Morgunblaðið - 12.04.2018, Side 71
MINNINGAR 71
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 12. APRÍL 2018
Við fráfall Krist-
jáns Torfasonar,
frænda míns,
streyma góðu minn-
ingarnar frá æskuheimili hans í
Reykjavík og í Vestmannaeyjum
fram í hugann. Í tvö skipti var um
nokkuð langa dvöl mína á því
ágæta heimili að ræða, fyrst þeg-
ar Guðrún Torfadóttir, amma
okkar Kristjáns, dvaldi þar með
okkur systkinin, mig og Einar
Odd, frá vori fram á haust árið
1949. María móðir okkar lá þá
veik á Landspítalanum. Til þess
að geta hýst okkur þrjú var Krist-
jáni komið fyrir hjá móðurfólki
sínu á Seglbúðum þannig að kynni
okkar urðu ekki mikil þennan
tíma. Hins vegar hafði Kristján
nokkrum sinnum komið með for-
eldrum sínum vestur til Flateyrar
eins og ótal ljósmyndir af okkur
krökkunum í leik í garðinum við
Litla-býli bera skemmtilegt vitni
um.
Svo liðu árin og þegar að fram-
haldsskólanámi mínu kom buðu
foreldrar Kristjáns, þau Ólöf
Jónsdóttir og Torfi Jóhannsson,
mömmu að hafa mig hjá sér í stað
þess að senda mig í heimavistar-
skóla. Þá var Torfi bæjarfógeti í
Vestmannaeyjum og herbergi
Kristjáns laust þar sem hann færi
um haustið í menntaskóla á Ak-
ureyri. Ég var þannig búandi í
herbergi Kristjáns á ný, nú aðeins
eldri en í fyrra skiptið og aftur
naut ég þeirra forréttinda að
snæða daglega eðalmat við stóra
eikarborðið í borðstofunni, taka
þátt í uppvaski og smávegis heim-
ilisstörfum með húsmæðrakenn-
aranum Ólöfu, velja mér bók í
bókastofunni sem hafði að geyma
hundruð ef ekki þúsundir bóka,
heyra óperutónlist og aðra sígilda
tónlist berast frá stóra plötuspil-
aranum í einni stofunni til mín
upp á loftið þar sem ég reyndi að
kúra yfir námsbókum, fremur illa
undir námskröfur landspróf-
sdeildar búinn.
Hvorugt urðu þau langlíf, hjón-
in Ólöf og Torfi móðurbróðir
minn, en Ólöf naut þess þó að
kynnast tveimur litlum sonar-
dætrum fyrir andlát sitt. Allt það
góða sem ég átti þeim hjónum upp
að unna get ég seint fullþakkað og
nú þegar Kristján einkasonur
þeirra er kvaddur verma kærar
minningar um dvölina á fallega og
Kristján Torfason
✝ Kristján Torfa-son fæddist 4.
nóvember 1939.
Hann lést 30. mars
2018.
Útför Kristjáns
fór fram 11. apríl
2018.
menningarlega
heimilinu þeirra
huga minn.
Við Kristján vor-
um samtíða í
menntaskóla og höf-
um nú á efri árum
aðallega hist í hópi
skólafélaga frá MA
þar sem við höfum
meðal annars skipst
á sögum af börnum
okkar, börnum
þeirra og barnabarnabörnum.
Kristján eignaðist sinn trausta
lífsförunaut, Sigrúnu Sigvalda-
dóttur, börnin þrjú og stóra, sam-
heldna tengdafjölskyldu. Hann
bar gæfu til að eiga það sem kalla
mætti farsæla ævi allt til loka.
Fyrir hönd fjölskyldunnar
votta ég Sigrúnu, Ólöfu Hrefnu,
Guðríði, Torfa og fjölskyldum
þeirra innilega samúð.
Jóhanna G.
Kristjánsdóttir.
Kristján og Sigrún eða Sigrún
og Kristján, þau eru alltaf nefnd
saman. Við fráfall Kristjáns rifj-
ast margt upp þar sem fjölskyldur
Sigrúnar og Addýjar, móður
minnar, eru nánar. Kristján og
Sigrún bjuggu í Vestmannaeyjum
en við í Reykjavík og tíminn var
vel nýttur þegar við hittumst. Í
sumarbústaðnum, á Snorrabraut-
inni, í Safamýrinni og í Sólhlíðinni
í Eyjum. Við frændsystkinin
fimm smellpössuðum einmitt í aft-
ursætið á V1 þegar farið var á
milli húsa. Ég var heppin að fá að
fljóta með til Eyja af og til. Eyj-
arnar voru sérstakur staður á
þessum árum; enn rauk úr hraun-
inu, hálfhrunin hús stóðu upp úr
hraunjaðrinum og mikið var
óunnið í uppbyggingu eftir gos.
