Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2010, Blaðsíða 23

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2010, Blaðsíða 23
23Ljósmæðrablaðið - desember 2010 börnum af öðru þjóðerni því hún var farsæl ljósmóðir og ávann sér traust fyrir störf sín. Guðrún fékkst einnig við lækningar og til hennar var talsvert leitað vegna þess að enginn lærður læknir var á svæðinu, en fara þurfti um 60 kílómetra leið á hestum til Yorkton til að sækja lækni. Vegna hæfileika hennar og velgengni fékk Dr. T.A. Patrick í Yorkton, sem þá var einn helsti læknirinn í fylkinu hana oft til þess að annast sjúklinga sína sem hefur þá væntanlega kostað hana dvöl á heimilum þeirra til lengri eða skemmri tíma. Árið 1904 flutti fjölskyldan enn lengra til norðurs og settist að skammt frá þeim stað þar sem bærinn Leslie reis nokkrum árum síðar í Íslendingabyggðinni sem þá var að myndast í kringum Foam Lake vatnið. Á svæðinu var enginn læknir frekar en við Whitesand River og fara þurfti 92 kílómetra leið til Yorkton eftir lækni. Notaður var vegslóði indíánanna vegna þess að engir voru vegirnir og ferðin til Yorkton gat tekið um sólarhring. Það hefur verið íbúunum hjálp og stuðningur að fá Guðrúnu til byggðarinnar því árið áður en hún kom hafði verið íbúunum erfitt vegna þess að þá geisaði þar skæður skarlatsóttafaraldur (flekkusótt) sem dró mörg íslensk börn og nokkra fullorðna til dauða. Á fáum árum varð Vatnabyggð að stóru Íslendinga- samfélagi og árið 1911 voru nærri 2000 Íslendingar á svæðinu. Guðbjörg Eyjolfsson bjó hjá fósturforeldrum sínum þar til hún giftist Tómasi S. Halldórssyni og settist að með honum skammt austur af Leslie og þar eignuðust þau átta börn. Guðrún vann sem ljósmóðir meðan hún hafði heilsu til, en hún dó á heimili Guðbjargar og Tómasar 24. mars árið 1922 eftir langvarandi veikindi. Talið er að Guðrún hafi tekið á móti 336 börnum á starfsævi sinni. Bjarni dó ekki fyrr en árið 1945 og hann hvílir ásamt Guðrúnu og mörgum af íslensku landnemunum í kirkjugarðinum í Bertdale í Vatnabyggð. Guðbjörg varð ekkja árið 1942 en giftist aftur og flutti til Vesturstrandarinnar árið 1944. Hún lést árið 1959 í White Rock í British Colombia, 68 ára að aldri. Þegar Guðrún framkvæmdi keisara- skurðinn í Kanada hafði aðeins einn keisara- skurður verið framkvæmdur á Íslandi en það var árið 1865, löngu áður en Guðrún fór í ljósmæðranámið. Þar var um dvergvaxna konu að ræða sem talið var víst að gæti ekki fætt barnið og var því ákveðið að ráðast í keisaraskurðinn til að freista þess að bjarga lífi beggja. Aðgerðina gerði Jón Hjaltalín landlæknir með hjálp Gísla Hjálmars- sonar og tveggja franskra skipslækna af herskipinu Pandora sem hann kallaði sér til aðstoðar, en þeir sáu um svæfinguna. Auk þeirra voru viðstaddir fjórir af fimm stúdentum sem voru að „lesa læknisfræði hjá landlækninum“. Enginn læknanna hafði verið viðstaddur keisaraskurð fyrr. Í blaðinu Þjóðólfi 4. júlí 1865 segir: „Chastang og Dexier „cloroformiseruðu“ móðurina (gjörðu hana tilfinningavana og aflvana með „cloroform“). Dr. Hjaltalín gjörði nára- skurðinn en Gísli gekk