Morgunblaðið - 28.04.2018, Blaðsíða 30
30 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. APRÍL 2018
Ég les aldrei Morg-unblaðið,“ hafa sumirsagt. Svo kemur í ljós aðþeir hafa rýnt í þetta
blað, skrifað í það minning-
argreinar o.s.frv. Íslensk þversögn:
Við lúslesum og afneitum. En hvað
sem því líður eru minningargrein-
arnar fjársjóður. Maður kynnist
ekki aðeins þeim sem kvaddur er,
heldur einnig þeim sem kveðjuna
skrifar. Ég skal játa að ég fer alla
morgna yfir allar minningargreinar
í „blaði allra landsmanna“.
Nýlega las ég fallega grein um mann sem hafði kynnst konu úr
Skagafirði; stjúpdóttir þessa manns skrifaði greinina. Þar stendur m.a.:
„Hann var eins og klipptur inn í fjölskylduna, öllum líkaði vel við hann
nema kannski afa til að byrja með. Því gamli bóndinn í Skagafirðinum
skildi ekki enskusletturnar sem komu af Keflavíkurflugvelli, Robbi
lagði þær svo af og þeir töluðu saman á íslensku eftir það og urðu miklir
mátar.“ – Ekki er að spyrja að skagfirsku bændunum. Þeir og þeirra
líkar munu bjarga íslenskunni.
Einn og einn málfræðingur fer á yfirsnúning og lætur dæluna ganga
ef kennari gefur sér tíma til að ræða um orðarununa „ég hlakka til“ and-
spænis „mig hlakkar til“ og „mér hlakkar til“. Málfræðingurinn gleymir
að hér gefst tilvalið tækifæri til að spjalla um leyndardóma tungumáls-
ins, t.d. þá tilhneigingu umræddrar sagnar til að „svíkja lit“ og gerast
ópersónuleg. [Ópersónu-
legar sagnir standa alltaf í 3.
persónu eintölu og laga sig
því ekki að þeirri persónu
sem þær fylgja, sbr. „mér
hlakkar/okkur hlakkar“; en
persónulegar sagnir laga sig
að persónunni sem þær
fylgja, sbr. „ég hlakka/við hlökkum“.]
En nú hefst kennsla í hljóðfræði með bragfræðilegu ívafi. Kennari
segir: „Bóndi í Rangárþingi heyrir þessa vísu eftir Vestur-Íslendinginn
KN (Káinn), sem ólst upp í Eyjafirði:
Kæra foldin, kennd við snjó,
hvað eg feginn yrði
mætti holdið hvíla í ró
heima í Eyjafirði.
[Takið eftir innríminu!] Hvað haldið, krakkar mínir, þið að þessum
sunnlenska bónda muni finnast um stuðlasetninguna?“
Umræðan fer á flug og niðurstaðan er þessi: Sunnlenska bóndanum
líkar ekki ljóðstafasetningin í fyrri vísuhelmingi; það truflar brageyra
hans að hv- skuli stuðla við k-. Aftur á móti er hann ánægður með ljóð-
stafasetninguna í seinni partinum því að þar stuðlar hv- við h- eins og
hefðin segir til um.
Það má svo taka fram að Káinn varð ekki að ósk sinni: Hann var graf-
inn vestra. En um framburð hans er þetta að segja: Eyfirðingurinn Ká-
inn hefur, andstætt sunnlenska bóndanum, borið hv- fram sem kv- og
því freistast til að láta hv- stuðla við k- í fyrri vísuhelmingi en haldið sig
við hefðina í seinni partinum.
Óvænt spurning kennara: Hver er gerandinn í þessari setningu (þrír
möguleikar):
Myndin var tekin af Þórði ljósmyndara. [Ekki kíkja á svarið strax!]
[Svar við spurningu um geranda: a) Þórður; b) einhver sem hrifsaði
mynd af Þórði; c) einhver sem smellti mynd af Þórði.]
Skagfirski bóndinn
Tungutak
Baldur Hafstað
bhafstad@hi.is
Áþriðjudaginn kemur, 1. maí, mun verkalýðs-hreyfingin á Íslandi og um heim allan halda há-tíðisdag verkalýðsins hátíðlegan. Þessi dagurhefur á sér allt annað yfirbragð nú en fyrir
hálfri öld, þegar segja má að baráttan í kalda stríðinu hafi
sett sitt mark á þennan dag áratugum saman. Þar fengu
andstæðingar aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu
og varnarsamstarfs við Bandaríkin kjörinn vettvang til
þess að tala til þjóðarinnar. En þó var það svo, að á þeim
tíma voru sjálfstæðismenn svo umsvifamiklir í starfi innan
verkalýðshreyfingarinnar að þeir lögðu mikla áherzlu á að
vinstri menn gætu ekki einir helgað sér þennan dag. Þessa
áherzlu mátti m.a. sjá á því hvað Morgunblaðið lagði mikla
vinnu í að gefa út myndarleg 1. maí blöð ár hvert svo og að
segja ítarlega í fréttum næstu daga á eftir frá hátíðahöld-
unum um land allt.
