Gripla - 20.12.2017, Blaðsíða 28
GRIPLA28
Þótt líta megi á skráningu þjóðsagna sem leið Brandþrúðar til að
miðla þekkingu sinni, er ljóst að hún tjáði sig ekki síður munnlega. Árið
1948 birtist áhugaverð fimm blaðsíðna smásaga í Eimreiðinni eftir Helga
Valtýsson (1877–1971) sem ólst upp á nesi í Loðmundarfirði, norður-
Múlasýslu. Smásagan, sem heitir „Drottning örbirgðar og ævintýra“, fjallar
um sagnakonuna Brandþrúði gömlu sem fer um hávetur til næsta bæjar
til að heimsækja kunningja sína og segir börnunum um leið þjóðsögur og
ævintýri. í sögunni er henni lýst sem fyrirmyndardæmi um sagnaþul og
kemur lýsingin heim og saman við hugmyndina um gamla, sögufróða kerl-
ingu sem segir börnunum ævintýri:
Brandþrúður gamla var ævintýrið og þjóðsögurnar ljóslifandi og
holdi klætt. í þeim heimi lifði hún og andaði, og þar sló hjarta
hennar og bærðist í sorg og sælu, grát og gleði, utar og ofar striti
hversdagsleikans og störfum á harðbalakoti á útskaga, í einangrun
og fásinni. í mjúkum höndum sínum og hlýjum hélt hún Máríutásu-
lopa ævintýra og sagna og spann úr honum glitrandi lýsigulls-þræði,
tvinnaði þá og þrinnaði og óf síðan úr þeim með fjöllitu hýjalíns-
ívafi dásamlegar glitvoðir, sem hún síðan tjaldaði yfir barnahópinn
á kvöldin, þar sem hún var langþráður og kærkominn aufúsugestur.
Undir þeim tjaldhimni hvarf börnunum heimur allur og veruleiki
um hríð, og hvert ævintýri var sem „renni, renni rekkja mín“ eða
„fljúgðu, fljúgðu klæði“, sem bar börnin óravegu til nýrra landa og
ókunnra, þar sem sól skein daga og nætur yfir grænum skógum. Og
skrautlegir fuglar sungu sætum róm. Þar var hvorki skammdegi né
vetrarríki. – Þar var gott að vera!66
Þó að Brandþrúði hafi verið lýst sem gamalli sagnakonu í sögu Helga
hefur hún verið ung kona á þrítugsaldri þegar hún lagði sögur sínar fram
til þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar, og má af þessu tvennu ráða að hún
of Eve: The Production, Dissemination and Reception of Popular Literature in Post-Reformation
Iceland (Middlesex: Hisarlik Press, 1997), 69. um viðfangsefni alþýðuskrifara, sjá einnig
Magnús Hauksson, „Þjóðlegur fróðleikur,“ Íslensk bókmenntasaga IV, ritstj. Guðmundur
andri thorsson (reykjavík: Mál og menning, 2006), 314–6, og ennfremur Sigurður Gylfi
Magnússon og Davíð ólafsson, Minor Knowledge and Microhistory: Manuscript Culture in
the Nineteenth Century (new York og London: routledge, 2017), 206–12.
66 Helgi Valtýsson, „Drottning örbirgðar og ævintýra,“ Eimreiðin 55 (1948): 298.