Morgunblaðið - 14.02.2018, Side 10
SVIÐSLJÓS
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
kynnti á íbúafundi í síðustu viku þá
hugmynd að endurgera eða endur-
byggja frystihúsið á Kirkjusandi í
upprunalegri mynd.
Íslandsbanki var með starfsemi í
húsinu fram á síðasta ár en neydd-
ist til að flytja aðalstöðvar sínar í
Kópavog vegna myglu í húsinu.
Edda Hermannsdóttir, sam-
skiptastjóri bankans, segir að verið
sé að skoða alla möguleika en það
liggi fyrir að húsið sé mikið
skemmt vegna raka. Víða mun raki
vera kominn djúpt inn í steypuna.
Óvíst er hvort rífa þurfi húsið
vegna skemmdanna en sérfræð-
ingar hafa verið að meta þær. „Við
erum að vinna að þessu máli í góðu
samstarfi við borgaryfirvöld,“ segir
Edda.
Upphafið hjá Júpiter og Mars
Frystihúsið á Kirkjusandi var
reist á árunum 1955-1962 af hluta-
félögunum Júpíter og Mars. Hinn
kunni athafnamaður Tryggvi
Ófeigsson var í forsvari fyrir þessi
félög. Húsið var byggt í áföngum
og var á sínum tíma stærsta frysti-
hús landsins. Samband íslenskra
samvinnufélaga (SÍS) eignaðist svo
húsið árið 1975.
Á síðu um arkitektúr, skipulag og
staðarprýði, sem Hilmar Þór
Björnsson arkitekt heldur úti, kem-
ur fram að árið 1988 var bygging-
unni breytt í skrifstofuhús SÍS og
alls konar skálar umhverfis það
rifnir. Samhliða þeirri endurnýjun
var húsið klætt að utan með loft-
ræstri álklæðningu og skipti það þá
algerlega um einkenni (karakter).
Eftir fall SÍS keypti Íslandsbanki
(1995), sem síðar varð Glitnir og
aftur Íslandsbanki, húsið og hafði
þar aðalstöðvar sínar þar til flýja
þurfti vegna myglu. Breytingar á
húsinu, sem gerðar voru fyrir SÍS,
voru hannaðar af arkitektunum
Ormari Þór Guðmundssyni og Örn-
ólfi Hall.
„Eitt af því sem ég kynnti á íbúa-
fundinum í Laugardal var hugmynd
um að endurgera eða endurbyggja
það í upprunalegri mynd. Bæði held
ég að húsið geti verið mikil prýði í
umhverfi sínu og jafnframt er
eiginlega ennþá mikilvægara að
halda í það og útlit þess í ljósi þess
að á næstu lóðum eru að rísa nýjar
byggingar í takt við okkar tíma,“
segir borgarstjóri í vikulegum
fréttapistli sínum.
Aðstaða fyrir lítil fyrirtæki
Dagur segir að fyrirmyndina að
verkefninu sé ekki langt að sækja,
nefnilega í Marshall-húsið í Örfir-
isey. Hann hafi fengið sömu arki-
tekta og unnu að endursköpun
Marshall-hússins til að gera til-
lögur, Ásmund Sturluson og Stein-
þór Kárason hjá Kurt og Pí arki-
tektum. „Þegar húsnæðið væri
klárt mætti hugsa sér alls kyns
skemmtilega starfsemi þarna, t.d.
aðstöðu fyrir lítil fyrirtæki, eitthvað
tengt LHÍ(Listaháskólinn) sem er á
næstu lóð, skapandi greinum, tækni
og nýsköpun.“
Byggingin á Kirkjusandi er 7.719
fermetrar að stærð. Sambyggð
vörugeymsla, 1.069 fermetrar, var
rifin í fyrra.
Nýtt „Marshall-hús“ á Kirkjusandi?
Borgarstjóri hefur kynnt þá hugmynd að endurgera eða endurbyggja frystihúsið á Kirkjusandi í
upprunalegri mynd Húsið var yfirgefið vegna myglu Marshall-húsið í Örfirisey er fyrirmyndin
Morgunblaðið/Ómar
Íslandsbankahúsið Þannig lítur húsið út í dag, yfirgefið
vegna myglu. Húsinu var breytt í skrifstofuhús árið 1988.
Teikning/Kurt og Pí arkitektar
Frystihúsið Þannig leit húsið út í upphafi. Um tíma var
það stærsta frystihús landsins, rekið af Júpíter og Mars.
