Feykir


Feykir - 07.03.2013, Page 18

Feykir - 07.03.2013, Page 18
18 Feykir 09/2013 Heilir og sælir lesendur góðir. Þar sem góa er nú gengin í garð er við hæfi að rifja fyrst upp kunna vísu henni til heiðurs sem reyndar er víst til í fleiri en einni útgáfu. Ef hún Góa öll er góð að því gái mengi. Þá mun Harpa, hennar jóð herða snjóa – strengi. Það mun hafa verið Ingibjörg Sigfúsdóttir frá Forsæludal í Vatnsdal sem orti svo ein- hverju sinni á fyrsta degi góu í vondri hríð. Lætur flakka fönn um skeið fyllir slakka og móa, heldur blakkan hristir, reið hríðarstakkinn Góa. Á öðrum degi góu skánaði heldur veður og orti þá Ingibjörg þessa. Góa mín, þótt geisir hart geðið nær að hlýna. Þegar sólarbrosið bjart blíðkar ásýnd þína. Í góulokin yrkir Ingibjörg svo laglega hringhendu. Kveður Góa land og lýð lítið þróar gæði. Fast að mó og fjallahlíð fellir snjóaklæði. Kannski við hæfi að rifja þá næst upp þessa sannleiksríku vísu, Hans Natanssonar sem kenndur var við Þóreyjarnúp og hugsaði svo vel til nágranna sinna í Vatnsdalnum. Vatnsdælingar veita óspart vegfarendum beina. Elska heiður hefð og skart og hrundir eðalsteina. Gaman þykir mér að muna næst eftir vísum sem Björn Sigurðsson heimilismaður í Grímstungu mun hafa ort. Kunnari undir nafninu Björn S. Blöndal. Finnst undirrituðum merkilegt að hægt skuli vera að klára vísu með slíkri byrjun. Minnst ég ævi ómenntað vit mín vill gæfan skeika. Dagsins kæfir stríð og strit stirða hæfileika. Heldur fer að liðkast um mál hjá þeim snjalla Birni þegar hann yrkir þessar fallegu og vel gerðu hringhendur. Kær þótt rósin kefjist mjöll kvöldsins hrós ei þrotna. Fremst við ós, og innst við fjöll öldur ljósa brotna. Tvær vísur koma hér í viðbót eftir Björn, báðar hringhentar. Æskan greiða götu sér geisla í heiði drauma. Flestum eyðist eins og mér óvart leiðin, nauma. Vísnaþáttur 589 Lýist mund og þróttur þverþví vill lendin harna. Ég sé undur eftir þér æskustundin farna. Aðalheiður Kristinsdóttir (Bjarnasonar) frá Ási í Vatnsdal þurfti ekki langt að sækja hagmælskuna. Held að rétt sé með farið að næstu vísur séu eftir hana. Mín er hæsta hjartans þrá heims í ölduróti. Að þræða veginn, þoka ei frá þó að næði á móti. Þó að hjartað kuldi og kíf kæli gegnum árin, bölið ei mitt bugar líf brosi ég gegnum tárin. Þrái ég gjarnan glaum og dans gleði er í því falin. Að kveikja leiftur kærleikans og kasta því í valinn. Víst ég rökkrið elska æ yndi margt það geymir. Kossa og armlög flest ég fæ í fylgsnum sitt hvað dreymir. Ef ég sveina að mér vef - er það list að máta- mótleik þann ég hlotið hef að hlægja en ekki gráta. Valdimar Benediktsson sem kenndur var við Syðri-Ey mun hafa ort þessa. Heimskan þræðir beina braut blínir skammt á veginn. En viskan krækir leiti og laut og lítur báðu megin. Önnur vísa kemur hér eftir Valdimar og má segja, að þrátt fyrir að áratugir séu liðnir síðan hún var ort, er hún í fulli gildi í dag. Ef að lifa Ísland má og eiga þroskaskilyrðin, treystum ei né trúum á tvíbýli við stórveldin. Mörgum hafa hin ýmsu vetrarveður orðið að yrkisefni. Þorsteinn Jóhannsson bóndi á Svínafelli í Öræfum yrkir svo. Húmið þokast nær og nær nepjur doka í blænum. Augum lokar lindin fær „loftur“ mokar snænum. Þegar Þorsteinn finnur að vorið fer að nálgast yrkir hann svo fallega, sem verður lokavísa þáttarins í þetta sinn. Hýrnar geð við hörpuklið hörfar kaldur vetur. Sjálfur breðinn viknar við vatni ei haldið getur. Verið þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) Dagný