Víkurfréttir - 25.01.2018, Qupperneq 27
27UMRÆÐAN Á SUÐURNESJUM f immtudagur 25. janúar 2018 // 4. tbl. // 39. árg.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja er
Heilsueflandi framhaldsskóli
Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur
verið Heilsueflandi framhalds-
skóli frá haustönn 2011 þegar það
verkefni fór formlega af stað. Verk-
efnið byggist á forvörnum út frá
víðtæku og jákvæðu sjónarhorni
og stuðlar að vellíðan nemenda
og starfsfólks sem tileinkar sér
jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl.
Heilsueflandi umhverfi bætir
námsárangur og líðan nemenda og
dregur úr brottfalli. Aðaláherslur
verkefnisins eru fjórir þættir: nær-
ing, hreyfing, geðrækt og lífsstíll
og er eitt viðfangsefni tekið fyrir á
hverju skólaári. Næring er mikil-
væg fyrir alla og býður skólinn
upp á fjölbreyttan og hollan mat
í hádeginu fyrir nemendur og
starfsfólk þar sem tillit er tekið
til manneldismarkmiða Land-
læknisembættisins. Hreyfing er
hluti af kennslu í skólanum og geta
nemendur stunda bæði íþróttir
og dans. Á síðustu önn sigraði
lið skólans þrekmót framhalds-
skólanna öðru sinni.
Geðrækt er hluti af verkefninu og
er lögð áhersla á að bæta líðan nem-
enda með því að skapa jákvæðan
skólabrag, og fá nemendur fræðslu
um geðheilsu í Lýðheilsuáfanga.
Skólinn býður upp á sálfræðiþjón-
ustu og nemendur hafa aðgang að
sálfræðingi þrjá daga í viku, sér að
kostnaðarlausu. Lífsstíll er hluti af
öllu starfi og hefur skólanum tekist
að móta sína stefnu í forvarnar-
málum sem snerta vímuefni og
fræðslu um kynheilbrigði. Nánar
má lesa um stefnur skólans á heima-
síðu hans www.fss.is
Skólinn er jafnframt aðili að átaki
um að Reykjanesbær sé heilsu-
eflandi samfélag. Núna í ár er lögð
áhersla á að bæta félagsrými nem-
enda og aðbúnað með því að setja af
stað hönnun og vonandi byggingu
á þeirri viðbyggingu sem lengi er
búið að óska eftir.
Foreldrafélag FS ætlar m.a. að bjóða
nemendum upp á fyrirlestur um
heilsu með Loga Geirssyni núna á
nýju ári og hvetjum við nemendur
til að fjölmenna.
Anna Sigríður Jóhannesdóttir,
formaður foreldrafélags
Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Málþroski, orðaforði og læsi
Hvernig efla foreldrar málþroska barna sinna?
Foreldrar geta stuðlað að auknum málþroska hjá barni sínu og gefið því
forskot á mikilvæga þætti er styðja við allt nám og framtíðarmöguleika
þess. Orðaforða og grunn að læsi geta foreldrar kennt börnum sínum
á ýmsa vegu. Í daglegu lífi má gera samskiptin jákvæðari og innihalds-
ríkari með tungumálinu svo nýr orðaforði og hugtök bætast stöðugt í
þekkingarbrunn barnsins. Foreldrar geta lesið sögur og bækur sem
innihalda litríkt mál og góðan orðaforða og jafnvel gera börnin að meiri
þátttakendum í sögunni. Foreldrar geta hvatt börn sín til að segja frá
atburðum og sögum, sungið með þeim og kennt þeim rím og vísur. Það
má því segja að foreldrar séu lykilpersónur í málþroska barna sinna
fyrstu leik – grunnskólaárin.
Leik- og grunnskólar eru líka miklir
áhrifavaldar í þessu máltöku- og
þroskaferli sem á sér stað hjá
börnum. Samstarf heimila og skóla
við að efla orðaforða og læsi hjá
börnum getur gert kraftaverk og
foreldrar mega aldrei gleyma þessu
mikilvæga hlutverki í uppeldi sínu.