Fyrir mig var þetta óvenjulegt
umhverfi en samt svo heimilislegt
því í Sólhlíðinni átti ég mér annað
heimili, aðra foreldra, aðra fjöl-
skyldu.
Heimili Kristjáns og Sigrúnar
hefur alltaf verið fallegt og
smekklegt. Alltaf vel til haft og
hátíðlegt. Handlagni Kristjáns og
verkáhugi var einstakur og hann
nýtti öll tækifæri til að dytta að,
smíða, bólstra, lagfæra og endur-
gera. Hann var alltaf með eitthvað
í gangi, það virtist hans slökun frá
erli vinnudagsins. Eftir hann
liggja mörg handtök í húsnæði
fjölskyldunnar, sumarbústaðnum
og víðar. Kristján var líka óvenju
liðtækur í matargerð, bakstri,
sauma- og prjónaskap og átti Sig-
rún vísan stuðning þar. Tveggja
hæða Barbiehús með rafmagns-
lögn og ljósum er ógleymanlegt
og heimasmíðuð húsgögn fyrir
dúkkurnar, gjarnan þrjú stykki
svo frænkan fengi líka.
Þegar fjölskyldan fluttist frá
Eyjum lá beint við að Ólöf Hrefna
kæmi í bekkinn minn í Álftamýr-
arskóla og yrði hluti af vinahópn-
um. Sú vinátta varir enn í dag og
án efa ævilangt. Þannig hafa líka
Kristján og Sigrún ræktað sín
vinabönd enda eiga þau einstaka
vini í kringum sig frá ýmsum ævi-
skeiðum. Snorrabrautarfjölskyld-
an hefur staðið þétt frá upphafi og
er sterk og samheldin eining þar
sem samvinna, umhyggja og
stuðningur er ríkjandi. Tengda-
synir ömmu og afa urðu allir eig-
inlegur hluti fjölskyldunnar,
ásamt sínum fjölskyldum, og
sterk tengsl og vinátta hafa verið
einkennandi í áratugi. Það eru
forréttindi að alast upp í slíku
samfélagi og þannig voru Kristján
og Sigrún, ásamt fleirum, miklir
áhrifavaldar í mínu lífi.
Börnin mín hafa átt auka
ömmu og afa í Sigrúnu og Krist-
jáni. Allir velkomnir hvenær sem
er. Sambandið styrktist svo enn
þegar mínar dætur fóru að passa
litlu frændur sína. Barnabörn
Kristjáns og Sigrúnar hafa misst
mikið nú þegar afi er horfinn á
braut. Það eru ófáar ferðirnar
sem afi hefur keyrt og sótt unga
fólkið, matarboðin óteljandi og
gistinæturnar hjá ömmu og afa
orðnar margar. Kristján og Sig-
rún ferðuðust óhikað milli landa
til að halda utan um hópinn sinn
og barnabörnin í útlöndum fengu
að njóta líka. Félagsskapurinn og
samveran skapaði sterk tengsl
sem afabörnin búa nú að. Afi
Kristján var stoltur af öllum sín-
um og naut þess að fá að taka þátt
í lífi þeirra og starfi. Þeirra missir
er mikill en minningarnar ljúfar.
Við kveðjum Kristján með virð-
ingu og þökk,
Anna Guðbjörg
og fjölskylda.
Kveðja frá Óbyggðanefnd
Þegar Kristján Torfason er
kvaddur og horft til lífshlaups
hans verður ekki hjá því komist að
staðnæmst verði við óbyggða-
nefnd sem tók til starfa á árinu
1998. Kristján var skipaður fyrsti
formaður og framkvæmdastjóri
nefndarinnar og gegndi for-
mennsku fram til ársins 2012.
Hlutverk óbyggðanefndar er
að kanna og skera úr um hvaða
land telst til þjóðlendna og hver
séu mörk þeirra og eignarlanda.
