bekkj- arbræður Guðrúnar Pálsdóttur úr grunnskóla viljum með örfáum orðum minnast góðr- ar skólasystur og vinkonu. Vin- átta og tengsl sem til verða á grunnskólaárum vara oft lengi eftir að námi lýkur í skólanum og stundum jafnvel ævilangt. Það á svo sannarlega við um okkur sem útskrifuðumst frá Öldutúnsskóla í Hafnarfirði vorið 1987. Jafnvel þótt fólk hittist ekki lengur nær daglega þá heldur það alltaf góðu sambandi eða veit hvað af öðru. Guðrún kom inn í bekkinn okkar nokkru eftir að skólagangan hófst. Hún var góður námsmaður og virk í félagslífi skólans. Guðrún var hávaxin og glæsileg og vakti alltaf athygli. Eftir að grunnskóla- tímabilinu lauk, m.a. með ógleym- anlegri útskriftarferð til Hollands vorið 1987, blasti björt framtíðin við okkur og við héldum hvert í sína áttina en tengslin voru jafnan til staðar. Árgangurinn í heild sinni kom líka alltaf saman af og til í gegnum árin. Þó að með tímanum hafi stund- um blásið á móti hjá Guðrúnu og lífið ekki alltaf verið auðvelt hefur hún jafnan haft sig í gegnum mót- vindinn og komist á beinu braut- ina á nýjan leik. Síðast þegar hóp- urinn kom saman, í lok síðasta árs, mætti Guðrún og sagði fé- lögum sínum frá því hversu bjart væri framundan. Nú í vor eru liðin 30 ár frá því að við útskrifuðumst saman úr grunnskóla og ljóst að við munum þurfa að fagna þeim áfanga. Fyrir u.þ.b. tveimur vikum setti Guðrún fram færslu á Facebook-síðu ár- gangsins og lagði áherslu á mik- ilvægi þess að koma saman á árinu og bauð meira að segja fram krafta sína til að leiða þá undir- búningsvinnu sem fram þyrfti að fara áður en árgangurinn í heild sinni myndi hittast og fagna þess- um skemmtilegu tímamótum. Guðrún sem alltaf var dugleg við að safna saman myndum og öðr- um minningum frá skólaárunum sendi okkur í framhaldinu af færslu sinni fleiri minningabrot sem allir höfðu gaman af. Aðeins fáum dögum eftir að hún setti þessar færslur og hugleiðingar sínar fram fengum við gömlu skólasystkini hennar þær hörmu- legu fréttir að Guðrún hefði látist í bílslysi á Grindavíkurvegi. Á þess- um örfáu dögum sýndi það sig svo um munaði hvað það getur stund- um verið stutt á milli gleði og sorgar. Guðrún verður ekki með okkur á þessum tímamótum sem framundan eru en minningin um hana mun ávallt lifa með okkur. Við sendum að lokum fjölskyldu Guðrúnar Pálsdóttur og vinum innilegar samúðarkveðjur á sorg- arstundu. Ingvar Þór Sigurðsson og Guðmundur Stefán Björnsson. Mikið var það óraunverulegt og sárt að fregna af láti Guðrúnar vinkonu okkar sunnudagsmorg- uninn 5. mars. Guðrún Pálsdóttir var góð kona. Hlý og ljúf, en um leið töff- ari og harðjaxl. Glæsileg, hávaxin, lagleg, alltaf smart, Lífið hennar var þó ekki alltaf beinn og breiður vegur. Erfiðleik- ar steðjuðu að á stundum. Hún þurfti að sjá á eftir ástvinum í blóma lífsins; föður sínum, stjúpa sínum og sambýlismanni. Og litlum frænda sem lést af slysför- um á fertugsafmælisdegi Guðrún- ar. Söknuðurinn var sár og Guð- rúnu afar erfiðir tímar. Guðrún Pálsdóttir ✝ Guðrún Páls-dóttir fæddist 21. maí 1971. Hún lést af slysförum 5. mars 2017. Útför Guðrúnar fór fram 14. mars 2017. En hún gafst ekki upp. Barðist fyrir sig og sitt fólk. Og naut þess góða sem lífið gaf. Hún var dugn- aðarforkur, hún Guðrún Pálsdóttir. Okkur þótti vænt um Guðrúnu. Allt frá því við vorum með henni og foreldrum hennar, þegar hún var lítil stúlka, í eft- irminnilegri ferð á Spáni 1978. Og við minnumst hennar við af- greiðslustörf í hverfisversluninni í Hvammahverfi, þegar hún var ung stúlka. Alltaf svo brosmild, góð og gefandi