Morgunblaðið - 05.05.2017, Qupperneq 32
32 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. MAÍ 2017
✝ Þorsteinn Kol-beins fæddist í
Reykjavík 8. maí
1934. Hann lést á
hjúkrunarheimil-
inu Grund 22. apríl
2017. Foreldrar
Þorsteins voru
Hildur Þorsteins-
dóttir Kolbeins
húsmóðir, f. 12.5.
1910, d. 13.8. 1982,
og Þorvaldur
Eyjólfsson Kolbeins prentari, f.
24.5. 1906, d. 5.2. 1959.
24.5. 1963 kvæntist Þorsteinn
Rósu Þorláksdóttur frá Sandhól
í Ölfusi, f. 8.6. 1931. Foreldrar
hennar voru Þorlákur Sveins-
son, f. 2.10. 1899, d. 13.6. 1983,
og Ragnheiður Runólfsdóttir, f.
23.12. 1900, d. 20.2. 1984. Börn
Þorsteins og Rósu eru: 1)
Þorvaldur Hilmar, f. 1954,
rekstrarstjóri Háskólabíós.
Maki hans er Margrét Helga
Vilhjálmsdóttir kennari, f. 1956.
Börn þeirra eru: Rósa Birna, f.
hanna, f. 1930, d. 1991, Hannes
Bjarni, f. 1931, Pétur Emil Júl-
íus, f. 1936, Páll Hilmar, f. 1940,
d. 1997, Þóra Katrín, f. 1940,
Þórey Ásthildur, f. 1941, Sigríð-
ur, f. 1943, Eyjólfur, f. 1946, og
Þuríður Erla, f. 1950.
Þorsteinn ólst upp í Reykja-
vík og bjó fjölskyldan lengst af í
Meðalholti 19. Hann gekk í
Austurbæjarskóla og hóf ungur
að vinna fyrir sér, meðal annars
sem sendill hjá verslun Silla og
Valda. Stærstan hluta ævi sinn-
ar starfaði Þorsteinn sem
bifreiðarstjóri. Hann hóf störf
hjá Vestfjarðaleið sumarið 1958,
þá sumarmaður, og starfaði sem
leigubílstjóri hjá BSR. Hann hóf
störf hjá Norðurleið 1960 og
starfaði þar til ársins 2001.
Þorsteinn gekk til liðs við
Kiwanisklúbbinn Eldey í Kópa-
vogi í mars 1977 og var virkur
meðlimur í hreyfingunni alla
tíð. Hann sinnti mörgum trún-
aðarstörfum innan hreyfingar-
innar og var forseti klúbbsins
frá 1985-1986.
Útför Þorsteins fer fram frá
Neskirkju í dag, 5. maí 2017, og
hefst athöfnin klukkan 13.
1987, maki Daníel
Ingi, f. 1985, dóttir
þeirra Ragna Mar-
grét, f. 2014, Birkir
Rafn, f. 1989, maki
Elísabet María, f.
1992, Vilhjálmur
Steinar, f. 1993. 2)
Ragnheiður Þóra, f.
1966, leikskóla-
kennari. Maki
hennar er Guð-
mundur Pálsson
upplýsingafræðingur, f. 1963.
Dóttir þeirra er Rósa Guðbjörg,
f. 2004. Önnur börn Guðmundar
eru Hrafnhildur Eva, f. 1987, í
sambúð með Hjalta Andrési, f.
1987, og Gunnar, f. 1988, í sam-
búð með Ölmu Rún, f. 1990,
dóttir þeirra Kría, f. 2017. Aðrir
synir Þorsteins eru Þröstur
Óskar, f. 1958, maki Svala, f.
1961, Sigurður Hrafn, f. 1969,
maki Heiða, f. 1978, og Þor-
steinn Már, f. 1975, maki Soffía,
f. 1977.
Systkini Þorsteins eru Jó-
Þú varst minn eini, minn maður og
skjól,
þú varst minn samferðarmaður.
Að hausti, um vetur, í sumri og sól,
glaðbeittur og ávallt góðglaður.
Ég kveð þig nú vinur, ég kveð þig í
kvöld
ég kveð þig með tárunum mínum.