Það er mikilvægt að fylgjast vel með
og greina þau börn strax sem þurfa
á aðstoð að halda á öllum sviðum
máls og tals. Ef við ætlum að ná
betri árangri í læsi í alþjóðlegum
samanburði þá verðum við að byrja
á grunninum, grasrótinni, svo hægt
sé að halda áfram að byggja ofan á
þekkingu þeirra.
FFGÍR foreldrafélög grunnskóla-
barna í Reykjanesbæ bjóða öllum
foreldrum barna (5-10 ára) á
síðasta ári í leikskóla og á yngsta
stigi í grunnskóla á örnámskeið
um málþroska, orðaforða og læsi
mánudaginn 29. janúar kl. 18-19 í
Íþróttaakademíunni (fimleikahús).
Umfjöllun mun leggja sérstaka
áherslu á að fræða foreldra um
hvernig þeir veita börnum sínum
bestu mögulegu þroskaskilyrði er
varðar tjáningu, orðaforða og læsi
sem hefur áhrif á allt nám barnanna
síðar á lífsleiðinni. Fyrstu árin leggja
grunn að framtíðinni og aðkoma
foreldra að málörvun barna sinna
skiptir sköpum um framtíð þeirra.
Bryndís Guðmundsdóttir talmeina-
fræðingur og höfundur námsefnis á
þessu sviði hefur áralanga reynslu
í starfi á Íslandi. Hún mun kynna á
hagnýtan hátt fyrir foreldrum hvaða
þættir það eru sem foreldrar geta
tileinkað sér enn betur til að örva
mál - og talþroska barnanna sinna.
Allir hjartanlega velkomnir
FFGÍR
Tími til að kveðja pólitíkina
Ég hef ákveðið að stíga af hinum pólitíska vettvangi sveitarstjórnarmála við
næstu sveitarstjórnakosningar. Þessi ákvörðun er reyndar löngu tekin og löngu
tilkynnt en vegna fjölda fyrirspurna enn í dag tel ég mikilvægt að ítreka þetta nú
áður en val á lista fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ fer fram.
Nú er kominn tími til að kveðja þetta
spennandi fyrirbæri, pólitík, 30 árum
síðar og taka næstu skref.
Okkur hjónum líkar afar vel að búa í
Reykjanesbæ. Næg ný og spennandi
verkefni eru framundan hjá okkur, sum
tengd svæðinu.
Í einlægni sagt þá hef ég lengstum verið
drifinn áfram í gegnum þykkt og þunnt
í pólitík af löngun til að skapa betra
samfélag, þar sem allir hafi tækifæri
til að gera sitt besta, skapa grunn sem
gefur þeim jafnari stöðu til að teygja
sig í tækifærin. Skapa umgjörð þar sem
allir menn fá að lifa og njóta. Skapa
sérhverjum einstaklingi svigrúm til
sjálfstæðis.
Grunnurinn að langtímaárangri er að
börnin hafi forgang. Hér áður þótti
það ekki alltaf hæfa karlmanni að halda
þessu fram en virðist betur eiga við í
dag. Skoðun mín var, er og verður að
með góðri aðhlynningu barna frá unga
aldri, með upplýstum foreldrum, í leik-
skóla og inn í grunnskóla sé öflugasta
leiðin valin til að gefa þeim jöfn tækifæri
í lífinu. Það er jafnrétti í reynd.
Ég var fyrst kosinn í borgarstjórn
Reykjavíkur 1986 og starfaði þar til
1999. Það var mikil lífsreynsla að vera
rétt forystukeflið aðeins þremur mán-
uðum fyrir borgarstjórnarkosningarnar
1994 þar sem við náðum að hífa fylgi
Sjálfstæðisflokksins úr 30% í 47%
í harðri baráttu við þá nýstofnaðan
R-lista. Þá átti reynsla af vinnu minni að
skólamálum í borginni eftir að reynast
mér gott veganesti fyrir starfið í Reykja-
nesbæ.