í garð allra – ekki síst barnanna sem þangað leituðu. Og ávallt þegar leiðir okkar lágu saman urðu fagnaðarfundir. Það var gott að njóta samvista við hana. Alltaf gefandi í samskiptum og notaleg. Blátt áfram og hrein- skilin. Hún Guðrún átti svo sannar- lega mikið í okkur og við í henni. Alla tíð. Síðasta kveðja hennar til okkar „bara að segja hvað mér þykir vænt um ykkur“ lýsir Guð- rúnu vel. Nú yljar þessi fallega kveðja enn meir. Í blíðu og stríðu átti Guðrún alltaf athvarf, faðm og hlýju í mömmu sinni, henni Þórunni Sig- urðardóttur. Þær mægður voru svo nánar og miklar vinkonur. Þegar kallið kom og Guðrún var kölluð til annarrar strandar, þá höfðu þær mæðgur áformað góð- ar stundir saman á Spáni. Sú ferð bíður betri tíma. Elsku Guðrúnu okkar var ætl- að mikið hlutverk í þessu lífi. Hún eignaðist Pál Arnar ung með kær- astanum sínum, honum Guð- mundi. Þeim var ekki ætlað að verja ævinni saman og Guðrún ól strákinn sinn upp ein. Hafi elsku Guðrún okkar þökk fyrir dásamlega samfylgd í hart- nær 40 ár. Almáttugur Guð styrki og styðji Pál Arnar, Þórunni mömmu hennar, bræður hennar, og ástvini alla. Guð blessi minningu Guðrúnar Pálsdóttur, vinkonu okkar. Jóna Dóra og Guðmundur Árni. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi. (23. Davíðssálmur) Á kveðjustundum sem þessum þá fer hugurinn á flakk og minn- ingarnar rifjast upp. Þó lífið hafi ekki alltaf verið dans á rósum hjá þér, elsku frænka, þá ætla ég að minnast góðu stundanna, með þig lífsglöðu og hressu stelpuna. Það var sagt að ég hefði verið afbrýðisöm þegar þú fæddist, ég sem elskaði þig svo mikið að ég skírði allar dúkkurnar í höfuðið á þér. Í huganum poppa upp myndir af okkur við leik á Laugarvatni, heima hjá þér í playmo. Við á Sunnuveginum þar sem þú varst ein stór augu yfir sögunum sem stóra frænka var að segja þér. Svo fæddist sólargeislinn þinn, hann Páll Arnar, þvílík guðsgjöf eins og amma þín sagði. Þó þú ættir auðvelt með að læra, þá fórstu snemma að vinna. Þú varst vel liðin enda dugleg í vinnu. Þú varst barngóð og var það aldrei neitt mál að fá ykkur Óskar til að gæta Guðnýjar, eins og þú sagðir: „Ekkert að þakka, mín er ánægjan.“ Þið mamma þín hafið verið stoð og stytta hvor annarrar eftir makamissinn og yndislegt að sjá hvað vinskapurinn var góður hjá ykkur. Þú hafðir þá trú að við myndum hitta þá sem væru farnir á öðrum og betri stað, þar ertu nú umvafin fallegum englum. Elsku Páll Arnar, Þórunn og fjölskylda, mínar innilegustu sam- úðarkveðjur. Kærleikskveðja, Hildur. Mig langar að minnast vinkonu minnar Guðrúnar sem lést langt fyrir aldur fram í umferðarslysi. Það var haustið 1993 sem leiðir okkar lágu saman á meðgöngu- deild LSH. Strax tókst órjúfan- legur vinskapur á milli okkar sem entist til lokadags. Guðrún skart- aði einstaklega fallegri sál, falleg- um hafbláum augum, mikilli út- geislun og óendanlegri mann- gæsku. Hún var vinur vina sinna og reyndist mér ætíð vel. Við eign- uðumst fyrirbura okkar aðeins með dags millibili og hjálpuðumst að bæði á vökudeild og er heim var komið. Guðrún elskaði móð- urhlutverkið og naut sín sem slík. En lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá þessari elsku. Hún háði stríð í nokkur ár við þá félaga Bakkus og „Pillus“. Þeir stjórn- uðu lífi hennar meira en góðu hófi gegndi. Eftir að unnusti hennar og sambýlismaður Óskar lést í febrúar 2014 féll hún kylliflöt á hyldjúpan botninn. Þar gaufaði hún um í móki uns hún gat ei meir og bugaðist algerlega. Það var erfitt að horfa upp á gráu þokuna sem slæddist yfir fagurbláu augu hennar. Ekki voru