Víkurfréttir


Víkurfréttir - 23.01.2014, Blaðsíða 14

Víkurfréttir - 23.01.2014, Blaðsíða 14
fimmtudagurinn 23. janúar 2014 • VÍKURFRÉTTIR14 n Þóra Jónsdóttir, áttræður listmálari segir sköpun besta meðalið: Er eiginlega svolítill flippari -viðtal pósturu olgabjort@vf.is Myndlistarkonan Þóra Jónsdóttir er fædd árið 1933. Hún fékk áhuga á að mála fyrir 30 árum þegar hún var fimmtug og segir að það sé aldrei of seint að finna sér áhugamál eins og sköpun. Hún sér á eftir Guð- mundi Rúnari sem kennara og óskar þess að hann komi aftur. Lærði að hekla á fimmtugsaldri „Ég ögra sjálfri mér. Ég verð alltaf að byrja á því sem ég eiginlega á að gera í lokin. Ég er bara svona. Það hefur gengið, annars væri ég löngu hætt,“ segir Þóra hlæjandi. Hún segir það kannski vera einhverja frekju í sér að krefjast of mikils af sjálfri sér, en hún sé svona í öllu. Þóra var t.a.m. komin yfir fertugt þegar hún byrjaði að hekla. Hún bjó þá í Danmörku og systir Hemma Gunn, sem bjó í sama húsi, kenndi henni að hekla. „Ég byrjaði á því að hekla skírnarkjól með breiðri blúndu að neðan. Ætlaði mér að gera þennan kjól. Hún las alltaf upphátt uppskriftina fyrir mig og enn þann dag í dag les ég upphátt ef ég geri einhverja vitleysu þegar ég hekla,“ segir Þóra og brosir. Léttast að skapa út frá sjálfri sér Þóra segir listamanninn og Suður- nesjamanninn Kristin Má Pálmason hafa haft mest áhrif á sig. Hann sé alltaf efstur í huga sér því hann hafi ögrað henni mest. Kristinn er meðal þeirra sem hafa kennt á námskeiðum á vegum Myndlistarfélags Reykjanesbæjar, sem stofnað var árið 1995. Þóra hefur verið félagi frá byrjun. Áður var hún í Bað- stofunni þar sem m.a. Eiríkur Smith kenndi. „Það er svo skemmtilegt hvað kennar- arnir eru ósammála. Mér hefur líkað við þá alla. Eitt sinn málaði ég lauf blá og einn kennari sagði mér að mála yfir þau. Öðrum kennara fannst bara flott að hafa þau blá. Ég er eiginlega svolítill flippari og mest hrifin af abstract. Mér liggur léttast að gera eitthvað frá sjálfri mér.“ Þrír til fjórir listamenn kenna hjá Myndlistarfélaginu yfir veturinn og hver með sín áhrif. „Svo kenna þeir ekki endilega eins og þeir vinna sjálfir verkin sín og eru þekktir fyrir. Daði Guðbjörnsson, sem þekktur er fyrir sínar krúsidúllur, lét okkur til dæmis teikna landslagsmyndir,“ segir Þóra. Sér mikið eftir Guðmundi Rúnari Listamaðurinn Guðmundur Rúnar Lúðvíksson kenndi á síðasta námskeiði og afrakstur þeirrar kennslu er sýndur í Kjarnanum undir heitinu Húsin í bænum. Þegar Guðmundur Rúnar afhenti nemendum sínum skírteinin segir Þóra það hafa slegið sig þegar hann sagði í leiðinni að hann ætlaði að taka sér frí. Hún vissi ekki hvort hann væri að hætta eða ekki. „Það má ekki missa svona orkubolta úr samfélaginu. Hann er alveg sér- stakur maður og hefur gert svo mikið fyrir nemendur. Mér finnst hann ekki vaða úr einu í annað eins og sumir vilja halda fram. Hann segir ekki mikið en hann gefur þeim sem eru að byrja svo mikinn tíma. Sumir kennarar verða þreyttir ef einhver einn spyr margs en Guðmundur Rúnar missir aldrei þolin- mæðina. Svo reynir hann alltaf að hafa allt á sem ódýrastan máta,“ segir Þóra sem bersýnilega saknar kennara síns. Hann klári öll námskeið með nem- endasýningu og það sé svo mikilvægt. „Við áttum bara að hafa 2 tíma í viku en hann hafði 4 daga í viku. Án þess að þiggja aukagreiðslu fyrir það. Hann er eins og hálmstráið mitt.