Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.06.2017, Page 16

Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.06.2017, Page 16
R agnar Hjörleifsson lenti í slysi þeg- ar hann var 17 ára, fyrir 40 árum; missti þá hægri fótinn fyrir neðan hné. Síðan hefur hann notast við margar kynslóðir af gervifótum en segja má að útbúnaður sem hann fékk hjá Öss- uri fyrir nokkrum árum hafi breytt miklu. Síðan eru Ragnari í raun allir vegir færir eins og tvær ferðir á hæsta tind landsins sýna. „Ég gekk á Hvannadalshnjúk fyrir þremur árum, sem var mikil áskorun; laumaði mér þá í hóp með Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, sem er mikið fagfólk varðandi skipulagningu og ör- yggismál og nú fólst áskorunin í því að end- urtaka leikinn og bæta tímann. Það tókst; fyrri ferðin tók fjórtán og hálfa klukkustund en nú vorum við ellefu og hálfan tíma að fara á hnjúk- inn og niður aftur,“ segir Ragnar við Sunnu- dagsblað Morgunblaðsins, um ferð á hæsta tind Íslands í vor. „Það var líka áskorun að fara á hnjúkinn í tilefni þess að nú eru 40 ár síðan ég missti fótinn.“ Foreldrar Ragnars voru bændur í Borgar- firði og þar varð slysið. Fóturinn lenti í drif- skafti og klipptist af. „Þá voru þyrlur ekki í boði eða slík þjónusta svo það tók langan tíma að koma mér á sjúkrahús. Fyrst var keyrt með mig í veg fyrir sjúkraflugvél, sem lenti á litlum flugvelli við Faxaborg og þaðan flogið til Reykjavíkur. Ég missti aldrei meðvitund. Faðir minn fór með mér í flugvélina og hann átti eðli- lega mjög erfitt.“ Gervifótur ekki sama og gervifótur Á þessum tíma var ekki nein markviss áfalla- hjálp í boði, segir Ragnar. „Ég leit reyndar ekki á þetta sem vandamál eða sem endalok fyrir mig heldur að ég væri kominn í nýja stöðu sem ég yrði að vinna úr. Ég hef aldrei litið á mig sem fatlaðan og gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en löngu síðar hve slysið var mikið áfall fyrir foreldra mína og aðra í fjölskyldunni. Þau voru í miklu meira sjokki en ég,“ segir Ragnar þegar hann rifjar upp þennan örlagaríka dag. „Síðan ég lenti í slysinu hafa orðið gífurlegar breytingar á gervifótum. Össur Kristinsson, stofnandi Össurar, tók við mér fyrir 40 árum og ég hef fylgt fyrirtækinu alla tíð.“ Gervifótur er sem sagt alls ekki það sama og gervifótur, segir Ragnar. „Það fyrsta sem var í boði fyrir mig var að ull- arsokkur var settur upp á stúfinn og hörð hulsa utan um hann sem fest var við gervifótinn. Þeirri aðferð var beitt alveg þar til Össur Kristinsson kom fram með tímamótauppfinningu sína, síli- konhulsuna, sem var algjör bylting; næmið og stöðugleikinn í sílikoninu var gífurleg breyting til batnaðar og síðan hefur sú uppfinning verið þróuð áfram. Össur sjálfur vann alla tíð af mikilli elju og það var aðdáunarvert hverju hann áork- aði. Teymi nýrra manna hefur tekið við kyndl- inum af Össuri Kristinssyni og unnið tímamóta- starf á heimsvísu, eins og menn vita.“ Ragnar segir tvennt standa upp úr af upp- finningum Össurar: „Mestu breytingarnar sem ég hef upplifað voru sílikonhulsan, árið 1983, og öflugri ökkli sem kom fram fyrir nokkrum ár- um; rafmagnsökkli sem skynjar umhverfið og lagar sig að því, til dæmis hvort maður labbar upp eða niður stiga. Þessi ökkli er eitt af flagg- skipum Össurar í dag.“ Ekki eru mörg ár síðan Ragnar hafði tak- markað úthald til gangs á hverjum degi. „Ég varð mjög aumur eftir einfalda göngu, hafði í raun takmarkað úthald á stúfnum, en eftir að ég fékk þennan góða búnað þá styrktist hnjálið- urinn, vöðvafesturnar við hnjáliðinn styrktust, en hann ber mig í raun uppi, og smám saman urðu til nýjar áskoranir og þar með Hvanna- dalshnjúkur, sem ég átti tiltölulega auðvelt með að fara á, hvað þá minni fjöll eins og Esjuna, Akrafjall og Skarðsheiði. Breytingin er gífur- leg.