þau fá skiptin sem hún hágrét í eyru mín því henni sárnaði mjög hvað margir lokuðu á hana. Hún vildi öllum vel þessi elska en uppskar ekki þá virðingu sem hún átti skilið. Sjúkdómur hennar hrakti marga í burtu. En til að hugga hana tjáði ég henni að sá sem hún grét yfir var ekki þess virði að gráta yfir. Því sannur vin- ur myndi standa sína plikt á álags- tímum, en ekki hörfa á braut. Ein æskuvinkona hennar, Bryndís, fór þó hvergi. Þeirra vinátta var sönn og Guðrúnu afar dýrmæt. Við sem stóðum Guðrúnu næst vissum að hún þráði ekkert heitar en að losna úr viðjum vágesta sinna og öðlast fótfestu á ný. Hún lofaði sjálfri sér og okkur hinum bót og betrun. Þrepin voru henni erfið en upp komst hún, þar stóð hún hnarreist með bros á vör sem sigurvegari. Ég bókstaflega grét af gleði yfir dugnaði hennar. Dag- inn fyrir andlát hennar tjáði hún mér með stolti að nú væri hún aft- ur orðin gamla góða Guðrún. Rödd hennar var svo björt og fal- leg því hún var sátt. Hjarta mitt brosti þegar henni leið vel, en grét þegar henni leið illa. Ást Guðrúnar á syni sínum Páli Arnari var mikil, hún elskaði hann skilyrðislaust. Í dag getur hann yljað sér við þær minningar sem þau eignuðust síðustu mánuði og allar góðu minningarnar sem þau áttu áður en hún fór vill vegar. Kletturinn í lífi Guðrúnar var ávallt móðir hennar, Þórunn, en samband þeirra mæðgna var virkilega fallegt. Mig langar í lokin að þakka Guðrúnu fyrir góða vináttu, einnig fyrir að sýna mér að mynstrið sem við heklum á lífsins leið er ekki án gloppa, en með elju og dug sé hægt að bródera í gloppurnar og vanda sig með framhaldið. Ég óska þess að Sumarlandið hafi tekið vel á móti vinkonu minni með ást og hlýju. Því ást og hlýja var það sem hún eilíft þráði. Elsku Páll Arnar, Þórunn, Björgvin, Mummi, Erla og aðrir ástvinir, ég samhryggist ykkur innilega og bið ég æðri máttarvöld að gefa ykkur styrk í sorginni. Megi minning okkar um góða konu lifa um ókomna tíð. Guð geymi þig, elsku vinkona, og hafðu þökk fyrir allt og allt. Jóna Björk Grétarsdóttir. Elsku vinkona. Það er þyngra en tárum taki að sitja hér og skrifa minningargrein um þig, elsku Guðrún mín. Allt of fljótt kvaddir þú þennan heim í hörmu- legu bílslysi aðeins nokkrum klukkutímum eftir að við töluð- umst við í síma. Minningarnar hrannast upp á stundum sem þessum. Allt það sem við brölluð- um saman á unglingsárunum, þegar við unnum saman í Bryn- dísarsjoppu í Hafnarfirði, og árin sem við bjuggum í sama stiga- gangi á Hvammabrautinni og svo seinna matarboðin hjá þér og Óskari í Svöluási þar sem Óskar eldaði sítrónukjúklinginn af sinni alkunnu snilld og var kjaftað sam- an og hlegið langt fram á kvöld. Vegir Guðs eru órannsakanlegir og vil ég trúa því að þér sé ætlað stærra hlutverk annars staðar. Til þín ég hugsa, staldra við. Sendi ljós og kveðju hlýja. Bjartar minningarnar lifa ævina á enda. Elsku Páll Arnar, Þórunn, Björgvin, Mummi og fjölskyldur. Mínar innilegustu samúðar- kveðjur og megi góði Guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðum tímum. Bryndís Ólafsdóttir. „Undir háu hamrabelti höfði drúpir lítil rós. Þráir lífsins vængjavíddir vorsins yl og sólar- ljós“ er kannski við hæfi að hefja minningarorð um kæra frænku. Þetta var eitt af hennar uppá- haldslögum. Að setjast niður og skrifa minn- ingarorð um systurdóttur mína, er erfitt. Lífið tekur snarlega u- beygju og allt verður grátt. Það voru spennandi tímar vorið 1971 þegar elsta systir mín Þórunn átti von á frumburði sínum og foreldr- ar mínir að eignast sitt fyrsta barnabarn. Dagurinn rann upp 