Fyrstu úrskurðir nefndarinnar
voru kveðnir upp 21. mars 2002 en
nefndin hefur nú lokið meðferð
sem næst 4/5 hluta landsins alls,
þar af því sem næst alls svokallaðs
miðhálendis. Má segja að með
starfi nefndarinnar fáist loksins
lyktir á það aldagamla deiluefni
hvernig háttað er eignarrétti á
landinu okkar, hvað sé einstak-
linga og sveitarfélaga og hvað sé
ríkisins í umboði þjóðarinnar í
formi þjóðlenda.
Við sem störfuðum með Krist-
jáni á þessum vettvangi um lengri
eða skemmri tíma eigum um hann
góðar minningar, ekki síst úr fjöl-
mörgum vettvangsferðum um
landið þar sem það var kannað og
heimamenn og aðrir miðluðu okk-
ur margs konar fróðleik. Eru það
forréttindi að hafa fengið að kynn-
ast landi og þjóð á þann hátt.
Kristján var góður ferðafélagi og
þægilegur í allri umgengni, vel-
viljaður og vildi umfram allt leysa
þau mál sem upp komu.
Að leiðarlokum kveðjum við
góðan mann og vottum fjölskyldu
Kristján okkar dýpstu samúð.
Allan Vagn Magnússon, Karl
Axelsson, Ása Ólafsdóttir,
Hulda Árnadóttir
og Þorsteinn Magnússon.
Í minningu ágæts vinar.
Ungur maður flytur í bæ til að
sinna ábyrgðarstarfi fyrir banka.
Hann hafði aðeins eitt veganesti
til starfsins utan menntunar og
lítillar reynslu; veganestið var frá
einum bankastjóranum: „Mundu
að karlarnir í Eyjum eru miklir
menn þar. Vertu kurteis við þá!“
Suma karlana þekkti ég nokkuð.
Við kynningu voru karlarnir í
Eyjum og konurnar líka ljúft og
gott fólk.
Við fyrsta fund okkar Kristjáns
Torfasonar gekk hann til mín, tók
í hönd mína og sagðist vera
bæjarfógeti. Bauð hann mig vel-
kominn til starfa og sagðist skyldi
aðstoða mig. Handtak Kristjáns
var upphaf að ævilangri vináttu
okkar og fjölskyldna okkar.
Í Vestmannaeyjum þurfa allir
að starfa saman að því sameigin-
lega markmiði að bæta líf þeirra
sem þar búa. Þar kom strax í ljós
að við Kristján áttum sameigin-
legt viðhorf.
Í stjórnmálaskoðunum var
Kristján íhaldssamur, reglufastur
og fyrirmynd annarra embættis-
manna. Hann vel að sér í lögfræði
og leituðu menn iðulega til hans
um ráð um álitaefni. Mér þótt
strax eftir einn úrskurð hans
betra að leita ráða hjá honum en
að láta hann úrskurða.
Þau hjón Kristján og Sigrún
buðu fjölskyldu minni til jólafagn-
aðar á heimili sínu. Svo hittust
fjölskyldurnar aftur nokkrum
dögum síðar á gamlárskvöldi á
heimili okkar. Stundum voru fleiri
gestir með úr fjölskyldunum. Mér
er sérstaklega minnisstæð móð-
ursystir Kristjáns, fröken Guðríð-
ur Jónsdóttir yfirhjúkrunarkona
á Kleppi. Hlý nærvera hennar í
hennar fáu orðum er mér dýr-
mæt.
Eftir að við fluttum í bæinn
snerust hlutir við og við heimsótt-
um Kristján og Sigrúnu upp úr
miðnætti á gamlárskvöldi.
Kristján átti yfir 40 ára
embættisferil. Hann úrskurðaði
og dæmdi í mörgum málum sem
bæjarfógeti, dómstjóri og formað-
ur Óbyggðanefndar. Þannig
dæmdi hann í fyrsta landhelgis-
máli eftir útfærslu landhelgi í 50
mílur. Verjandi skipstjórans á
togaranum Arcturus taldi að út-
færsla landhelginnar stæðist ekki
alþjóðalög. Kristján taldi að út-
færslan hefði verið gerð með rétt-
um stjórnskipulegum hætti og
dæmdi skipstjórann til refsingar
fyrir landhelgisbrot.
Í óbyggðamálum voru fá for-
dæmi. Þannig þurfti að úrskurða
þegar jörð „átti land að jökli“.
