Morgunblaðið - 09.08.2018, Side 34
FRÉTTIR 35Erlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. ÁGÚST 2018
Þorgrímur Kári Snævarr
thorgrimur@mbl.is
Um 130 manns hafa látið lífið vegna
jarðskjálftans sem skók indónes-
ísku eyjuna Lombok um helgina.
Frétt AFP af ástandinu greinir frá
því að um 156.000 manns hafi misst
heimili sín í skjálftanum og að sums
staðar á eyjunni séu heil þorp í rúst.
„Í sumum þorpunum sem við
komum til var eyðileggingin næst-
um alger, öll húsin hrunin, vegirnir
sprungnir og brýrnar brotnar,“
sagði Arifin Muhammad Hadi, tals-
maður rauða krossins á Indónesíu.
Fjölmargir heimilislausir
þorpsbúar hírast nú í tjaldbúðum
meðfram vegum og hrísgrjónaökr-
um eyjunnar og er matur af skorn-
um skammti í mörgum þeirra.
Auk hinna látnu særðust um
1.477 manns alvarlega í skjálft-
anum og tugþúsundir heimila urðu
fyrir alvarlegu hnjaski. Yfirvöld
telja líklegt að fleiri eigi eftir að
finnast látnir þar sem enn er verið
að leita að fólki í rústum húsanna
sem eyðilögðust.
„Líkin eru farin að dauna og við
höldum að sumt fólkið sem var
grafið sé enn lifandi,“ sagði Sutopo
Purwo Nugroho, talsmaður ham-
farahjálparinnar í samtali við AFP.
„Þess vegna er þetta mjög mikil-
vægur tími.“
Rauði krossinn í Indónesíu hefur
sett upp tíu farandheilsugæslu-
stöðvar á norðurhluta eyjunnar.
Hjálparstarfið annar þó varla eft-
irspurn og í sumum búðunum hafa
birgðir látið bíða eftir sér.
AFP
Skjálfti Eyjarskeggjar leita eigna sinna í rústum heimila sinna á Lombok.
„Eyðileggingin
næstum alger“
Eyjan Lombok í rúst vegna skjálfta
Þorgrímur Kári Snævarr
thorgrimur@mbl.is
Öldungadeild argentínska þingsins
kom saman í gær til að ræða frum-
varp um lögleiðingu fóstureyðinga í
landinu. Samkvæmt núverandi lög-
um Argentínu leyfast fóstureyðing-
ar aðeins í þremur tilvikum: Ef
móðurinni var nauðgað, ef með-
gangan stofnar lífi hennar í hættu
og ef fóstrið er bæklað. Þessi lög
eru í takt við flest önnur ríki róm-
önsku Ameríku. Fóstureyðingar
eru aðeins löglegar með öllu í Úrú-
gvæ og á Kúbu og aðeins bannaðar
með öllu í El Salvador, Hondúras
og Níkaragva. Lögleiðing þeirra í
Argentínu gæti haft mikil áhrif á
viðhorf til fóstureyðinga í heimsálf-
unni.
Páfinn á móti lögunum
Nýju lögin, sem leyfa frjálsar
fóstureyðingar fram á fjórtándu
viku meðgöngunnar, voru naum-
lega samþykkt á neðri deild arg-
entínska þingsins í júní. Ekki þykir
þó líklegt að öldungadeildin veiti
þeim samþykki sitt þar sem 37 af
72 meðlimum hennar höfðu gefið í
skyn að þeir myndu kjósa gegn
löggjöfinni áður en þingið kom
saman. Falli frumvarpið í öldunga-
deildinni verður ekki hægt að bera
það fram á ný fyrr en eftir ár.
Líkt gengur og gerist í róm-
versk-kaþólskum löndum eru lög
um fóstureyðingar mjög umdeild í
landinu og bæði stuðningsmenn og
andstæðingar löggjafarinnar hafa
barist af hörku fyrir málstað sínum
undarfarnar vikur. Á sama tíma og
þingið kom saman í gær flykktist
fjöldi fólks að þinghúsinu til að
styðja frumvarpið eða mótmæla
því. Stuðningsmenn báru græna
trefla en mótmælendurnir klæddust
bláu.
Frans páfi, sem er argentínskur,
er á móti löggjöfinni og hefur hvatt
þingmenn til að hafna henni.
Talið er að um 500.000 fóstureyð-
ingar fari ólöglega fram í Argentínu
á hverju ári og að þeim fylgi um
það bil 100 dauðsföll.
Deilt um fóstureyðingar
á þingi Argentínu
Frumvarp um lögleiðingu fóstureyðinga tekið fyrir
AFP
Fóstur Mótmælendur gegn frumvarpi um lögleiðingu fóstureyðinga koma
saman í Buenos Aires. Á skilti konunnar stendur: „Dráp eru ekki réttindi“.
Hlauparar: Arnar Pétursson og
Hulda Guðný Kjartansdóttir.
25% afsláttur af hlaupa- og
sportgleraugum til 18. ágúst