Feykir - 04.06.2015, Blaðsíða 13
21/2015 13
Upplýsingamiðstöðvar á Norðurlandi vestra mæla með:
Sumarsamverustundir
fjölskyldunnar
UMSJÓN
Berglind Þorsteinsdóttir
Norðurland vestra státar af mikilli náttúrufegurð og er
fjölmargt hægt að skoða og gera í landshlutanum. Feykir
leitaði til upplýsingamiðstöðva á svæðinu um að koma með
tillögur að skemmtilegum dagsferðum eða sunnudagsrúnti fyrir fjölskyldufólk og stóð
ekki á svörunum. Eftirfarandi eru nokkrar tillögur að stöðum sem skemmtilegt er heim
að sækja og raða má saman að vild eftir því sem tíminn leyfir.
Skagi
Tilvalið er að keyra fyrir Skagann,
stoppa í Kálfshamarsvík og skoða
þar einstaklega fallegar stuðla-
bergsmyndanir en fyrir einni öld
var þar hundrað manna byggð sem
komin var í eyði um 1940. Á Skaga
er einnig að finna ótal vötn sem
hægt er að fá veiðileyfi í.
Skagaströnd
Þar má njóta kyrrðarinnar í fallegu
umhverfi Spákonufellshöfða þar
sem finna má skemmtilegar göngu-
leiðir og mikið fuglalíf. Fyrir ofan
bæinn er Spákonufell, þar er merkt
gönguleið upp á topp.
Gaman er að rölta um bæinn
og kíkja niður að höfn, skreppa í
sund og fara í Spákonuhof og fá
spákonurnar til að spá fyrir sér og
fræðast um leið um sögu Þórdísar
spákonu. Enda svo á því að fá sér
að borða á Borginni.
Blönduós
Bærinn stendur við ósa árinnar
Blöndu. Þar er fjölskrúðugt fuglalíf
og tilvalið að ganga meðfram ánni
AUSTUR-HÚNAVATNSSÝSLA
Fjölskrúðugt fuglalíf og
fegursta fossaröð landsins
í átt að Gamla bænum, kíkja við
í fuglaskoðunarhúsinu og þaðan
niður að ós þar sem oft má sjá
sel. Ofar í ánni er Hrútey, göngubrú
liggur út í eyna og þar er fjölbreyttur
gróður og fuglalíf.
Í bænum er að finna Heimilis-
iðnaðarsafn sem er eina sérgreinda
textílsafnið á Íslandi. Við hliðina á
því er Kvennaskólinn þar sem hægt
er að fá að sauma í refil sem segir
sögu Vatnsdælu.
Á Blönduósi er hestaleiga og
veiðistangaleiga svo hægt væri að
fara í reiðtúr, eða að renna fyrir fisk.
Kíkja svo í sund og borða síðan á
einhverjum veitingastaða bæjarins.
Húnavatnshreppur
Húnavatnshreppur nær yfir stóran
hluta Austur-Húnavatnssýslu.
Gaman er að keyra hringinn í
Vatnsdalnum. Þar er að finna
Vatnsdalshóla sem sagðir eru
óteljandi. Einnig má þar sjá
Kattarauga, djúpan pytt sem í
eru tveir fljótandi hólmar. Stikuð
gönguleið er frá Forsæludal upp
með röð fossa sem eru með eru
með fegurstu fossaröð á landinu.
Það er líka tilvalið að fara í bíltúr
um Svartárdalinn og borða nesti
við Stafnsrétt.
Hvammstangi
Hvammstangi er stærsti þéttbýlis-
kjarni sveitarfélagsins, þar er að finna
fjölbreytt úrval veitinga- og gististaða,
sundlaug með vatnsrennibraut, hægt
er að fara í Selasiglingu, heimsækja
Selasetrið, Verslunarminjasafnið
Bardúsu, Kidka ullarverksmiðju og
margt fleira. Gönguleið við allra hæfi
er í Kirkjuhvammi fyrir ofan bæinn og
þar eru skemmtileg náttúruleiktæki fyrir
börn.
Vatnsnes
Frá Hvammstanga er tilvalið að
aka út á Vatnsnes til að njóta þar
einstakrar náttúru. Hægt er að
stoppa á fjölmörgum stöðum, t.d. við
Ánastaðastapa og Hamarsrétt. Seli er
hægt að skoða við Svalbarð, Illugastaði
og Ósa. Einnig er gaman að stoppa
við Hvítserk, klettinn sem stendur í
fjörunni norðan við Ósa, en þjóðsagan
segir að hann sé steinrunnið tröll. Frá
Ósum er tilvalið að aka að stuðlabergs
klettaborginni Borgarvirki en þaðan
er víðsýnt til allra átta og vel hægt að
ímynda sér víkinga í bardaga við virkið.
Víðidalur
Frá Borgarvirki er stutt að aka
inn Víðidalinn og koma við á
Húsadýragarðinum við Stóru Ásgeirsá.
Þaðan er stutt að aka að Kolugljúfrum
þar sem skessan Kola átti að hafa búið.