Megi Guð okkar vaka um ævi og öld,
og vernda á ferðunum þínum.
(G.P.)
Góða ferð, elsku Steini minn.
Þín
Rósa.
Í dag kveð ég tengdaföður
minn Steina Kolbeins. Sam-
skipti okkar spanna rúm 40 ár.
Ég var rétt 17 ára þegar ég
tengdist fjölskyldunni og var
mér vel tekið frá fyrsta degi.
Hann starfaði sem rútubíl-
stjóri hjá Norðurleið og var
trúr sínu starfi. Aldrei talaði
hann nema vel um það og virt-
ist njóta þess. Starfið var tölu-
vert erfiðara þá en nú, engir
farsímar og ekki hægt að fletta
upp veðurfréttum á netinu.
Menn þurftu að kunna á nátt-
úruna og treysta eigin innsæi.
Hann var vinmargur, þekkti
alla bæi á leiðinni norður með
nafni og ábúendur þeirra. Hann
eignaðist marga vini og fékk
maður að njóta þess þegar
vantaði gistingu eða að verða
við einhverri annarri bón. Þá
var nóg að kynna sig og allir
vildu allt fyrir mann gera. Í
einni ferðinni varð úr að hann
keypti folald og gaf okkur. Hún
reyndist okkur hinn besti grip-
ur, formóðir flestra okkar reið-
hesta.
Hann hafði tengsl og tilfinn-
ingar til fleiri sveita. Sem ung-
ur piltur var hann í sveit í Hvít-
árholti í Hrunamannahreppi,
þangað hafði hann sterkar
taugar og naut þess að fara í
réttir á hverju hausti og hitta
gamla sveitunga og vini.
Stór hluti af tilveru okkar
allra tengdist sveitinni okkar
Sandhól í Ölfusi og þangað
sóttum við öll hvert á sínum
forsendum. Þar eyddum við
drjúgum tíma saman við leik og
störf.
Þegar við Þorvaldur réðumst
í að byggja okkur sumarbústað
á jörðinni, komin með tvö lítil
börn, var enginn glaðari eða
spenntari en hann. Hann rétti
okkur ómælda hjálparhönd og
taldi ekki eftir sér að aðstoða
okkur á allan hátt.
Síðar bættist þriðja barnið
við, sá var með bíla- og trakt-
orsdellu og kætti það afa mikið.
Börnin okkar nutu svo sann-
arlega kærleika og væntum-
þykju hans og Rósu. Alltaf voru
þau boðin og búin að fá að
passa og þá var ekki verið að
gera neitt annað, einungis spil-
að, teflt, leikið og dekrað við
þau. Þau fylgdu þeim eftir í
hestamennskunni og öðru því
sem þau tóku sér fyrir hendur.
Oftar en ekki var gaukað að
þeim einhverju sem kom sér
vel, inneign á símkort, vasa-
pening, nýjum skóm eða hvað
það var sem kom sér vel þá
stundina.
Um leið og ég þakka þér fyr-
ir allt sem þú varst mér og
mínum óska ég þér Guðs bless-
unar og góðrar heimkomu.
Blessuð sértu sveitin mín,
sumar, vetur, ár og daga.
Engið, fjöllin, áin þín,
yndislega sveitin mín,
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga.
Blessuð sértu, sveitin mín,
sumar, vetur, ár og daga.
(Sigurður Jónsson.)
Þín tengdadóttir,
Margrét.
Í dag kveðjum við elsku afa
Steina. Afi var frábær karl,
hann var alltaf áhugasamur um
allt það sem við tókum okkur
fyrir hendur, hvers eðlis sem
það var. Það var oft hægt að
komast á gott spjall við afa og
hann hafði góða þolinmæði fyr-
ir misjafnlega spennandi sög-
um. Afi var alltaf duglegur að
gefa sér tíma með okkur systk-
inunum. Við eyddum ófáum
stundum við borðstofuborðið í
Dunhaganum með spil eða tafl
og það vorum oftast við sem
vorum möluð, hann afi gaf ekk-
ert eftir.
