Feykir - 30.04.2015, Qupperneq 10
10 16/2015
Heilir og sælir lesendur góðir.
Kannski er við hæfi á þessum brunaköldu
dögum nú um fyrstu sumarhelgi er þessi
þáttur er í smíðum að reyna að storka
norðanáttinni með þessum fallegu
vorvísum. Höfundur er Ingólfur Ómar.
Veitir yndi vorsól blíð
vermir tind og hjalla.
Gróa rindar grænkar hlíð
glitra lindir fjalla.
Foldin angar allt er hljótt
út um nes og tanga.
Sjávarbáran blítt og rótt
blundar lygn við dranga.
Vekur þrá og vermir brá
vori dável unni.
Sólin háa sindrar á
sævarbláum grunni.
Lífið iðar grasið grær
glóbjart sviðið ljómar
Lindin niðar lygn og tær
lóukliður ómar.
Hlýtur að bregða til betri tíðar þegar þessar
vísur birtast. Það mun vera Vilhjálmur frá
Skálholti sem er höfundur að þessari.
Sértu göfga gæddur þeim
að gleðja hrakta, smáða.
Þú munt för í himin heim
hafa rósum stráða.
Frekar erfitt að trúa að Bjarni frá Gröf hafi
meint mikið með því sem hann heldur fram
í næstu vísu.
Best er að vera bráður í raun
og býta illt við marga.
Véla af öðrum verkalaun
og voluðum lítið bjarga.
Man því miður ekki hver sá hagyrðingur
var sem hlustaði á sér yngra fólk ráð um
skáldskap.
Þjóðin fílar fögur kvæði
og fagnar stökum vísnaþáttar.
Finnst þær raunar algjört æði
og ógeðslega meiriháttar.
Það er Anna Árnadóttir sem er höfundur að
næstu vísu.
Um hin merku aldahvörf
ættu menn að doka við
og huga að því sem helst er þörf
til hagsbóta fyrir mannkynið.
Önnur vísa kemur hér eftir Önnu.
Hlustum á veröld vorsins óma
vaxandi kveða sumarlag.
Horfum á minnsta brumið blóma
bjóða fagnandi góðan dag.
Minnir endilega að þessi kunna vísa sé eftir
Sveinbjörn áður allsherjargoða.
Heimsins vegur hulinn er
huga manns og vilja,
Vísnaþáttur 640
enginn þarf að ætla sér
örlög sín að skilja.
Halldóra systir Sveinbjörns gerði svo vel eitt
sinn að yrkja þessa kunnu vísu.
Þegar örmum vetur vefur
visna björk í skógarþröng,
þrái ég vorsins þýðu óma
þyt í laufi og fuglasöng.
Þar sem nú stefnir í illskeyttar vinnudeilur
og hörmuleg verkföll, er kannski við
hæfi að rifja næst upp vísu sem tengist
slíkum vettvangi. Það mun hafa verið
á fundi hjá sáttasemjara sem fulltrúi
rafiðnaðarsambandsins rauk á dyr og skellti
hurðum svo harkalega að dyrabúnaðurinn
brast í þá til nýlegu húsnæði sáttasemjara.
Af því tilefni orti Hreiðar Karlsson, áður
kaupfélagsstjóri á Húsavík, svo.
Áheitalegur sem aldrei fyr
atvinnurekendahrellir.
Hvatlega gengur um gáttir og dyr,
Guðmundur hurðaskellir.
Einhverju sinni, eins og oft áður, var deilt
um gagnagrunninn sem Kári Stefáns er
að sýsla með. Kom fram á sjónarsviðið
Valdimar mannkynsfrelsari og bauðst til að
innheimta gjald fyrir upplýsingar hvers og
eins. Eftir að hafa heyrt um þessi kostaboð
orti Hreiðar.
Upp er komið örðugt vandamál
orðið brýnt að fá hið rétta svar.
Hvort það muni betra að selja sál
sína Kára eða Valdimar.
Nú í vetur hafa verið uppi talsverðar
umræður um að sala áfengis í búðum yrði
gefin frjáls. Ekki er mjög langt síðan að
svipuð umræða fór fram án þess að nokkur
niðurstaða fengist. Um svipað leyti var
næsta vísa ort en því miður man ég ekki
hver er höfundur hennar.
Við innganginn er áma stór,
áfengt vínið bullar.
Í kæliborði kaldur bjór
og kassadömur fullar.
Ágæt er þessi vísa eftir Stephan G.