Kristján kallaði það, að jörð ætti
land að jökli þegar jöklar hopuðu,
„gúmíkenningu“. Rökstuðningur í
óbyggðamálum hefur haldið vel í
æðri dómstigum. Annað framlag
til lögfræði er þýðing hans á golf-
reglum með öðrum.
Ég er forsjóninni þakklátur
fyrir að hafa kynnst mínum góða
vini Kristjáni. Viðhorf hans og
æðruleysi við erfiðleikum voru
einstök.
Um Kristján má segja eins og
sagt var um gamlan embættis-
mann; „Þar er í valinn hniginn
sannur aðalsmaður í orðsins göf-
ugasta skilningi. „Grand seig-
neur“ upp á gamla vísu. Heiðurs-
maður af heiðurskyni. Maður,
sem ekki mátti vamm sitt vita.“
Kristján og Sigrún bættu hvort
annað upp. Saman gáfu þau börn-
um sín gott veganesti í heiman-
mund. Söknuður fjölskyldunnar
er mestur.
Með Kristjáni er genginn
ágætur maður. Að leiðarlokum
þakka ég allt hans vinarþel. Verði
hann Guði falinn.
Megi minningin um Kristján
Torfason heiðrast í vitund þinni.
Vilhjálmur Bjarnason.
Við bekkjarsystkinin og ævi-
langir vinir, sem áttum saman
ógleymanleg unglingsár í
Menntaskólanum á Akureyri,
kveðjum nú enn einn félaga okk-
ar, Kristján Torfason fyrrverandi
bæjarfógeta. Söknuður fyllir huga
gömlu félaga hans og vina.
Á haustdögum 1955 var MA
settur um miðjan október. Á Suð-
urlandi var enn haustblíða og
alautt, en daginn sem við sunn-
anfólkið komum norður með
DC-3-flugvél Flugfélagsins, var
þar vetrarríki og ökklasnjór. Við
vorum þrír sunnanmenn saman í
flugvélinni. Í sætunum handan við
ganginn við hliðina á mér voru
tveir ungir menn og við tókum tal
saman. Í ljós kom, að þarna voru
tveir Vestmannaeyingar, sem
hugðust hefja nám við MA eins og
við. Þetta voru þeir Kristján
Torfason sem hér er kvaddur og
Ólafur M. Kristinsson, síðar hafn-
arstjóri í Vestmannaeyjum.
Þarna tókst strax vinskapur
með okkur þremur og við lentum
svo þennan fyrsta vetur saman í
strákabekk, 3. bekk B. Úr þessari
bekkjardeild kom svo harður
kjarni námsmanna sem fór næsta
vetur í stærðfræðideildina sem
setti og setur enn svip sinn á ár-
ganginn. Í árganginum voru mikl-
ir dugnaðarmenn og sterkir kar-
akterar sem allir bjuggu saman í
heimavistinni og þar mótaðist hin
sterka samkennd og samheldni,
sem haldist hefur alla tíð síðan í
MA-hópnum okkar.
Hópurinn okkar lauk stúdents-
prófinu og útskrifaðist á stórhríð-
ardaginn mikla, 17. júní 1959. Eft-
ir útskriftina og myndatökuna í
gamla íþróttahúsi skólans, skild-
ust leiðir um sinn, en vináttan til
skólans okkar og gömlu skóla-
félaganna þar, lifði í hjarta okkar.
Vinaböndin voru tengd áfram og
eru enn náin og sterk.
Við vorum samtals 67 í árgang-
inum og þar af voru 27 í stærð-
fræðideildinni sem kennarar okk-
ar minntust lengi. Alls eru látnir
núna úr árganginum 21, þar af eru
10 úr stærðfræðideildinni góðu.
Báðir þessir vinir mínir frá fyrsta
degi til hins síðasta, Kristján og
Ólafur, létust núna með skömmu
millibili, Ólafur hinn 4. janúar sl.
Þeirra er beggja sárt saknað af
gömlu vinunum og bekkjarfélög-
um.
Kristján Torfason var af vest-
firskum og breiðfirskum ættum í
föðurætt, en af skaftfellskum ætt-
um í móðurætt. Hann var náms-
maður góður, vinfastur og dreng-
ur góður, hæglátur, glaðsinna og
tillitssamur við þá sem hann um-
gekkst.