Það var alltaf gott að koma í
Dunhagann í heimsókn eða
næturgistingu. Þar vorum við
litlir stjórar, réðum dagskránni
og fengum að velja matseðil-
inn, það var dekrað við okkur í
einu og öllu. Afi elskaði að
komast í Ölfusið í hin ýmsu
sveitastörf og við eigum marg-
ar góðar minningar úr réttun-
um og úr kartöflugörðunum.
Afi var alltaf til staðar, hinn
týpíski ekta afi, barngóður,
hlýr og virtist alltaf hafa allan
heimsins tíma fyrir okkur.
Eftir að veikindin fóru að
gera vart við sig kom vel í ljós
hversu mikill fjölskyldumaður
hann var.
Hann bar mikla væntum-
þykju til okkar allra fram til
síðasta dags, jafnvel þó að
hann væri stundum svolítið
ringlaður. Húmorinn hans
skemmtilegi og stríðnisglottið
fylgdi honum alltaf.
Elsku afi Steini. Takk fyrir
ástina, umhyggjuna og hlýjuna.
Takk fyrir samveruna, gleðina
og hláturinn. Þú ert eflaust
einhvers staðar á rúntinum
núna, bílakarlinn sem þú varst.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Þín barnabörn,
Rósa Birna, Birkir Rafn og
Vilhjálmur Steinar.
Elsku afi minn, nú ert þú
farinn. Mér finnst erfitt að
hugsa um það að ég geti ekki
bara farið á Grund og hitt þig,
hringt í þig eða farið í ísbíltúr.
Elsku afi minn, ég hef aldrei
áður skrifað minningargrein
þannig að sú fyrsta verður um
þig. Við áttum margar góðar
minningar saman. Eins og öll
skiptin sem ég gisti hjá þér og
ömmu.
Það var allaf jafn gaman. Þú
kenndir mér að tefla. Flestir
afar hefðu kannski leyft barna-
barninu þú veist, að vinna.
Ekki afi minn. Hann vildi alltaf
sýna hvað hann væri góður í
skák. Og öll skiptin sem þið
voruð hjá okkur á jólunum og
þú tókst langan tíma í að opna
pakkana. Eitt límband í einu.
Síðustu mánuðina dvaldi
hann á Grund. Hann var allaf
jafn glaður. Það sást líka að
honum leið vel þarna. Elsku afi
minn. Þú gekkst í gegnum
margt. Alzheimersjúkdóminn,
slys og fleira. En allaf varstu
jafn glaður þegar við komum
að hitta þig. Alltaf með bros á
vör.
Elsku afi minn. Þú sagðir
alltaf góðar sögur um barnæsk-
una þína. Þegar við keyrðum
upp Meðalholtið bentir þú á
húsið þitt og sagðir: númer 19,
þarna bjó ég. Allar sögurnar af
þér og Ragga Bjarna. Þið vor-
uð greinilega miklir prakkarar.
Og um þig og þinn stóra systk-
inahóp. Þegar afi var sem veik-
astur sagði hann oft: „Eigum
við að fara austur?“ Elsku afi
minn.
Ég gæti ekki hugsað mér
betri afa en þig. Elsku afi
minn, hvíldu í friði.
Rósa Guðbjörg
Guðmundsdóttir.
Þakklæti er mér efst í huga
þegar ég kveð Steina bróður
minn. Ég er þakklát fyrir allar
samverustundirnar sem við átt-
um, en þær voru ófáar. Minn-
ingarnar hrannast fram frá því
þegar við vorum öll í Meðal-
holtinu, 10 að tölu auk foreldra
okkar sem voru Hildur og Þor-
valdur Kolbeins, það gekk auð-
vitað stundum mikið á eins og
menn geta rétt ímyndað sér.
Systir mín Jóhanna og Páll
Hilmar, tvíburabróðir minn,
eru látin en Steini bróðir lést
22. apríl sl. á hjúkrunarheim-
ilinu Grund eftir erfiða sjúk-
dómslegu, en hann hafði dvalið
þar síðan í desember sl. og
naut góðrar umönnunar.
