Litli Bergþór - 01.12.2014, Blaðsíða 13

Litli Bergþór - 01.12.2014, Blaðsíða 13
Litli-Bergþór 13 Samantekt: Geirþrúður Sighvatsdóttir Páll M. Skúlason sendi á fésbókarsíðu Litla-Berg- þórs brot úr fyrirlestri, sem Óskar Einarsson læknir í Laugarási, flutti að Vatnsleysu í Biskupstungum um börn og berklaveiki. Fyrirlesturinn í heild var birtur í tímaritinu Menntamálum, 1. árg. 5. tbl. 1925. Hér er stafsetning færð til nútímahorfs. Fyrirlestur Óskars hefst á þessum orðum: „Í sambandi við skoðun skólabarna þykir mér hlýða að fara nokkrum orðum um heilsu þeirra, og hvernig ég álít að bæta megi úr stærsta meininu, án þess þó að ykkur, aðstandendum þeirra, séu lagðar neinar nýjar kvaðir á herðar, sem teljandi séu. Jafnframt almennri skólaskyldu og stofnun barna- skóla um land allt, hafa lagst nýjar og áður óþekktar skyldur á herðar læknum og leikmönnum, en þær eru, að sjá um að börnin bíði ekki heilsutjón af skólaverunni. Frá þeim, sem eru þessarar skyldu sinnar meðvitandi, eru alltaf að heyrast háværari kröfur um að skólahús séu reist í hverju einasta fræðsluhéraði og þau skólahús séu bæði björt, hlý og rúmgóð. Ég þarf ekki að skýra nauðsyn þessarar kröfu fyrir ykkur, því að þið þekkið öll alltof vel, hve gersamlega óhæf þau húsakynni oft eru, sem farskólarnir verða að sætta sig við, bæði hér og annarsstaðar“. „Berklaveikin er þjóðarböl, hún drepur og gerir óvinnufæra fleirir menn af þjóð vorri, en nokkur annar sjúkdómur, og það eru langflest fólk á besta skeiði æfi sinnar. Þetta er þjóðartjón mikið og ómetanlegt, en hún gerir þó enn þá meira tjón, þótt sjaldan sé það talið. Hún drepur dug og táp úr fjölda manna og veiklar afkvæmi þeirra, þótt þeir komist aldrei á það stig að kallast sjúklingar eða verði frá vinnu, en þetta er líka tjón mikið. Það er því ekki að ástæðulausu, að við Íslendingar höfum hafið öfluga baráttu gegn berklaveikinni, en sú barátta virðist mér vera öflugust í því að eyða fé ríkis- og sýslusjóða, en uppskeran verði ekki að sama skapi. Ég er þó ekki að gera lítið úr því að margan manninn auðnast að lækna. En þrátt fyrir alla þessa miklu baráttu, er þó svo langt í frá að nokkur sigurvon sé, eða von um að gera berklaveikina landræka, að telja má að veikin ágerist hröðum skrefum. Svo að fyrir hvern einn sem læknist, koma tveir nýir sjúklingar. Það er því öðru nær, en að nokkuð miði á leið með þessari bardagaaðferð. Sé betur að gætt, er þess heldur ekki að vænta. Því, að undanteknum allströngum lögum og lagabókstöfum um að fjarlægja berklaveika menn frá börnunum eða öfugt, höfum vér í allri baráttunni alveg gleymt gamla spakmælinu í Snorra-Eddu, að á skuli að ósi stemma. Allan þann langa tíma, sem svæsnari stig berklaveikinnar, svo sem lungnaberklar, eru að þróast í kirtlum barna og unglinga, hreyfum vér hvorki hönd né fót börnunum til hjálpar. Og þó sjáum vér að kirtlaberklarnir eru svo auðlæknanlegir, að flest vinna bug á þeim. En hin, sem í valinn falla síðar, vantar um þetta skeið lang flest aðeins herslumuninn. En hvernig er þá hægt að hjálpa börnunum um þennan herslumun, hvernig er hægt að hjálpa þeim um það lóð á metaskálina, sem myndi tryggja þeim heilsu og líf gegn hvíta dauðanum?“ „Ég get bent ykkur á veg til þess, en sá vegur hefir tvær álmur og þarf helst að þræða báðar. Hin fyrri er fullkomið hreinlæti, björt og góð húsakynni, gott og kröftugt fæði, hæfileg vinna og mikil útivera“. Hin „er í því fólgin að herða líkamann og styrkja í baráttunni við berklasmitunina, svo að veikin nái aldrei að festa rætur“... Berklar og barnaskólabygging í Reykholti 1927 Óskar Einarsson læknir í Laugarási 1923 - 1925. Barnaskólahúsið í Reykholti 1938.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.