Hópurinn okkar hefur í nær 60
ár haldið vel saman. Fyrir utan
m.a. árlegt vorferðalag með mök-
um okkar, þá hittast þeir úr hópn-
um sem aðstæður og áhuga hafa,
á „kaffifundi“ í hverri einustu viku
allan veturinn. Þannig hefur þetta
verið í áratugi. Kristján lét sig
sjaldan vanta á þessa kaffifundi.
Síðasta haust var greinilega
farið að draga af honum. Hann
kvartaði ekki eða kveinkaði sér,
en svo fór að veikindi hans ágerð-
ust og hann gat ekki lengur mætt
í hópinn sinn. Við fylgdumst döp-
ur með hrakandi heilsu hans og
svo fór, að hann varð að lúta í
lægra haldi fyrir ofureflinu. Við
gömlu félagarnir vottum Sigrúnu
ekkju hans og fjölskyldunni inni-
lega samúð okkar, þökkum Krist-
jáni Torfasyni samveruna, löng og
góð kynni og geymum hlýjar
minningar um góðan vin. Guð
blessi minningu hans.
Skúli Jón Sigurðarson.
Fyrstu dagana
eftir að ég flutti í
Barmahlíð 6 hér í
Reykjavík vorið
1998 með syni mín-
um tókust með mér
og þeim ágætu hjónum, Ragnari
Ólafssyni og frú Theodóru Guð-
mundsdóttur, ágæt kynni, sem
stóðu án þess að skugga bæri á
alla tíð síðan. Búseta okkar í sama
húsi stóð í á átjánda ár. Á þessum
fyrstu sambýlisárum okkar réð-
umst við í töluverðar fram-
kvæmdir á húsinu og lóð þess
ásamt þeim eigendum sem áttu
þá litla íbúð í kjallara hússins.
Vinna við þessar framkvæmdir og
aðrar smærri var öll unnin í sátt
og samlyndi íbúanna sem er mik-
ils virði í slíku sambýli. Ragnar
var alltaf mjög hvetjandi til allra
Ragnar Ólafsson
✝ Ragnar Ólafs-son fæddist 2.
júní 1927. Hann lést
26. mars 2018. Út-
för Ragnars fór
fram 10. apríl 2018.
framkvæmda,
stórra sem smárra.
Ragnar var sögu-
fróður og ættfræð-
ingur ágætur að ég
best veit og áttum
við mjög oft spjall
saman um þessi efni
og önnur; ekki síst
inni á heimili þeirra
Theodóru en þangað
buðu þau mér ótal
sinnum og ævinlega
í góðgerðir og var þá margt skraf-
að. Ekki létu þau nægja að hóa í
mig í venjuleg kaffiboð þar sem
við sátum þrjú saman heldur
sýndu þau mér þann vináttuvott
að bjóða mér oft í veislur við tíma-
mót í lífi sínu og jafnvel ættingja
þeirra. Ekki minnist ég þess að
hafa nokkurn tímann heyrt þau
leggja illt orð til nokkurs manns.
Ragnar, sem hafði ágæta frá-
sagnar- og kímnigáfu, hafði þann
sið í samræðum um menn og mál-
efni að væri hann að segja frá ein-
hverju sem honum þótti hafa mið-
ur farið brá hann fyrir sig
góðlátlegri kímni þannig að bæði
hann og þeir sem á hlýddu gátu
hent gaman að. Einu sinni á ári, á
ákveðnu kvöldi, settumst við sam-
an til spjalls og fengum okkur
gjarnan ofurlítinn snafs. Þær
samræður stóðu stundum eilítið
fram á nótt. Þá var nú gaman. Á
langri ævi hafði hann kynnst
mörgu og mörgum í íslensku
þjóðlífi og var glöggur á margt.
Hann naut þar vafalaust t.d.
langrar starfsævi á Skattstofu
Reykjavíkur og mikils áhuga á
þjóðmálum almennt. Hann bað
mig fyrir nokkrum árum að lesa
yfir handrit fyrir sig. Þar reynd-
ust vera drög að ágætri ævisögu
hans, stórfróðleg um margt, t.d.
hafði hann tekið virkan þátt í
stjórnmálastarfsemi um og upp
úr miðri síðustu öld og í því sam-
bandi ferðast víða um landið og
kynnst þar alþýðu manna ásamt
mörgum forystumönnum í stjórn-
málum landsins á þeim tímum.
Með þessum fáu orðum vil ég
þakka þeim hjónum, Ragnari og
frú Theodóru, sérstök og góð
kynni og votta börnum þeirra og
öðrum aðstandendum samúð
mína.
