Litli Bergþór - 01.12.2014, Blaðsíða 28

Litli Bergþór - 01.12.2014, Blaðsíða 28
28 Litli-Bergþór Brúará brúuð 1901 Í blaðinu Ísafold frá 24. júlí 1901 segir svo: „Ný brú er nú lögð á Brúará í Biskupstungum, á Steinbogagljúfrinu, svo sem 50 föðmum fyrir neðan gömlu brúna, ef brú skyldi kalla, á sprungunni í miðri ánni. Brú þessa hina nýju, sem er úr tré, hefir smíðað hr. kaupm. H. Helgason* í Reykjavík, og flutt hana austur og lagt hana á ána. Hún er vel traust og öll járnvarin, 25 álna löng (15,7 m) og 4,5 alin á breidd (2,8 m); en 9 álna hæð (5,7 m) frá henni niður að vatni. Yfir hana fór nýlega 14 hesta lest alklyfjuð, og var ekkert lát á. Brúin er gerð á landssjóðs kostnað með því að vegurinn milli Þingvalla og Geysis er landssjóðsvegur. Kostnaðarreikiningur ófullger enn. Hann verður mikill að tiltölu, vegna afar örðugs flutnings. Sumstaðar urðu menn að bera máttarviðina; hestum varð eigi við komið. Um hesta varð að skifta 4 sinnum á klukkustund, þar sem örðugast var yfirferðar, annars hefðu þeir ekkert enzt. Gamla brúin litla yfir hraunsprunguna í miðjum árfarveginum er þar með úr sögunni. Þar var tími til kominn. Það var sveitin Biskupstungnahreppur, sem hana hafði smíða látið. Hún var orðin 30-40 ára (þ.e. smíðuð milli 1860-70 –innsk. L-B) og farin að fúna, þótt í vatni lægi nær alla tíð. Handrið var eftir henni beggja vegna til skamms tíma, en nú horfið fyrir nokkrum árum og því ærið glæfralegt að fara hana, er áin var mikil og alldjúpt var á brúnni. Enda hrapaði í fyrra hestur út af henni alklyfjaður niður í gljúfrið og hefir ekkert af honum sést síðan.“ *Helgi þessi kaupmaður Helgason, sem minnst er á í greininni, var fjölhæfur atorkumaður og vel kunnur á sínum tíma. Auk þess að vera framkvæmdamaður og trésmiður, var hann tónskáld og stofnandi Lúðraþeytarafélags Reykjavíkur. Er hið kunna lag „Öxar við ána“ eftir hann. Hann lagði einnig stund á brúarsmíðar og voru brýr Helga með sérstöku lagi, svokölluðu norsku lagi. Brýrnar hans voru penar og praktískar. Á árunum 1889-1898 smíðaði Helgi til dæmis sjö brýr á ár á Suðurlandi, þ.e. bæði fyrir austan fjall og sunnan Hvítár í Borgarfirði. Hann gegndi ýmsum öðrum störfum í Reykjavík, var m.a. slökkviliðsstjóri og sat jafnframt í bygginganefnd. (Heimild: Baldur Þór Þorvaldsson og ljósrit úr bókinni „Brýr að baki“ eftir Svein Þórðarson frá 2006) Brúin frá 1901 var því búin að vera á Brúará í sex ár, þegar Friðrik VIII Danakóngur reið með fríðu föruneyti um sveitir Suðurlands í byrjun ágúst 1907 og misskilningur að áin hafi verið brúuð í tilefni konungskomunnar, eins og skilja má af frásögnum í árbók FÍ 1961. Kóngsvegurinn var hinsvegar lagður með hökum og skóflum til Þingvalla og þaðan austur að Geysi árin 1906 -1907 í tilefni konungskomunnar, því gert var ráð fyrir að kóngur kysi að aka í yfirbyggðum hestvagni. En svo fór að hann vildi heldur fara ríðandi. Fullyrðingar um að aðeins ferðakamarinn hafi verið á hjólum í ferðinni er þjóðsaga, en ýmis farangur tilheyrandi konungsfylgdinni austur að Geysi hefur verið hafður á vögnum. Í bókinni ÍSLANDSFERÐIN 1907 segir um ferðalagið frá Þingvöllum „fór hann (farangurinn) á undan þegar um nóttina ásamt matarbirgðum og tjöldum.“ Einnig segir: „Konungsfylgdin taldi tvö hundruð ríðandi menn. Að vísu óku nokkrir léttivagnar með, til vonar og vara. Var ætlunin að reyna þá á nýruddum vegum og nota, ef svo kynni að fara, að einhverjir hefðu ekki fullkomna úthaldssemi á hestbaki. Í Reykjavík hafði komið til mála, að konungur ferðaðist akandi. Þegar á hólminn kom, reyndist hans hátign einna fremstur í flokki dugandi hestamanna og bauð byrginn sólu, í hnéháum reiðstígvélum, klæddur bláum sjóliðs- foringjabúningi, með derhúfu, að hætti aðmírála, á höfði. Enginn þoldi betur rykmökkinn á götunum og ætíð reið hann í fararbroddi, með Íslandsráðherra sér við hlið.“ Bíll á leið yfir gömlu brúna frá 1901. (Úr myndasafni Geirs Zoëga, fyrrum vegamálastjóra)

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.