Nú eru bráðum liðnir þrír áratugir frá lokum kalda
stríðsins svo að allt er þetta liðin tíð þegar kemur að 1.
maí.
Samt er það svo, að þessi dagur get-
ur að þessu sinni orðið tíðindameiri en
hann hefur lengi verið. Ástæðan er sú,
að í fyrsta sinn í langan tíma eru ný
viðhorf að ryðja sér til rúms í verka-
lýðshreyfingunni og áleitin spurning,
hvort tími hinna háskólamenntuðu for-
ystumanna ASÍ sé liðinn, en það voru
töluverð tímamót í sögu þessarar hreyfingar, þegar þeir
tóku við af verkalýðsforingjum sem höfðu unnið sig upp til
forystu í verkalýðsfélögum með hörðum höndum á hafn-
arbakkanum.
Getur verið að verkalýðshreyfingin hafi í höndum há-
skólamenntaðra leiðtoga orðið hluti af „hinum ráðandi öfl-
um“ á Íslandi? Orðið samdauna „kerfinu“? Eða eins og
einn vinur minn hafði orð á um síðustu helgi, að verkalýðs-
hreyfingin væri orðin afl í fjármálakerfi þjóðarinnar í
gegnum lífeyrissjóðina og tæki óhóflega mikið tillit til
þeirra hagsmuna.
En hvort sem eitthvað er hæft í því eða ekki er það stað-
reynd að nú er orðinn til hópur verkalýðsforingja sem
koma úr allt annarri átt og láta til sín taka í vaxandi mæli.
Þar er átt við Vilhjálm Birgisson á Akranesi, Aðalstein
Baldursson á Húsavík, Ragnar Þór Ingólfsson, formann
VR, og nú Sólveigu Önnu Jónsdóttur, hinn nýja formann
Eflingar.
Í sjónvarpsröð um líf og örlög sænskrar fjölskyldu við
lok heimsstyrjaldarinnar síðari, sem RÚV hefur nýlokið
sýningum á, brá fyrir stuttu myndskeiði sem sýndi Sól-
veigu Önnu þeirra tíma í Svíþjóð skora karlaveldið á hólm
í sænsku verkalýðshreyfingunni og fara með sigur af
hólmi. Svona breytingar verða stundum skyndilega og
hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
Það má sjá úr fjarlægð að „ráðandi öflum“ í verkalýðs-
hreyfingunni hér er ekki rótt, þeir vita ekki hvernig þeir
eiga að bregðast við og eru þess vegna tvístígandi. Þessi
óróleiki snýr ekki bara að kjörnum foringjum í verkalýðs-
hreyfingunni. Starfsmönnum verkalýðsfélaga og samtaka
þeirra stendur heldur ekki á sama. Þeir vita ekki hvað bíð-
ur þeirra ef byltingin breiðist út.
Það verður spennandi að sjá, hvort hinir hefðbundnu
verkalýðsleiðtogar sjá ástæðu til þess að ræða þessa stöðu
í ávörpum sínum 1. maí, eða hvort þeir taka þann kost,
sem nú verður sífellt vinsælli meðal stjórnmálamanna, að
reyna að þegja af sér svona breytingar og undiröldur.
Þó verður að segja það hinum rótföstu verkalýðs-
leiðtogum til varnar að þeir hafa ekki einir átt þátt í að búa
til þann jarðveg byltingar, sem er að verða til í verkalýðs-
félögunum. Þar hafa stjórnendur lands og þjóðar í öllum
flokkum utan Pírata lagt sitt af mörkum.
Sá vaxandi órói sem hefur verið að búa um sig um skeið
á vinnumarkaðnum vegna kjaramála
launþega á rætur í ákvörðunum Kjar-
aráðs sumarið og haustið 2016 um launa-
hækkanir til handa æðstu embættis-
mönnum, þingmönnum og ráðherrum.
Almenningi í landinu ofbauð sú „sjálf-
taka“.
En hann á líka rætur í launaþróun
meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins svo og rík-
isfyrirtækja, sem Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjár-
málaráðherra, gerði ítarlega grein fyrir á fundi Samtaka
sparifjáreigenda sl. þriðjudag.