Gljúfrin eru tignarleg og fossinn sem í
þeim rennur kraftmikill og fallegur.
Miðfjörður
Þeir sem hafa áhuga á sögu ættu
ekki að láta sögustaði í Miðfirðinum
framhjá sér fara. Á Bjargi í Miðfirði
fæddist Grettir Ásmundarson og segir
sagan að höfuð hans sé þar grafið.
Á Laugarbakka hefur verið reistur
víkingavöllur með stóru sverði þar
sem gaman er að stoppa í stutta
stund og leika sér. Á Laugarbakka er
einnig gaman að stoppa í Löngufit,
handverkshúsi og bensínstöð sem á
sér enga líka.
HÚNAÞING VESTRA
Hlaðin náttúrulaug og húsdýragarður
Hrútafjörður
Ef ekið er yfir Hrútafjarðarhálsinn frá
Laugarbakka er fljótlega komið að
Reykjaskóla. Þar hefur verið hlaðin
upp náttúrulaug í flæðarmálinu og
er einstakt að flatmaga þar í heitu
vatninu, horfa út á sjóinn og þeir
hugrökkustu geta kælt sig í sjónum.
Við Reykjaskóla er einnig Byggðasafn
Húnvetninga og Strandamanna þar
sem m.a. er að finna hákarlaskipið
Ófeig og gamla baðstofu, auk margra
áhugaverðra gamalla muna. Vestan
megin í Hrútafirðinum er Borðeyri,
gamall verslunarstaður. Í dag eitt
minnsta þorp landsins. Þar er Riis
hús, glæsilegt verslunarhús sem gert
hefur verið upp af myndarbrag.
Sauðárkrókur
Á Sauðárkróki er skemmtilegt að
fara í fjöruna við Borgarsand og
t.d. safna skeljum, skoða seli og
fuglalífið. Kíkja svo á Jón Ósmann,
minnisvarðann um ferjumanninn á
Furðuströndum. Hægt er að labba
um Litla-Skóg, leika sér á leikvellin-
um og fara svo út að borða á einum
af veitingastöðum bæjarins.
Hofsós
Á Hofsósi er hægt að fara í bátsferð
eða sjóstangveiði, kíkja á rústir í
Grafarósi og skoða stuðlabergið
í fjörunni í kringum Hofsós. Þá er
sundlaugin á Hofsósi einstök.
Varmahlíð
Í Varmahlíð er tilvalið að byrja á því
að fá sér ís í KS Varmahlíð, ganga
svo að leikskólanum og leika sér
á leikvellinum. Halda svo áfram
um gönguleið sem liggur í gegnum
skóginn í áttina að Menningarhúsinu
Miðgarði, leikvellir eru einnig hjá
grunnskólanum. Skella sér í sund-
laugina í Varmahlíð og enda svo
upp á tjaldsvæðinu þar sem börnin
geta leikið sér á svokölluðum
Ærslabelg. Ganga upp á Reykjahól
um kvöldið og njóta útsýnisins,
enda svo daginn með því að grilla á
tjaldsvæðinu um kvöldið.
Ævintýraferð fram í sveit
Hjá Bakkaflöt í Lýtingsstaðahreppi
hinum forna er boðið upp á ýmislegt
fjör, meðal annars flúðasiglingar,
litabolta eða svokallað Wipe Out
(ath. með aldurstakmörk). Eftir fjörið
er gott að slaka á í sundi, annað
hvort á Bakkaflöt, Steinsstöðum,
Varmahlíð eða í Fosslaug og loks
snæða kvöldverð á Hótel Varmahlíð.
Vinsælt er að ganga á Mælifells-
hnjúkinn enda er uppgangan tiltölu-
lega auðveld. Af honum er mjög
víðsýnt en sagt er að í björtu veðri
sjáist af hnjúknum í tíu sýslur. Fara í
sund á eftir í fyrrnefndum laugum og
fá svo heitt kakó og vöfflur í Áskaffi.
Í Aldamótaskógi, rétt hjá Steinsstöð-
um, er fullt af berjum og flottur
staður til að taka með sér nesti.
Svæðið er mjög fallegt með útsýni
yfir Héraðsdalinn.
Hólar
Á Hólum er fjölmargt við að vera
fyrir fjölskyldufólk, hvort sem áhugi
er fyrir útivist, sögu eða íslenska
hestinum. Hægt er að fara í göngu
í Hólaskógi, jafnvel enda í Gvendar-
skál og njóta þaðan útsýnisins yfir
dalinn. Einnig má skoða fornminjar
sem fundist hafa þar í jörðu, líta inn
í dómkirkjuna, sjá stærsta hesthús
landsins eða skoða Sögusetur
íslenska hestsins. Þá er hægt að
enda í sundlauginni og fá sér að
borða í Undir Byrðunni og enda
daginn með því að fá sér einn
kaldann á Bjórsetrinu.
SKAGAFJÖRÐUR
Ævintýraferðir og
hoppað á Ærslabelg