Steini bróðir fór ungur sem
sumardrengur í Hvítárholt til
þeirra Elínar og Sigurðar og
líkaði honum vistin vel, hann
fór ungur að sendast hjá Silla
og Valda, fyrst á hjóli með
grind framan á og síðar að
keyra vörubíl, hann var leigu-
bílstjóri hjá BSR og rútubíl-
stjóri hjá Norðurleið allt til fyr-
irtækið hætti störfum, eða í 40
ár. Steini var farsæll bílstjóri í
hríðarbyl og brjáluðu veðri á
veturna frá Reykjavík til Ak-
ureyrar í hverri viku. Komst
hann alltaf klakklaust heim
enda þakkaði hann almættinu
fyrir að vaka yfir honum og
farþegunum. Hann var virkur
félagi í Kiwanisklúbbnum Eld-
ey frá 1977 til dauðadags, for-
seti klúbbsins 1985-1986. Þær
voru ánægjulegar ferðirnar
sem við Maggi minn fórum með
Rósu og Steina til Edinborgar
og Dublinar hér fyrr á árum,
ég tala nú ekki um alla hitt-
ingana hjá fjölskyldunum í
gegnum árin.
Það mátti helst aldrei sleppa
úr afmælum eða öðrum merk-
isdögum hjá stórfjölskyldunni
og þar bar jafnan hæst jólaböll-
in í Kiwanishúsinu sem Steini
stjórnaði af röggsemi. Steini
bróðir var hógvær maður, aldr-
ei heyrði ég hann tala illa um
neinn og hann hafði litla þol-
inmæði gagnvart okkur systk-
inunum þegar við vorum að
pexa um stjórnmál eða eitthvað
sem honum þótti lítilfjörlegt.
Rósa mágkona mín hefur staðið
sem klettur við hlið Steina í
gegnum veikindi hans, en það
hlýtur að vera erfitt að horfa
upp á manninn sinn fara inn í
einhverja skel sem maður
kemst ekki í gegnum.
Elsku Rósa mín, Þorvaldur
og Ragnheiður Þóra, þakka
ykkur alla velvildina, fyrir að
vera hluti af ykkur í þessu
ferðalagi. Ég votta ykkur og
öðrum aðstandendum innilega
samúð.
Rósa mín Guð blessi þig og
Steini minn vertu guði falinn.
Þóra Katrín Kolbeins
(Kata) systir.
Nú er hann Steini bróðir fall-
inn frá eftir glímu við erfiðan
sjúkdóm. Hann var þriðji í röð-
inni af 10 systkinum en ég ní-
undi í röðinni og yngstur af
fimm bræðrum og því oft kall-
aður litli bróðir. Ég á nokkrar
góðar minningar með þér og
Rósu, m.a. þegar ég fór fyrstu
rútuferð mína með þér austur í
Sandhól. Steini þótti frekar hlé-
drægur hér áður fyrr þegar
haldnar voru veislur í fjölskyld-
unni. Trúlega hefur það verið
vegna þess að hann var svo oft
fjarverandi vegna vinnu sinnar,
en hann ók rútubíl hjá Norð-
urleið í um 45 ár. Hann var
öruggur bílstjóri sem oft lenti í
vitlausu veðri á milli Reykja-
víkur og Akureyrar.
Steini gekk í Kiwanisklúbb-
inn Eldey árið 1977 og var
meðlimur allt þar til hann and-
aðist. Hann var forseti klúbbs-
ins starfsárið 1985-86. Steini
fékk mig til að ganga í klúbb-
inn 1980 og þar kynntist ég
bróður mínum betur en áður.
Hann var ötull klúbbfélagi og
oft hrókur alls fagnaðar. Eft-
irminnileg er ferð á Evrópu-
þing Kiwanis í Hamborg 1988.
Á leið okkar til Daun Eifel
tókst bílstjóranum okkar ekki
að koma öllum ferðatöskunum
fyrir í lestinni en þá sýndi
Steini hæfni sýna og endurrað-
aði, kom öllu fyrir og vel það.
Þýska bílstjóranum þótti þetta
undravert en fékk þá skýringu
að Steini væri einn besti rútu-
bílstjórinn á Íslandi.
Nú er Steini kominn til
mömmu og pabba og tveggja
systkina okkar sem féllu frá
allt of snemma. Rósa, megi Guð
blessa þig og fjölskyldu þína.