Árið 2002 var mín freistað með áhuga-
verðu verkefni á Suðurnesjum. Fjöl-
skyldan flutti til Reykjanesbæjar, ég
var kjörinn bæjarfulltrúi, oddviti sjálf-
stæðismanna og ráðinn bæjarstjóri
2002-2014. Ég hef verið bæjarfulltrúi
og oddviti Sjálfstæðisflokksins á þessu
kjörtímabili, sem nú er að ljúka.
Árangur verkefna í Reykjanesbæ hefði
ekki tekist nema með gríðarlegum
stuðningi bæjarbúa við þá framtíðar-
sýn sem við unnum eftir. Það tókst m.a.
á tólf árum að koma grunnskólum okkar
úr neðstu röð skóla í samræmdum
prófum upp í efstu raðir. Umhverfið
tók stakkaskiptum, strandlengjan sem
árlega brotnaði úr var varin, gerður
10 km göngustígur meðfram henni
og miklar umhverfisbætur unnar í
samfélagi okkar. Við gerðum umferð
greiðfærari og öruggari með hring-
torgum og styrktum almenningssam-
göngur. Við gerðum þær gjaldfrjálsar
og notkun þeirra margfaldaðist. Við
byggðum félagsmiðstöð eldri borgara
og hjúkrunarheimili í miðjum bænum.
Við horfðum fram á eina hröðustu íbúa-
aukningu á landinu og undirbjuggum
bæinn fyrir hana með skipulagi nýrra
atvinnusvæða og íbúahverfa, byggingum
leik- og grunnskóla og vönduðu starfi
þeirra, nýjum tónlistarskóla, íþrótta- og
samfélagsmannvirkjum.
Ekkert sem reynist gott í þessum heimi
gerist án einhverra óþæginda. Þessi
undirbúningur var kostnaðarsamur
fyrir sveitarfélagið og tók á. Ekki síst
þegar ellefu hundruð störf hurfu með
stuttum fyrirvara við brotthvarf varnar-
liðsins og efnhagshrunið varð nánast
í beinu framhaldi. Erfið fæðing fyrir-
tækja í Helguvík var heldur ekki til að
styrkja stöðuna. Við þurftum hjálpar-
laust að vinna okkur út úr vandanum.
Við menntuðum okkur út úr kreppunni.
Menntastig alls samfélags okkar er í
dag á allt öðrum stað en það var fyrir
fáeinum árum.
Allt er þetta nú að skila sér til baka.
Bærinn okkar er nú aðlaðandi mögu-
leiki til búsetu, íbúum fjölgar ört og
tekjur bæjarins styrkjast. Við vorum
tæplega ellefu þúsund árið 2002 en
erum að verða átján þúsund. Þessari
fjölgun var eingöngu hægt að mæta
vegna alls uppbyggingarstarfsins sem
hafði átt sér stað.
Barátta fyrir betra samfélagi heldur
áfram. Mikil fjölgun íbúa kallar áfram
á enn sterkari innviði, skóla og önnur
samfélagsmannvirki. Það þýðir endur-
skoðaða framtíðarsýn og auknar fjár-
festingar. Í öllum verkefnum fyrir bæjar-
félög þarf að fjárfesta til langs tíma en
tekjur fylgja gjarnan eftirá.
Ég hef kynnst störfum bæði í minni-
hluta og meirihluta, í Reykjavík og í
Reykjanesbæ og með því góðu fólki í
öllum flokkum sem vill samfélagi sínu
vel en með mismunandi nálgun og mis-
sterka framtíðarsýn. Auk þeirra er ég
afar þakklátur samferðarfólki mínu,
starfsmönnum sveitarfélaganna og
íbúum fyrir samstarfið.
