Breiðfirðingur - 01.04.1992, Page 54
52
BREIÐFIRÐINGUR
var ekki óvanalegt ef við vöknuðum á nóttunni krakkarnir,
að sjá mömmu sitja upp við dogg og vera að prjóna. Þá var
hún kannski andvaka og þá var um að gjöra að taka í prjón.
Hún var sívinnandi og vildi venja okkur á að halda okkur að
því sem okkur var ætlað að gjöra, en það gekk nú misjafn-
lega vel. Um þetta leyti var ég að prjóna mér sparisokka úr
hvítu bandi sem mamma spann og gaf mér og þeir voru með
krónuprjóni og ég ætlaði að vera búin með þá á páskum.
Mamma sagði mér auðvitað til, kenndi mér úrtökurnar og
útprjónið. Ég byrjaði víst á þessu um haustið svo ég hafði nú
tímann fyrir mér, og ég kláraði að prjóna sokkana og var í
þeim á páskunum og fannst ég vera voða fín.
Á annan í páskum þurfti pabbi að fara út í Kálf að sækja
kindur sem höfðu gengið þar í góðri beit um veturinn og við
krakkarnir fórum með til að standa hring um féð á meðan
verið var að koma því upp í bátinn. Mamma segir við mig að
ég skuli nú fara úr fínu sokkunum og í aðra dekkri, ég geti
skemmt þessa. En ég var nú ekki alveg á því, hélt ég færi
ekkert að detta en auðvitað datt ég ofan í poll í fjörunni,
sem var fullur af slýi sem var grænt og sokkarnir urðu græn-
flekkóttir. Ég grenjaði yfir að hafa farið svona með sokkana
mína, en mamma sagði að ég hefði gott af þessu, ég lærði þá
kannski að hlýða. Svo voru sokkarnir litaðir brúnir og ég átti
þá næsta ár fyrir sparisokka.
Vingjafir
Nú lét mamma mig fara að byrja á að prjóna mórauða vett-
linga til að gefa Steina mínum á næstu jólum. Ég gjörði það
nú með glöðu geði, því Steini var svo mikill vinur minn. Ég
hafði handarbakið með hörpudiskaprjóni og vettlingarnir
urðu bara fallegir og tilbúnir fyrir jól. En ég gat ekki beðið
með að gefa honum þá. Hann var þá farinn úr eyjunum til
Ólafsvíkur, en kom í heimsókn um það leyti sem ég kláraði
vettlingana. Og þá var ekki um að tala annað en gefa honum
vettlingana. Hann var glaður og sagðist alltaf ætla að eiga þá
fyrir sparivettlinga og ég var afskaplega sæl.