Eyjólfur Kolbeins.
Elsku Steini frændi, eins og
ég kallaði þig alltaf, nú þegar
ég sit hér heima hjá mér í Nor-
egi og skrifa þessi orð til þín þá
leka tár niður vanga minn,
gleðitár yfir öllum góðu minn-
ingunum og tár vegna saknaðar
yfir að fá ekki að hitta þig aftur
hérna megin.
Minningarnar um þig eru svo
margar og frá því að ég man
eftir mér, sama hvort er úr
sveitinni minni, sem var líka
sveitin þín, þegar ég var lítil
stelpa að skottast með pabba
mínum í kringum rúturnar eða
þegar ég beið eftir að þú kæmir
í réttir á haustin, það er sama
hvað ég rifja upp, allt eru þetta
yndislegar minningar sem ég
get alltaf yljað mér við og verið
þakklát fyrir að eiga.
Þú og Rósa voruð alltaf fær-
andi mér gjafir, bækur, leik-
föng, nammi, ég man að einu
sinni um réttir komstu með
sippuband með viðarhandföng-
um, bandið sjálft var hvítt með
rauðum og bláum þráðum.
Steini frændi keyrði rútu í
mörg ár, var vinnufélagi pabba
og keyrðu þeir saman hjá
Landleiðum og Norðurleið, þeir
voru ekki bara bara vinnufélag-
ar, heldur mjög góðir vinir og
er ég ótrúlega þakklát að sá
vinskapur varð til.
Ég var á ellefta ári þegar
pabbi minn, Jón Hreiðar, féll
frá, það var daginn eftir réttir
og hafði Steini verið hjá okkur
um réttirnar eins og svo oft áð-
ur, stuðningur hans og Rósu
reyndist okkur systkinunum og
mömmu ómetanlegur, eins eig-
um við þeim Steina og Rósu
mikið að þakka fyrir allt sem
þau hafa veitt okkur í veik-
indum mömmu.
Síðustu árin hafði heilsu
Steina hrakað og dvaldi hann
síðustu mánuðina á elliheim-
ilinu Grund, þar fékk hann
bestu umönnun sem völ er á,
þar leið honum vel og Rósa
hans heimsótti hann næstum
daglega.
Þegar börnin mín svo fædd-
ust, þá urðu Steini og Rósa
strax í miklu uppáhaldi hjá
þeim og hafa börnin oft spurt
hvort þau séu ekki bara næst-
um því svona auka afi og amma
og dóttir mín stundum talað um
hvað sér finnist gaman að heita
Rós, þegar við tölum um Steina
og Rósu
Við vorum á Íslandi um
páskana að ferma dóttur mína
og því miður áttu Steini frændi
og Rósa ekki færi á að vera
með okkur á þeim merka degi.
Ég og börnin mín fórum til
Rósu fjórum dögum áður en
Steini kvaddi, það var yndislegt
að eyða tíma með henni áður en
við flugum aftur heim til Nor-
egs, við rifjuðum upp minning-
ar um Steina og hún sagði mér
að hún talaði svo oft um okkur
við hann og hvað mér og krökk-
unum gengi vel hér í Noregi,
sagði mér að hann talaði alltaf
um hvað honum þætti vænt um
okkur og að honum fyndist allt-
af eins og við systkinin ég og
Birgir Þór bróðir minn og
krakkarnir mínir værum hans
eigin.
Ég minntist á við Rósu áður
en ég fór að ég ætlaði að koma
mynd til hennar af ferming-
arstúlkunni svo hún gæti sýnt
Steina; elsku Steini, þessa
mynd verðum við að geyma þar
til seinna, en Rósa fær sína
mynd.
Elsku Rósa, börn og fjöl-
skyldur, við bróðir minn Birgir
Þór og börnin mín Bylgja Rós
og Jón Hreiðar sendum okkar
innilegustu samúðarkveðjur.
Elsku Steini okkar, við þökk-
um þér fyrir allar okkar stund-
ir, minningin um elsku vin okk-
ar, Steina frænda, lifir.
Kristín Ásta Jónsdóttir.