“ Eins og að fara til sálfræðings Frá því að Þóra byrjaði að mála hefur henni fundist hún hverfa úr þessu dag- lega lífi og yfir í heim þar sem henni líður svo vel. „Þegar maður byrjar þá gefur maður svo mikið af sér og er svo alveg búin á því og líður samt svo vel. Þetta er heimur sem er svo gaman að fara í. Ég er búin að ganga í gegnum veikindi fullorðinna barna minna og ýmislegt. Það að skapa er mér eins og að fara til sálfræðings. Hálfgert pensillín. Tilfinningarnar brjótast fram í gegnum sköpunina og hægt er að sjá í litunum hvað er að. Við sem erum eitthvað í þessu sjáum í myndum hvers annars hvort eitthvað hefur gengið á.“ Þóra segir að á meðan hún geti gert þetta þá ætli hún ekki að hætta því. „Þetta er svo yndislegt fólk. Við erum öll saman og þótt ég sé 25 árum eldri en sá næstelsti þá get ég aldrei fundið að ég sé sú gamla. Þetta er yndislegur félagsskapur og ótrúlegur kjarni. Við erum 12 - 15 manns að mála, málum steinþegjandi og svo hljómum við eins og kríugarg þegar það kemur kaffi- pása,“ segir Þóra og hlær dátt. Áhugamál öllum nauðsynleg Þóru finnst fullorðið fólk eiga að hafa áhugamál. Margir viti ekki hvað þeir eigi að gera við tímann. Hætta sé á því að þegar horft er mikið á sjónvarp þá sé erfitt að standa upp aftur. Gott sé fyrir alla að hafa eitthvað fyrir stafni. „Ef það er ekki gert þá verða allir hinir svo leiðinlegir. Ég hef einfaldlega ekki upp- lifað það ennþá. Ég hef heldur aldrei hugsað um að verða eitthvað. Ég geri þetta ánægjunnar og selskapsins vegna. Stundum byrja ég á einhverju sem ég er viss um að geta ekki klárað en þá er spennan svo mikil að ég get ekki hætt,“ segir Þóra og líkir málverkum við jazz að því leyti að þau eru aldrei búin. Það sé endalaust hægt að horfa á og skapa og bæta við þau. „Það er aldrei hægt að vera kvöldstund með olíumálverk, það getur farið upp í marga mánuði.“ Vinsælasta herbergið í húsinu Sjálf segist Þóra samt ekki vera með sérstaka aðstöðu. „Lítið herbergi með saumavélinni og öllu mínu drasli. Mér líður ógurlega vel þar. Stundum er ég með mörg verk í gangi, raða þeim þá á gólfið eða bak við hurð.“ Hún segir þetta vera vinsælasta herbergið í hús- inu og að kannski sé einkennilegt fyrir svona gamla konu að vera með leik- herbergi. „Samt er maður voða fátækur ef ímyndunaraflið vantar. Ég stoppa til dæmis oft á Reykjanesbrautinni bara til að horfa á himininn. Hann er svo stórkostlegur,“ segir hún dreymin á svip. Hún hvetur alla á öllum aldri að láta drauma sína rætast og segir það einfaldlega aldrei of seint. „Það eru svo margir sem hafa mikla hæfileika sem sjást aldrei. Það er miður. Stundum sjáum við voðalega stutt miðað við allt það sem við höfum í kringum okkur,“ segir Þóra að lokum. Það eru svo margir sem hafa mikla hæfileika sem sjást aldrei. Það er miður Hér má sjá þrjú málverk eftir Þóru frá kunnuglegum stöðum á svæðinu

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.