Þetta tvennt veldur því að öll launamál á Íslandi munu
að óbreyttu komast í uppnám á næstu misserum, með
ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Ástæðan fyrir því að þessi launaþróun meðal stjórnenda
stærstu fyrirtækja hefur áhrif innan verkalýðshreyfing-
arinnar er einfaldlega sú, að öllum er ljóst að verkalýðs-
félögin hefðu getað komið í veg fyrir að sú þróun færi af
stað aftur eftir hrun vegna þess að flest þessara fyrirtækja
eru nú að meirihluta til í eigu lífeyrissjóða.
Hvernig stendur á því að fulltrúar í stjórnum þessara
fyrirtækja, sem sækja umboð sitt með óbeinum hætti til
verkalýðsfélaganna, hafa tekið þátt í þessum leik?
Getur það verið að verkalýðsleiðtogunum þyki svo mik-
ið til þess koma að vera orðnir „afl“ í fjármálakerfi þjóð-
arinnar vegna áhrifa þeirra innan lífeyrissjóðanna að þeir
hafi sofnað á verðinum?
Þótt líklegt sé að flestir hinna hefðbundnu verkalýðs-
leiðtoga muni leiða hjá sér að ræða svona „viðkvæm“ mál
1. maí má þó búast við að einhverjir geri það og ekki
ósennilegt að framhald verði á.
Auðvitað eiga verkalýðsfélögin að grípa tækifærið, setja
öll þessi mál á dagskrá félagsfunda í vor, sumar og haust,
láta þúsund blóm blómstra (þó ekki að hætti Maós for-
manns!) og opna röddum launþeganna í landinu farveg inn
í samfélagsumræðurnar.
Það er kallað lýðræði.
Munu raddir launþega
heyrast 1. maí?
Er hin hefðbundna
verkalýðsforysta orðin
samdauna „kerfinu“?
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Á fundi Stofnunar stjórnsýslu-fræða og stjórnmála fimmtu-
daginn 26. apríl síðastliðinn flutti
ég erindi um nýútkomið rit mitt,
Totalitarianism in Europe: Three
Case Studies, Alræði í Evrópu:
Þrjár rannsóknir. Ein rannsóknin
var á stjórnmálaafskiptum stal-
ínistans Halldórs K. Laxness,
beittasta penna alræðisstefnunnar
á Íslandi. Ég sagði ýmsar sögur af
Laxness, sem eru ekki á allra vit-
orði, til dæmis um tilraunir hans til
að fá bækur sínar útgefnar á Ítalíu
fasista og í Þýskalandi nasista, og
brá hann sér þá í ýmissa kvikinda
líki. Vitnaði ég í Pétur Pétursson
útvarpsþul, sem sagði mér eitt
sinn, að heiðurspeningur um Lax-
ness hlyti að hafa tvær hliðar, þar
sem önnur sýndi snilling, hin
skálk.
Eftir erindið kvaddi Tómas Ingi
Olrich, fyrrverandi menntamála-
ráðherra, sér hljóðs og kvað Lax-
ness hafa verið margbrotinn mann.
Í Gerplu lýsti hann til dæmis fóst-
bræðrum, Þormóði og Þorgeiri.
Annar væri kvensamur, skáld-
hneigður veraldarmaður, hinn bar-
áttujaxl og eintrjáningur, sem sást
ekki fyrir. Tómas Ingi varpaði
fram þeirri skemmtilegu tilgátu, að
í raun og veru væri báðir menn-
irnir saman komnir í Laxness.
Hann væri að lýsa eigin tvíeðli.
Ég benti þá á, að svipað mætti
segja um Heimsljós, þegar Ljós-
víkingurinn og Örn Úlfar eiga
frægt samtal. Ljósvíkingurinn er
skilyrðislaus dýrkandi fegurð-
arinnar, en Erni Úlfari svellur
móður vegna ranglætis heimsins,
sem birtist ljóslifandi á Svið-
insvíkureigninni. Mér finnst aug-
ljóst, að Laxness er með þessu
samtali að lýsa eigin sálarstriði.
Annars vegar togaði heimurinn í
hann með skarkala sínum og
brýnum verkefnum, hins vegar
þráði hann fegurðina, hreina,
djúpa, eilífa, handan við heiminn.
Tómas Ingi kvað reynsluna
sýna, að skáldin væru ekki alltaf
ratvísustu leiðsögumennirnir á
veraldarslóðum, og tók ég undir
það. Laxness var stalínisti og
Hamsun nasisti, en skáldverk
þeirra standa það af sér. Lista-
verkið er óháð eðli og innræti
listamannsins. Raunar tók ég ann-
að dæmi: Leni Riefenstahl var
viðurkenndur snillingur í kvik-
myndagerð. En vegna daðurs
hennar við nasisma fyrir stríð
fékk hún lítið að gera í þeirri
grein eftir stríð. Það var mikill
missir.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Skrafað um Laxness
/////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////////