21. maí og í minningunni var hann sólríkur og fagur, eins og svo margir afmælisdagar elsku frænku voru. Ég var tæplega 10 ára og var yfir mig spennt. Enda ætlaði ég að vera barnapían henn- ar. Og ótrúlegt sem það var, þá fékk ég svona ung að gæta frænku. Hún var ljós og fögur. Tímarnir liðu og Guðrún varð stóra systir. Seinna þegar ég varð sjálf móðir, þá varð Guðrún barnapía hjá mér. Hún þá bara 11 ára, en þroskuð og var sannarlega traustsins verð. Enda alla tíð barngóð. Lífið fór ekki alltaf mjúkum höndum um elskulega frænku mína. Hún var góðhjörtuð og þótti vænt um fólkið sitt. Hún þótti hörkudugleg í vinnu og átti frekar auðvelt með að læra. Sólargeislinn hennar fæddist svo í desemberlok 1993 hann Páll Arnar. Þær mæðg- ur voru góðar vinkonur og veit ég að þegar fram líða stundir, mun systir mín ylja sér við minningar um samveru þeirra mæðgna. Ég vil trúa að þú sért komin á fallegan stað og þar sé vel tekið á móti þér. Þú sendir mér eina setn- ingu í skilaboðum hinn 13. febrúar síðastliðinn: „Heaven is for real“ og því vil ég trúa. Megi góður Guð og englar himins vaka yfir syni Guðrúnar og elsku systur minni og fjölskyldu. Ég aldrei hef lofað að brautin sé bein, né blómstígar gullskrýddir alla leið heim. Ég get ekki lofað þér gleði án sorgar, á göngu til himinsins helgu borgar. En eg hefi lofað þér aðstoð og styrk, og alltaf þér birtu þó leiðin sér myrk. Mitt ljúfasta barn ég lofað þér hef, að leiða þig sjálfur hvert einasta skref. (Staðf. Hjálmar Jónsson.) Kærleikskveðja. Þín frænka Guðný. Fótmál dauðans fljótt er stigið fram að myrkrum grafarreit, mitt er hold til moldar hnigið máske fyrr en af ég veit. Heilsa, máttur, fegurð, fjör flýgur burt sem elding snör. Hvað er lífið? Logi veikur, lítil bóla, hverfull reykur. Margur einn í aldurs blóma undi sæll við glaðan hag, brátt þá fregnin heyrðist hljóma: Heill í gær, en nár í dag. Ó, hve getur undraskjótt yfir skyggt hin dimma nótt! Fyrir dyrum dauðans voða daglega þér ber að skoða. (Björn Halldórsson í Laufási.) Með þessum ljóðlínum viljum við votta Páli Arnari og öðrum ástvinum okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum og megi Guð styrkja ykkur í sorginni. Valgerður, Ásgeir og fjölskyldur. ✝ Jóhannes Elí-asson fæddist í Reykjavík 13. des- ember 1932. Hann lést á Hjartadeild Landspítalans 18. febrúar 2017. Foreldrar Jó- hannesar voru Elí- as Jóhannesson, f. í Reykjavík 1898, d. 1936, og Eva Jó- hannesson, f. í Dan- mörku 1905, d. 1974. Systkini Jóhannesar: Bryndís Charlotte Elíasdóttir, f. 1929, d. 2016, og Elísabet Elíasdóttir, f. 1937. Eft- ir andlát föður síns fór Jóhannes í fóstur hjá Jens Ágúst Jóhann- essyni, föðurbróður sínum, og Kristínu Pálsdóttur. Jóhannes giftist Gerði Jó- hannsdóttur, f. 1.8. 1936. Börn þeirra eru: 1. Jens Ágúst Jó- hannesson, f. 9.7. 1959, giftist Önnu Rósu Sigurjónsdóttur, f. 1957. Börn þeirra eru a) Jóhann Garðar, f. 1992, sambýliskona Una Brá Jónsdóttir, f. 1993. b) Ásta Rósa, f. 1996. Jens og Anna Rósa skildu. 2. Þorgeir Jóhannesson, f. 21.9. 1960. 3. Brynj- ar Jóhannesson, f. 7.6. 