Mig langar að minnast
Steina föðurbróður míns í
nokkrum orðum. Minningarnar
eru margar en hér er bara lítið
brot þeim.
Steini var bílstjóri og hafði
mikinn áhuga á bílum. Eftir að
ég flutti til útlanda kom Steini
frændi nokkrum sinnum í heim-
sókn og það var alltaf jafn
gaman. Í eitt sinn er hann kom
hjálpaði hann mér að setja nið-
ur kartöflur enda snillingur á
því sviði.
Í annað sinn átti hann af-
mæli á meðan á dvölinni stóð
og við héldum smá veislu fyrir
hann. Auðvitað var líka farið í
bíltúr út um allt.
Þegar ég kom til Íslands í
heimsókn var Steini frændi
alltaf sjálfkjörinn einkabílstjóri
á meðan heilsan leyfði. Hann
og Rósa mættu á flugvöllinn að
sækja mig þegar ég kom og
keyrðu mig þangað aftur, alveg
sama hvað klukkan var. Hann
keyrði mig og sótti hingað og
þangað.
Þannig vildi hann hafa það.
Seinni árin, þegar heilsan var
farin að setja strik í reikning-
inn, fékk ég að bjóða honum og
Rósu í bíltúr þegar ég kom.
Mikið fannst mér gaman að fá
að gera eitthvað fyrir Steina
sem gladdi hann.
Steini þreyttist aldrei á að
tala um bíla þótt hann væri
orðinn veikur. Hann sagði með
gleði frá öllum bílunum sínum
og hlustaði með áhuga þegar ég
sagði honum frá hvernig bíl ég
ætti hverju sinni.
Síðasta heimsókn mín til
Steina var í byrjun árs þegar
ég var stödd á Íslandi. Ég átti
mjög góða stund með honum
inni á Grund, þar sem hann bjó
síðustu mánuðina. Við sátum og
drukkum kaffi og ég sýndi
Steina ýmsar myndir, bæði af
krökkunum mínum, systkinum
hans, frá jólaballinu og auðvit-
að myndir af bílum. Bílaáhug-
inn var greinilega enn fyrir
hendi og gleðin var ekta þegar
hann sá myndir af bílum. Þegar
hann svo sá mynd af systrum
sínum sagði hann með bros á
vör:
„Þessar þekki ég!“ Mikið er
ég þakklát fyrir þá góðu stund
sem ég átti með honum þennan
eftirmiðdag á Grund, svo og all-
ar góðar stundir í gegnum árin.
Því miður get ég ekki fylgt
frænda mínum síðasta spölinn
en ég kem fljótlega og heim-
sæki leiðið og kveiki á kerti. Ég
votta elsku Rósu og fjölskyld-
unni samúð. Minningin um
Steina frænda lifir.
Jóhanna Rósa Kolbeins.
Steini Kolbeins, vinur minn
og félagi, er nú fallinn frá. Ég
var svo lánsamur að kynnast
Steina aðeins þrettán ára gam-
all, þar sem áhugi minn á rút-
um var mikill og kynntist ég
Steina á þvottaplaninu á Ak-
ureyri. Hann gaf sér alltaf tíma
til þess að tala við mig og segja
mér frá því sem gerst hafi yfir
daginn.
Fimmtán ára gamall byrjaði
ég að þvo rútur hjá Norðurleið
í Reykjavík og urðu kynni okk-
ar þá enn sterkari. Steini æfði
mig í keyrslu fyrir meiraprófið
og var mjög nákvæmur á allt í
sambandi við akstur. Steini var
einstaklega farsæll bílstjóri all-
an sinn feril og vel liðinn af far-
þegum og ekki minnst bændum
og ábúendum milli Akureyrar
og Reykjavíkur.
Ég gleymi aldrei hans gleði-
lega og sérstaka vinki þegar við
mættumst á veginum og ófáar
voru skemmtilegu stundirnar í
Ránargötunni þar sem hann
vakti mig oft með eggi og beik-
oni „Steina spes“.
Steini var alltaf til í að
hjálpa ef eitthvað var að og oft
hringdi hann í mig þegar ég
var í erfiðum ferðum til að at-
huga hvernig gengi og gefa góð
ráð.
Þorsteinn Kolbeins