“ Ragnar, sem er 57 ára, var 17 ára þegar slys- ið varð. Hann stundaði nám í Danmörku, út- skrifaðist sem tæknifræðingur 1985 og hefur unnið sem slíkur síðan. Hann segist hvorki hafa verið sérstakur útivistarmaður í gegnum árin eða áhugamaður um að ganga á fjöll. Það hafi breyst með árunum. „Þegar fólk eldist held ég það vilji oft takast á við eitthvað annað en áður. Ég er ekkert öðru- vísi en aðrir með það; varð því útivistarmaður með aldrinum og auðvitað skipti útbúnaðurinn máli og þar með færnin til að geta gert þetta. Þegar ég fékk rafmagnsökkla af fyrstu kynslóð frá Össuri jókst færni mín strax. Ég áttaði mig ekki á því alveg strax en mér gekk sífellt betur og betur. Hnjáliðurinn sjálfur og krossböndin styrktust mjög mikið. Vöðvar við hnjáliðinn höfðu rýrnað en þegar ökklinn er orðinn líkari venjulegum ökkla styrkist allt á ný. Ef maður labbar á einföldu kústskafti er það eins og hækja eða staur en þegar ökklinn er farinn að líkja eftir náttúrulegum fæti, verður hreyfingin á hnénu og álagið eins og á heilbrigðum fæti. Mestu máli skiptir hvernig tengingin er á milli hnésins og gervifótarins og því er óhætt að segja að allt hafi breyst þegar ég fékk vandaðri ökkla.“ Ragnar fór á Hvannadalshnjúk á fjaðrandi gervifæti með hæl sem hann segir ákjósanlegan í verkefnið. Íslenskir fjallaleiðsögumenn skipulögðu ferð- ina. „Þeir bjóða upp á reglulegar ferðir þangað, voru til dæmis með nokkra hópa daginn sem ég fór. Fararstjóri á þeirra vegum sér til þess að allt sé eins og það á að vera, til dæmis að farið sé eftir öllum öryggisreglum. Mjög fagmannlega var að öllu staðið.“ Þau voru fjögur saman; Ragnar, nýsjálenski fararstjórinn Mike Howard, Þórður Hjalti Þor- varðarson bæklunarlæknir og sjúkraþjálfarinn, Ída Braga Ómarsdóttir. „Ég var því í mjög góð- um höndum og hafði gaman af því að skora á þau Þórð og Ídu að koma með. Hvorugt gat í raun skorast undan og tiltölulega auðvelt var að ná öðru með mér í svaðilförina þegar hitt var búið að samþykkja. Þau eru nefnilega hjón, en ég kynntist þeim reyndar sínu í hvoru lagi.“ Ragnar hefur verið í þjálfun á Grensásdeild Landspítalans undanfarin þrjú ár en þar starfar Ída sem yfirsjúkraþjálfari. „Þeim sem misst hafa fót er boðið að koma þangað í þjálfun, einn klukkutíma í senn tvisvar í viku, sem er mjög gott. Þar kynntist ég Ídu og Þórður hefur líka gert við mig á sjúkrahúsinu!“ Þegar Ragnar gekk á Hvannadalshnjúk hið fyrra skipti, fyrir þremur árum, var það fyrst og fremst til að ögra sjálfum sér. Hann vildi takast á við áskorunina. „Ég vildi setja mér eitthvert nýtt markmið, ögra sjálfum mér og sjá hvað ég gæti. Þetta er kannski heimskulegt en samt dá- lítið gaman!“ Þegar spurt er hvort ekki megi líta á ferðir hans á hnjúkinn sem skilaboð þess efnis, hvað sé mögulegt, ef viljinn sé fyrir hendi, svarar Ragnar: „Jú, þarna hittirðu naglann á höfuðið. Þau skilaboð sem mér finnst hægt að lesa út úr þess- um ferðum eru þau að þegar fólk lendir í ein- hvers konar áfalli þarf það að hugleiða hvernig það ætlar að vinna úr því. Hvernig viljum við lifa lífinu? Hvað viljum við gerum úr sjálfum okkur? Ætlum við að nota áfallið sem afsökun; til þess að þurfa ekki að vakna á morgnana, svo ég nefni dæmi. Til þess að þurfa ekki að vinna? Öllum er einhvern tíma illt einhvers staðar. Hvernig vinnur fólk úr því?“ spyr hann. „Össur einn og sér leysir ekki vandamálin fyrir þá sem lenda í svona aðstæðum, maðurinn sjálfur og hugarfar hans er aðalatriðið. Maður verður að vinna rétt úr hlutunum, gera eins vel og maður getur úr því sem maður hefur. Það er ekki sjálfgefið að allt takist, hvort sem um er að ræða sjúkdóm eða slys, en miklu skiptir að finna eigin styrkleika og vinna með hann.“ Sumir tóku ofan! Þau Ragnar fóru á Hvannadalshnjúk laug- ardaginn 20. maí. „Við lögðum af stað rétt fyrir klukkan fjögur um nóttina, löbbuðum upp í snjólínu, sem er góð Esjuhæð og þar sem jökull- inn byrjar eru allir settir saman í öryggislínu. Hún tryggir að ef einhver fellur ofan í sprungu fer hann ekki mjög djúpt. Hinir sem standa sjá til þess. Farið er vel í gegnum allar öryggis- reglur; til dæmis hvernig á að bregðast við ef einhver fellur í sprungu.“ Hann segir færið hafa verið mjög gott þenn- Mikil áskorun fyrir einfættan að ganga á Hvannadalshnjúk Ragnar Hjörleifsson er einn fjölmargra sem undanfarið hafa gengið á hæsta tind landsins, sjálfan Hvannadalshnjúk í Vatnajökli. Það væri varla í frásögur færandi nema vegna þess að Ragnar missti hægri fótinn fyrir neðan hné í slysi fyrir 40 árum og notast við gervifót. Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Á toppnum! Ragnar Hjörleifsson, Þórður Hjalti Þorvarðarson, bæklunarlæknir, sjúkraþjálfarinn Ída Braga Ómarsdóttir, og fararstjórinn Mike Howard. Útsýnið af Vatnajökli er fallegt í góðu veðri. VIÐTAL 16 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.6. 2017

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.