Nú er annarra að taka keflið og þar eru
margir hæfir. Ég hef dáðst að því að
þegar fjölskylda mín flutti til Reykjanes-
bæjar voru mörg ungmenni innan raða
sjálfstæðismanna sem sýndu bæjarmál-
unum áhuga. Þessir einstaklingar hafa
á 16 árum flestir gengið menntaveginn
og bætt við sig reynslu og þekkingu.
Þarna er mikið hæfileikafólk, ásamt
eldri og reyndari einstaklingum, sem ég
vona að myndi öfluga forystu á næsta
kjörtímabili.
Ég á þá ósk heitasta að í samfélagi okkar
byggjum við áfram á því sem vel hefur
verið gert, mótum áfram sterka fram-
tíðarsýn og fylgjum eftir með skýrum
verkefnum, mælum árangurinn og
endurskoðum eftir þörfum.
Ég ítreka þakkir til ykkar fyrir sam-
starfið á þessum ánægjulega vettvangi.
„Afi, hvað ætlar þú að gera þegar þú
verður gamall?“
„Ég veit það ekki – ég er ekkert farinn
að pæla í því!“
Árni Sigfússon
FRÉTTAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN
898 2222
Gamla Sundhöll Keflavíkur menningarverðmæti
Umhverfis- og skipulagsráð Reykja-
nesbæjar fundar 13. febrúar nk.
og mun ákveða hvort samþykkja
eigi nýtt deiliskipulag fyrir Fram-
nesveg 9, þar sem gamla sundhöll
Keflavíkur stendur í dag. Ef deili-
skipulagið verður samþykkt, geta
eigendur lóðarinnar rifið niður
sundhöllina. Ég vona að bæjarráð
hafni deiliskipulaginu og hlúi þess
í stað að sögu- og menningarverð-
mætum bæjarins.
Sundhöll Keflavíkur hefur verið mikið í
umræðunni undanfarið og skiptar skoð-
anir um ágæti þess að rífa þessa fyrstu
sundhöll bæjarins. Margir hafa lýst
væntumþykju og góðum æsku minn-
ingum, á meðan aðrir telja engann missi
í því að höllin gamla verði jöfnuð við
jörðu. Háværust er þó sú rödd íbúa sem
telja að byggingin hafi varðveislugildi
og hvetja jafnframt bæjaryfirvöld að
beita sér fyrir því að húsið verði friðað.
Saga sundhallarinnar er merkileg þó ég
fari ekki að rekja hana sérstaklega, en
hún er fyrsta sundaðstaða Keflavíkinga
hönnuð af húsasmeistara ríkisins, Guð-
jóni Samúelssyni, fyrsta arkitekt okkar
íslendinga.
Íbúar Reykjanesbæjar sem vilja ekki sjá
sundhöllina hverfa hafa mikinn með-
byr í bæjarfélaginu. Þeir krefjast þess
að Reykjanesbær beiti sér fyrir því að
vernda húsið. Ábyrgð bæjarstjórnar-
manna er mikil og þeim ber, að mínu
mati, að sýna áhyggjufullum íbúum
skilning, vegna þess að íbúar sem láta
í sér heyra, taka á sig samfélagslega
ábyrgð, sem ber að fagna í heilbrigðu
samfélagi.
Eins og svo oft bregst yfirvaldið með
því að hræða íbúa með Grýlusögum,
stefnu sinnar til framdráttar. Sögusagnir
um að ef bæjarfélagið taki húsið, muni
það kosta bæjarfélagið fleiri hundruðir
milljóna svo ekki sé talað um hugsan-
legar skaðabætur? Einnig hafa heyrst
raddir um að Minjastofnun Íslands sjái
engan missi í húsinu og sjálfsagt að það
verði rifið.
Minjastofnun Íslands ritaði Skipulags-
fulltrúa Reykjanesbæjar bréf í október
2017 undir þar sem efnið er Framnes-
vegur 9 – gamla sundhöllin í Keflavík.