Huld Gunnarsdóttir skrifar frá Sauðárkróki Börn eru snillingar Ég hef frá unga aldri haft mjög gaman af börnum. Byrjaði mjög ung að labba í hús og biðja um að fá börnin á heimilinu lánuð til að fara út að labba. Ég var búin að ákveða þegar ég var 10 ára að ég ætlaði að verða dagmamma. Ég fór því stundum til mömmu vinkonu minnar eftir skóla sem var dagmamma og hjálpaði henni með börnin. Þegar skyldunámi hjá mér lauk var áhuginn fyrir áframhaldandi námi ekki mikill. Ég tók mér því hvíld frá skólanum en útskrifaðist síðan árið 2007 og þá orðin 24 ára. Ég ákvað að sækja um vinnu á leikskóla eftir fæðingarorlof, sem ég var þá í, og byrjaði að vinna á Furukoti í desember 2007. Eftir að ég byrjaði að vinna þar var ég alveg viss um hvað mig langaði að verða þegar ég væri orðin stór og auðvitað var valið Leikskólakennari. Ég hóf fjarnám frá Háskólanum á Akureyri haustið 2008 og vorum við fjórar héðan úr Skagafirði saman. Þetta var mjög skemmtilegur tími og frábært að geta stundað námið í fjarnámi þar sem ég er komin með fjölskyldu og því ekki auðvelt að fara í burtu í nám. Farskólinn er með frábæra aðstöðu fyrir nemendur og notaði ég aðstöðuna mikið þegar ég var að læra og einnig sótti ég tíma í gegnum fjarfundabúnað oftast tvisvar sinnum í viku. Námið gekk mjög vel og kynntist ég frábærum konum sem voru með mér í náminu. Við þurftum nokkrum sinnum að fara til Akureyrar í námslotur og var það hálfgert húsmæðraorlof fyrir okkur. Við vorum alltaf saman nokkrar í íbúð og höfðum gaman. Með náminu var ég alltaf að vinna til korter yfir tvö þannig að nóg var að gera. Í náminu voru tvö verknám og fyrra var fimm vikur og þá fórum við allar saman á Blönduós og keyrðum á milli. En í lengra verknáminu, sem var í tíu vikur, ákvað ég að fara suður og kom bara heim um helgar. Þetta hefði ekki verið hægt nema með aðstoð vina og fjölskyldu. Þessi tími sem ég átti fyrir sunnan var mjög lærdómsríkur fyrir mig og á eftir að nýtast í mínu starfi. Starf leikskólakennarans er mjög skemmtilegt og gefandi. Börn eru náttúrulega snillingar og gefa svo mikið af sér. Mestu máli skiptir þegar kemur að menntun að maður velji hana eftir því hvar áhugasviðið er. Ég verð aldrei ríkur leikskólakennari en mér finnst svo gaman í vinnunni og ég er viss um að ég væri ekkert hamingjusamari þó að ég væri með milljón á mánuði, þó svo mér finnist launin mega vera hærri. Mestu máli skiptir að bera virðingu fyrir menntun og muna að öll menntun er góð. Ég mæli með því að stunda fjarnám og opnar það möguleika fyrir fólk á landsbyggðinni að mennta sig. - - - - Ég vil skora á lögfræðinginn vinkonu mína Elsu Rún Gísladóttir að taka við pennanum af mér. ÁSKORENDAPENNINN UMSJ berglindth@feykir.is Minningarsjóður Aðalheiðar Erlu Gunnarsdóttur frá Syðra-Vallholti Þakkarávarp Stjórn minningarsjóðs Aðalheiðar Erlu Gunnars- dóttur frá Syðra-Vallholti vill þakka öllum þeim sem sóttu styrktartónleikana í Miðgarði sl. fimmtudag fyrir komuna. Jafnframt þakkar stjórn sjóðsins öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til að gera tónleikana eins vel úr garði og raun varð. Þakkir fá nemendur og kennarar Tónlistarskóla Skagafjarðar, eldri nemendur Varmahlíðarskóla og Helga Rós, Thomas Higgerson, Fúsi Ben og Sigurlaug Vordís, Kvennakórinn Sóldís, Stefán Gísli og Unnur. Allir gáfu vinnu sína. Þá er fjölskyldu Aðalheiðar Erlu og Kvenfélagi Seyluhrepps þakkaðar veittar veitingar að loknum tónleikunum. /ÁÓ

x

Feykir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.