síðan til og skar upp móðurlífið. Móðirin lést um sólarhring seinna en barnið lifði í sex mánuði“. Keisaraskurður Guðrúnar var því annar keisaraskurðurinn sem framkvæmdur var af Íslendingi og Guðbjörg annað íslenska barnið sem tekið var með keisaraskurði og það fyrsta sem lifði fram á fullorðinsár. Þriðji keisaraskurðurinn var ekki gerður fyrr en 19 árum síðar eða árið 1910 þegar Matthías Einarsson á St. Jósefsspítala fram- kvæmdi keisaraskurð þar sem bæði móðir og barn lifðu. Það er greinilegt að Guðrún hefur búið yfir meiri þekkingu en flestar ljósmæður þess tíma. Útilokað er að hún hafi verið viðstödd keisaraskurð áður, en hún hefur líklega verið búin að nema lýsinguna af keisara- skurðinum sem framkvæmdur var árið 1865 og getað nýtt sér það þegar hún þurfti að grípa til þess ráðs að framkvæma keisara- skurðinn á Guðbjörgu. Hæfni og áræðni Guðrúnar sem vakið hafa athygli í Kanada leiða hugann að kennslunni sem hún fékk í sínu ljósmæðranámi á Íslandi. Í ljós kemur að sá sem annaðist bóklega kennslu hennar í náminu var Jón Hjaltalín landlæknir, sá hinn sami og framkvæmdi keisaraskurðinn árið 1865. Hann þreyttist aldrei á að miðla ljósmæðranemum af læknisþekkingu sinni og var mikill áhugamaður um að bæta menntun og kjör ljósmæðra. Ætla má að Jón hafi sagt Guðrúnu frá keisaraskurðinum í smáatriðum og hún hafi síðan getað nýtt sér upplýsingarnar þegar á þurfti að halda. Keisaraskurðurinn sem Guðrún framkvæmdi er í raun enn meira afrek fyrir það að í þeim fyrsta komu fjórir læknar að verkinu en hún var ein. Minnst er á keisaraskurð Guðrúnar í bókinni The Saskatchewan Icelanders eftir Walter Lindal og í bókinni A Harvest yet to reap: a history of prairie women eftir Lindu Rasmussen. Þá hefur Lesley Biggs dósent í kvenna- og kynjafræðirannsóknum við University of Saskatchewan rannsakað ævi Guðrúnar og lýst sögunni um keisara- skurðinn í tveimur greinum og í bókinni Reconceiving Midwifery, vegna þess að hún telur keisaraskurðinn varpa merkilegu ljósi á ljósmóðurstörf á þessum tíma. Hún telur Guðrúnu hafa sýnt meiri faglega færni en ljósmæður í Vesturheimi voru taldar búa yfir á þessum tíma og mun meiri kunnáttu en ef aðeins hefði verið um „yfirsetukonu“ að ræða. Guðrúnar var síðar minnst fyrir að hafa með sínum störfum lagt stóran skerf til farsældar Þingvallabyggðarinnar og að hafa ekki bara unnið verk sína af alúð og kærleika heldur einnig fyrir að hafa veitt læknishjálp eftir bestu getu og allt fyrir litla og oft enga þóknun. Helstu heimildir: 1. Lesley Biggs og Stella Stephanson (2006). In Search of Gudrun Goodman: Reflections on ‘doing history’ and memory. The Canadian Historical Review. 87, 2, bls. 293-316 2. Jón Þ. Hallgrímsson og Gunnlaugur Snædal (1988). Keisaraskurðir á Íslandi 1865-1919. Sögulegt yfirlit-I. grein. Læknablaðið 74, 67-71. 3. Jóhanna F. Jóhannesdóttir (2009). Vestur um haf og heim aftur. Kanadadvöl Guðjóns á Ökrum 1897- 1909. Jóhanna F. Jóhannesdóttir, hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi Götustemmning frá Winnipeg um aldarmótin.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.