10 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. FEBRÚAR 2018
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Heimsmarkaðsverð á minkaskinn-
um virðist byrjað að stíga á ný, eft-
ir mikinn öldudal undanfarin tvö
ár. Verðið er þó enn langt undir
framleiðslukostnaði skinna hér á
landi.
Fyrsta loðskinnauppboð ársins
hjá Kopenhagen Fur þar sem ís-
lenskir minkabændur selja skinn
sín er lokið. Verðið hækkaði í doll-
urum frá því í júní þegar síðast
voru seld sambærileg skinn, nálægt
5% að meðaltali. Þegar verðið er
yfirfært í danskar krónur breytist
hækkun í lækkun því dollarinn hef-
ur lækkað um 10% gagnvart
dönsku krónunni. Ef litið er
framhjá þessum hræringum má sjá
að verðið er svipað í íslenskum
krónum og það var í júní. „Það er
því miður undir framleiðslukostnaði
og staðan því óbreytt,“ segir Einar
Eðvald Einarsson, minkabóndi á
Syðra-Skörðugili í Skagafirði.
„Það er þó jákvætt að skinnin
hækka í dollurum og jákvætt að
allt seldist,“ bætir Einar við.
Vongóðir fyrir árið
Fram kemur á vef Kopenhagen
Fur að töluvert líf var í uppboðs-
húsinu að þessu sinni, 100 fleiri
kaupendur en á fyrsta uppboði síð-
asta árs. Eftir smáhikst í upphafi
var ágæt samkeppni á milli kaup-
enda. Haft er eftir Jesper Lauge
Christensen, framkvæmdastjóra
hjá Kopenhagen Fur, að gott upp-
haf á nýju sölutímabili gefi góð fyr-
irheit fyrir árið.
Framboð á minkaskinnum er að
dragast saman eftir offramboð sem
leiddi til verðlækkunar fyrir tveim-
ur árum. Spáð er 10% minna fram-
boði í ár. Það hefur jákvæð áhrif á
verðið, að mati uppboðshússins.
Einar tekur þó fram að það hafi
reynst stjórnendum iðnaðarins erf-
itt að áætla heimsframleiðsluna og
þróun hennar. Til dæmis séu tölur
um framleiðslu í Kína alltaf nokkuð
á reiki.
Stöðugt þrengir meira að minka-
bændum, bæði hérlendis og erlend-
is. Fimm íslenskir minkabændur
hættu í haust og fleiri eru að hugsa
sinn gang. Einar segir að erfitt
verði fyrir marga að komast í gegn-
um þetta ár ef verðið hækkar ekki.
Verð á minkaskinnum hækkar
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Verðið er enn langt
undir framleiðslu-
kostnaði bænda
Skinnaverkun Skinnin fara á upp-
boð þegar þau eru tilbúin til sölu.
Marshall-húsið í Örfirisey var byggt árið 1948 og var upp-
haflega síldarverksmiðja. Bygging verksmiðjunnar var að
hluta fjármögnuð með Marshall-aðstoð Bandaríkjanna eftir
stríð og er nafn hússins þaðan komið.
Eftir að þeirri starfsemi var hætt stóð húsið að mestu
tómt. Árið 2014 var viðbygging norðvestan þess rifin og haf-
inn undirbúningur að því að gera húsið að menningar- og
viðburðahúsi. Húsið var formlega opnað í mars 2017. Þar er
að finna sýningaraðstöðu Nýlistasafnsins, Kling & Bang og
Ólafs Elíassonar svo og vinnustofur. Veitingastaður er á
jarðhæð. Öflug menningarstarfsemi hefur verið í húsinu allt
frá opnun.
Arkitektarnir Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári
Kárason, eigendur arkitektastofunnar Kurt og Pí, hlutu
Hönnunarverðlaun Íslands fyrir árið 2017 fyrir hönnun Mars-
hall-hússins, sem þeir leiddu í samstarfi við ASK arkitekta.
Marshall-húsið er 1.839 fermetrar að stærð. HB-Grandi er
eigandi hússins en Reykjavíkurborg tók það á leigu til 15 ára
og framleigir til fyrrnefndra aðila.
Vettvangur lista við gömlu höfnina
MARSHALL-HÚSIÐ Í ÖRFIRISEY
Örfirisey Marshall-húsið var opnað á ný á síðasta ári.