„Minjastofnun Íslands telur að bygg-
ingin sé varðveisluverð, bæði frá sjónar-
hóli byggingarsögu og vegna menn-
ingarsögulegs gildis um bað- og sund-
menningu Íslendinga og Keflvíkinga á
fyrri hluta 20. aldar. Sundhöll Keflavíkur
er meðal nokkurra sundhallarbygginga
sem Guðjón Samúelsson húsameistari
hannaði um svipað leyti, eins og t.d.
sundhöll Seyðisfjarðar sem byggð var
árið 1948 og sundhöll Ísafjarðar sem
tekin var í notkun árið 1946. Báðar eru
þessar sundlaugar enn í notkun og hafa
fengið gott viðhald.” Einnig kemur fram
í sama bréfi að Minjastofnun Íslands
telji að vel upp gert gæti húsið orðið
staðarprýði.
Það var ljóst í samtali mínu við Minja-
stofnun Íslands, að frá þeirra hálfu
eru mörg úrræði til að tryggja öryggi
hússins.
Sem dæmi væri hægt að fara þess á leit
við ráðherra að fá „skyndifriðun” sem
gefur bæjaryfirvöldum tíma til að fresta
ákvörðunartöku og leita ásættanlegrar
lausnar. Bæjaryfirvöld gætu einnig farið
þess á leit við Húsfriðunarsjóð ríkisins
að friðlýsa húsið og með því yfirfæra
ábyrgð og kostnað til ríkisins um endur-
bætur og rekstrarkostnað. Samkvæmt
viðtali mínu við Minjastofnun Íslands
hefur stofnunin mikinn áhuga að húsið
fái að standa og lýstu samstarfsvilja við
bæjaryfirvöld að finna ákjósanlega lausn
til að vernda húsið.
Að mínu mati er ljóst að ef bæjaryfir-
völd kjósa að tryggja öryggi hússins þá
eru allar dyr opnar. Staðhæfingar um
hundruða milljóna kostnað eru tölur
gripnar úr lausu lofti og eiga ekki við rök
að styðjast. Einnig er óraunhæft að tala
um skaðabætur þar sem enginn skaði
hefur verið gerður. Deiliskipulag hefur
ekki verið samþykkt og byggingarleyfi
hefur ekki verið veitt.
Það er ekki langt síðan að háværar
raddir hvöttu til þess að rífa Duus
húsin á sínum tíma. „Ónýtt drasl” voru
slagorðin á þeim tíma. Þorir einhver
að hugsa til þess í dag ef Duus húsin
væru horfin? Þökk sé framtíðarsýn
þáverandi bæjaryfirvalda að kanna hug
íbúa, með því að halda hönnunarkeppni
sem byggði á hagstæðum lausnum og
hugmyndum um notkun á húsunum. Ég
var á þriðja ári í arkitektúr á þeim tíma
og tók þátt í keppninni ásamt mörgum
öðrum með hönnun fyrir smábátahöfn,
listasafni og kaffihúsamenningu. Í dag
eru Duus húsin stolt bæjarbúa og hin
mestu bæjarprýði.
Það væri ekki úr vegi fyrir bæjaryfir-
völd að gera slíkt hið sama í dag fyrir
Sundhöll Keflavíkur og með því hvetja
bæjarbúa til listsköpunar og þátttöku
í umhverfi sínu.
Á endanum snýst verndun sundhallar
Keflavíkur ekki um tilfinningar eða feg-
urðarskyn hvers og eins heldur um að
vernda sögu Keflvíkinga og sundmenn-
ingarsögu Íslendinga fyrir komandi
kynslóðir. Þótt byggingin sé ekki ýkja
gömul í dag þá verður hún það einn
daginn og mun án efa verða okkur öllum
til sóma ef rétt verður staðið að verkum.
Dagný Alda Steinsdóttir
fulltrúi Menningarráðs
Reykjanesbæjar.