Víst er gott að vera hjá
vinasveit og grönnum.
Og kunna réttar áttir á
allri byggð og mönnum.
Kannski er í lokin á þessum þætti ástæða til
að ítreka það sem var í upphafi sagt um sól
og vor. Vonum að það verði að áhrínsorðum
um sumarsælu að enda með þessari ágætu
vísur Ingólfs Ómars.
Veröld ljómar drungi dvín
daga rómum langa.
Söngvar ómar sólin skín
sumarblómin anga.
Verið þar með sæl að sinni.
/ Guðmundur
Valtýsson
Eiríksstöðum,
541 Blönduósi
Sími 452 7154
( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) kristin@feykir.is
Matthildur Birgisdóttir hjúkrunarfræðinguar á HSN Blönduósi skrifar
Heilsueflandi samfélag
ÁSKORENDAPENNINN
UMSJÓN kristin@feykir.is
Þar sem að lífsgæða-
kapphlaupið er svo mikið
að það virðist vera farið að
ógna heilsu okkar á einn
eða annan hátt, ætla ég í
framhaldi af skrifum Önnu
Maríu, sem ég þakka þessa
skemmtilegu áskorun, að
stikla á stóru um heilsu og
forvarnir. En þar sem ég
á það til að vaða úr einu í
annað er ekki ólíklegt að
ég verði farin að tala um
eitthvað allt annað í lokin.
Öll þurfum við að huga að
heilsu okkar á einn eða
annan hátt. Það getur þó verið
þrautinni þyngra að koma
sér í það litla verk. Ég meina,
hver man ekki eftir því að fara
með bílinn sinn í skoðun? Nú,
enginn. Fyrst fáum við senda
viðvörun að nú sé kominn tími
til að fara með djásnið í hina
árlegu skoðun og ef ekki er
okkur send væn rukkun inn um
lúguna. Hvetjandi, ekki satt?
Bíllinn að verða bensín- eða
olíulaus. Hvað gerum við? Við
komumst ekki langt á tómum
tanknum. Hver hnippir í okkur
þegar kemur að því að huga
að eigin heilsu og líkama?
Sendir rukkun þegar við erum
farin að ganga á síðustu
dropa tanksins. Enginn. Það
er eitthvað sem að við þurfum
að sjá um sjálf. Því tel ég
að forvarnir og fræðsla séu
eitthvað sem að þarf að efla í
náinni framtíð.
Þverfaglegur hópur fólks á
Blönduósi tók sig saman um
daginn og hélt heilsueflandi
viku fyrir samfélgið. Meðal
annars var frítt í alla tíma á
vegum íþróttahússins, frítt
í Metabolic og sund. Í lok
vikunnar voru bæjarbúar
hvattir til að koma í
heilsufarsmælingar á borð
við blóðþrýstingsmælingu,
blóðsykursmælingu og
blóðfitumælingu sér að
kostnaðarlausu. Það var
frábært að sjá hversu margir
tóku þátt, hversu margir fóru
með „djásnið“ í skoðun. Ég
skora á fleiri bæjarfélög að
gera slíkt hið sama.
- - - - -
Ég skora á Róbert Daníel
Jónsson, forstöðumann
Íþróttamiðstöðvar Blönduóss.
Matthildur er til vinstri á myndinni.
Góð skemmtun
Frumsýning Barið í brestina
Leikfélag Sauðárkróks
frumsýndi gamanleik-
inn Barið í brestina
26. apríl sl. eftir
Guðmund Ólafsson.
Sýning fór fram með
glæsibrag, gestir
skemmtu sér vel og
mátti heyra
hlátraskellina óma um
salinn frá upphafi til
enda.
Mikil eftirvænting
var í Bifröst, bæði á
meðal leikenda baksviðs
og sýningargesta í
salnum þegar kom að
stóru stundinni.
Leikarar sýndu flotta
takta á sviðinu. Kristján
Örn Kristjánsson var
einstaklega skemmtileg-
ur í hlutverki Þangbrands
kokks, Gísli Þór Ólafsson
fór á kostum í hlutverki
velferðarráðherra, Guð-
brandur J. Guðbrandsson
sem Guðgeir, Anna Rún
Austmar sem Natasja
læknir, svo maður nefni
nokkra, en allir stóðu
þeir sig með prýði.
Góð skemmtun sem
óhætt er að mæla með.
Sýningarnar eru tíu
talsins, fram að 10. maí.
Miðasala er síma 849
9434. /BÞ