1963. Barn hans með Hildi Þor- geirsdóttur, f. 1964: Elísabet, f. 1994. Sambýliskona Brynjars Erla Björk Sigurgeirs- dóttir, f. 1965. Börn Erlu úr fyrra hjónabandi: a) Saga Líf Friðriksdóttir, f. 1989, og b) Sunna Hlíf Friðriksdóttir, f. 1990. Sambýlismaður Bjarni Ýmisson, f. 1988. Barn Ýmir Ágúst Bjarnason, f. 2015. Jóhannes lærði bílasmíði í Bílasmiðjunni og lauk námi um tvítugt. Þar starfaði hann lengst af. Hann var einnig til sjós ásamt öðrum störfum. Útför Jóhannesar fór fram í kyrrþey að ósk hins látna. Ég vil með örfáum orðum minnast míns kæra föður sem nú er látinn. Pabbi var mikill útivistarmað- ur, elskaði og þekkti landið sitt af- skaplega vel. Hann stundaði göngur frá unglingsaldri, las Ár- bækur Ferðafélagsins upp til agna og Íslandskortið var alltaf nærri. Hann átti ásamt vinum sínum hlut í Reyðarvatni og var þar ófáar helgar ásamt fjölskyldu og félögum á sumrin. Um fertugt söðlaði hann um, lét gamlan draum rætast og byrj- aði í hestunum, sem áttu síðan hug hans fram yfir sextugt. Eftir það tóku við jeppaferðir og gönguferðir meðan heilsan leyfði. Það var löngum gestkvæmt á heimilinu enda mamma og pabbi félagslynd og áttu vini á öllum aldri. Þrátt fyrir að kunna við sig í góðum félagsskap hafði pabbi enga þörf fyrir að láta á sér bera, enda hæglátur og hógvær. Það var alltaf gott að sækja foreldrana heim, borða góðan mat sem mamma hafði yndi af að mat- reiða, dvelja hjá þeim yfir góðu spjalli og njóta þeirra góðu nær- veru. Pabbi var alltaf mikill fjöl- skyldumaður og þótti vænt um sitt fólk. Síðustu misseri var pabbi orðinn heilsuveill. Samt var hann alltaf til í hlutina meðan hann hafði enn orku, eins og að kíkja með okkur bræðrunum á pöbb og horfa á fótbolta, sem hann hafði alla tíð mikinn áhuga á. Pabbi var lagður inn á Landspítalann 20. janúar síðast- liðinn og átti ekki afturkvæmt þaðan. Ég má til með að þakka starfsfólki skilunardeildar og hjartadeildar spítalans fyrir frá- bæra umönnun. Hún var honum og aðstandendum mikils virði. Þorgeir Jóhannesson. Það er orðið langt um liðið frá því að ég varð þeirrar gæfu að- njótandi að fá að kynnast Jóhann- esi Elíassyni. Vorið 1982 hafði Jói samband við mig er hann vantaði knapa á hann Goða sinn frá Ey, en úrtaka hestamannafélagsins Fáks fyrir væntanlegt Landsmót hestamanna var í vændum. Það samtal leiddi til þess að ég fór á bak Goða til að sjá hvernig mér litist á, en sá prufureiðtúr varð síðan upphaf langra og farsælla samskipta okkar og áratuga vin- áttusamband okkar Önnu Siggu og þeirra Jóa og Gerðu hófst. Þrátt fyrir töluverðan aldursmun smullum við saman og urðum eig- inlega strax frá fyrstu stundu góðir vinir og snerist sambandið alls ekki eingöngu um gæðinginn Goða, heldur um það að við ein- faldlega nutum samskipta og samveru. Í gegnum þetta sam- band eignuðumst við Anna Sigga marga aðra góða vini, til dæmis kynntumst við fjölskyldunum í Ey í Landeyjum og áttum við þar margar góðar stundir saman. Jói var einn þessara sem sagt er um að hafi „góða nærveru“. Öllum sem þekktu hann leið vel í návist hans. Ég man ekki eftir að hafa séð Jóa reiðast þannig að það sæist. Hann hafði góða stjórn á sjálfum sér og tilfinningum sín- um. Það leyndist mér þó ekki er hann gladdist yfir árangri Goða síns. Þá sagði hann gjarnan „Beljujálkurinn minn“ er hann strauk klárnum um ennið og gerði þannig góðlátlegt grín að sjálfum sér og þessu áhugamáli sínu. Síðustu árin hittumst við sjaldnar en við Anna Sigga vönd- um þó alltaf komur okkar í Rauðalækinn á Þorláksmessudag til að heilsa upp á vini okkar Jóa og Gerðu og að færa þeim hið ár- lega jólakort. Þótt Jói væri orðinn sjúklingur var alltaf jafnyndislegt að koma til þeirra og rifja upp gamlar og góðar minningar. Full af söknuði og þakklæti kveðjum við vin okkar Jóa og von- um við að hann sé nú með hjá sér, þá Goða og Villa, gæðinginn og hundinn sem fylgdu honum alla tíð meðan þeirra naut við. Við vottum Gerðu og fjölskyld- unni allri innilega samúð okkar. Trausti Þór og Anna Sigríður. Jóhannes Elíasson

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.