Gripla - 20.12.2017, Blaðsíða 154
GRIPLA154
neðan eru sýnd latnesku bókstafanöfnin sem munu hafa verið viðtekin í
hinni latnesku hefð allt frá því í fornöld.40
ā, bē, cē, dē, ē, ef, gē, hā, ī, kā, el, em, en, ō, pē, qū, er, es, tē, ū, ix/ex
nafngiftirnar lúta kerfi: Hljóðstafir segja nafn sitt sjálfir en samhljóð-
endur greinast í tvo flokka eftir því hvort unnt er að dvelja á hljóði þeirra
eða ekki. Hægt er að dvelja á hljóði svonefndra semivocales, en þar er um
að ræða hljómendur og önghljóð, ásamt „x“. Þeir hafa nöfn sem hefjast á
e en enda á hljóði stafsins svo að auðvelt er að lengja hljóðið þegar nafnið
er borið fram. Á lokhljóðum og [h] er hins vegar ekki hægt að dvelja41 og
kallast samsvarandi samhljóðendur mutae og hafa nöfn sem hefjast á hljóði
sínu en enda á sérhljóði, venjulega e, en frá því eru undantekningar, sbr.
„k,“ „q“ og „h“.
Heimildir um nöfnin má rekja aftur til fornaldar en lengst af henni eru
þær brotakenndar og ná einungis til hluta stafrófsins.42 í yngri verkum
fæst stundum nokkuð heilleg mynd, til dæmis í málfræði Priscianusar,
sem uppi var um 500 e. Kr., en þar koma fyrir öll stafanöfnin að ofan
(án þess þó að lengd sérhljóðs þeirra sé tilgreind), að frátöldu nafni „h“
sem Priscianus áleit ekki vera bókstaf heldur – fyrir áhrif frá Grikkjum
sem ekki höfðu bókstaf fyrir [h] – merki blásturs.43 Nafnið ha fyrir „h“
kemur fyrir hjá öðrum málfræðingi, Pompeiusi, sem uppi var á svipuðum
tíma og Priscianus eða aðeins fyrr.44 En þótt eldri heimildir en þetta séu
brotakenndar falla þær yfirleitt að því kerfi sem að ofan er lýst; eftirtektar-
verðar vísbendingar um undantekningu frá þessu eru þær að tíðkast hafi
40 Sjá W. Sidney Allen, Vox Latina, 2. útg. aukin og bætt (Cambridge: Cambridge university
Press, 1978), 114. Þarna vantar nöfn bókstafanna „y“ og „z,“ sem ekki tilheyrðu stafrófinu
upprunalega, en síðar var farið að nota í grískum orðum.
41 Myndun lokhljóða er í eðli sínu dýnamísk, þ.e. lokhljóðshvellurinn framkallast við að lokun
er fyrst mynduð og síðan losuð. Ekki er hægt að dvelja svo að neinu nemi á raddglufumælta
önghljóðinu [h] vegna þess að við myndun þess er raddglufan galopin þannig að lungun
tæmast af lofti á svipstundu, en án loftstreymis er ekkert hljóð.
42 A. E. Gordon, The Letter Names of the Latin Alphabet, university of California Publications:
Classical Studies 9 (Berkeley, Los angeles, London: university of California Press, 1973),
4 o.áfr.
43 Ibid., 26–27. Á sama stað kemur fram að Priscianus lætur „x“ ekki heita ex heldur ix, en nafn
það fáist með því að snúa við gríska nafninu ξῑ.
44 Ibid., 26.