Atli Rafn Kristinsson.
Ragnar Ólafsson er látinn eftir
erfið veikindi 90 ára að aldri. Okk-
ur langar að kveðja hann með
nokkrum orðum. Hann kom inn í
fjölskyldu okkar þegar Thea,
systir og frænka okkar, kynntist
honum og þau trúlofuðu sig og
giftust stuttu seinna.
Ragnar var einn af þessum
ekta sveitamönnum sem drifu sig
í nám en héldu áfram að vera
sveitamenn á einhvern sérstakan
en skemmtilegan hátt sem fyrir-
finnst varla nú orðið. Bræður
hans tóku við búi foreldranna í
Kvíum í Þverárhlíð svo að það lá
beint við að fara í skólann í Reyk-
holti, en síðan lá leiðin í Sam-
vinnuskólann sem hann lauk
1947.
Faðir Ragnars var Ólafur Egg-
ertsson frá Kvíum, bóndi jafn-
framt því að vera smiður. Þar var
Ragnar fæddur og alinn upp en
sveitin Þverárhlíð og Borgar-
fjörðurinn í heild voru honum afar
kær alla tíð. Móðir hans var Sig-
ríður Jónsdóttir, frá þeim sögu-
lega bæ, að okkur finnst nú, Litlu-
Brekku sem var síðasti torfbær-
inn í Reykjavík byggður 1918.
Ragnari þótti vænt um þennan
bæ og átti fallegt málverk af hon-
um. Litla-Brekka stóð á Gríms-
staðaholtinu á horninu á Suður-
götu og Eggertsgötu þar sem nú
er bílastæði við stúdentagarðana.
Þar var búið til 1980 en þá var
bærinn rifinn.
Ragnar starfaði sem verslun-
armaður hjá Kaupfélagi Borgfirð-
inga í Borgarnesi 1947-48 en hóf
störf hjá Skattstofunni í Reykja-
vík í ársbyrjun 1949 þá 22 ára og
starfaði þar síðan allan sinn
starfsaldur. Ragnar varð fulltrúi
1953 og deildarstjóri atvinnu-
rekstrardeildar 1958. Hann var
settur skattstjóri á Ísafirði sum-
arið 1955 en síðan skipaður vara-
skattstjóri í Reykjavík í ársbyrj-
un 1959 til sex ára. Ragnar sat svo
í framtalsnefnd Reykjavíkur frá
1967 og var formaður þeirrar
nefndar frá 1979-83.
Ragnar var bókamaður mikill,
safnaði ævisöguritum og naut
þess að leita og grúska í fornbóka-
búðum og á bókamörkuðum en
bókasafn hans er ótrúlega um-
fangsmikið. Eitt af hans aðal-
áhugamálum var œttfrœði og um
langt skeið var hann virkur félagi
í Ættfrœðifélaginu og vann tals-
vert að ættfræðirannsóknum og
gerði m.a nokkrar ættarskrár.
Gæfa Ragnars var að eignast
Theódóru Guðmundsdóttur fyrir
konu en hún átti fyrir yndislegan
son, Gísla sem hann ættleiddi.
Þau bjuggu sér fallegt heimili og
við bættust tvö engu síður ynd-
isleg börn, Sigga og Svenni. Allt
til æviloka Ragnars hefur heimili
þeirra verið nokkurs konar mið-
stöð fölskyldunnar. Þar voru allir
alltaf jafn velkomnir, börnin
þeirra þrjú, barnabörnin 11 og öll
stórfjölskyldan í heild sinni. Alltaf
voru móttökurnar jafn glæsilegar
sem náttúrlega var að mestu
hinni myndalegu húsmóður að
þakka. En þau voru mjög sam-
taka, því Ragnar hafði líka ein-
staklega gaman af að taka á móti
gestum, veita konfekt, vín og ann-
að góðgæti og alltaf var jafn nota-
legt og gaman að koma til þeirra
og spjalla og ræða landsins gagn
og nauðsynjar.
Við þökkum Ragnari sam-
fylgdina og allar samverustund-
irnar, hina miklu greiðvikni og all-
an rausnarskapinn í okkar garð.
Theu, Gísla, Siggu og Svenna
og allri fjölskyldunni sendum við
okkar innilegustu samúðarkveðj-
ur.
Katrín og Inga Sigríður.