Litli Bergþór - 01.12.2014, Qupperneq 40
40 Litli-Bergþór
tókst að missa hann í eigin fingur og varð af nokkur
skurður og blóð rann. Fannst mér þetta frekar pínlegt að
auglýsa klaufaskap minn með því að láta röðina standa
upp og vafði því servéttu fast um svo lítið bar á. Slapp
þetta til þar til borðhaldi var lokið og ég gat gengið
betur frá sárinu. Var þetta í síðasta skiptið sem blótið
var haldið í gamla samkomuhúsinu að Vatnsleysu.
Þetta leiddi til þess að ég smíðaði eigið trog og lengi
eftir þetta þá sóttum við hjónin þorrablótin í Aratungu.
Á þessum árum tók ég dálítið þátt í frjálsíþróttum
og framundan var Landsmót UMFÍ að Laugum
í Reykjadal, haldið um mánaðarmótin júní júlí.
Lítill tími var til æfinga, var helst um helgar heima
á Selfossi. Þó var ágæt stökkgryfja til staðar á flöt
neðan Barnaskólans, þar sem bílastæði Aratungu eru
nú, nýtti ég mér hana lítillega. Ég heyrði einhvern
heimamann kvarta um að alla aðstöðu skorti til
frjálsíþrótta í Tungunum, en sannleikurinn var sá að
gryfjan í Reykholti tók langt fram stökkaðstöðunni
sem þá var heima á Selfossi. Ferðin að Laugum var
svo hin ágætasta. Sögn er um að það hafi verið á
heimleið þaðan að sr. Eiríkur J . Eiríksson varpaði fram
hugmynd að nafni félagsheimilisins sem nokkrum
dögum síðar hlaut eins og kunnugt er nafnið Aratunga.
Þegar leið að vígslu hússins sunnudaginn 9. Júlí
1961 þá var tekinn nokkur „endasprettur“. Húsgögn
sett saman og komu margir að verki, en allt gekk
upp og mikill hátíðisdagur fór í hönd. Hugmynd
kviknaði hjá okkur Stefáni þegar hátíðahöldunum var
að ljúka um nóttina, að taka okkur frí daginn eftir og
fara inn á Hveravelli. Drifum við í því með hraði og
undirbúningur var lítill. Með okkur slógust í för Gústi
á Kjóastöðum og Raggi á Brautarhóli, einnig Ásgeir
Valdimarsson kunningi okkar og mjólkurbílstjóri
þeirra Tungnamanna. Eiríkur í Miklaholti var ráðinn
bílstjóri og ók hann okkur á Landrover sínum. Nesti
fengum við í eldhúsinu, krásir sem ekki
kláruðust í veislunni og fullan disk af
upprúlluðum sykruðum pönnukökum
rétti mér einhver góðhjörtuð kona að
lokum.
Við lögðum af stað klukkan fjögur og
ókum í næturkyrrðinni inn í Hvítárnes
og þar var tekið til nestisins og lagði ég
pönnukökudiskinn frá mér á veggkamp
eða þúfu og við hugðumst njóta
ljúfmetisins. En einhverjar heimaríkar
kindur urðu fyrri til að gæða sér á og svo
var harkan mikil í einni þeirra að hún
hugðist ná af mér pönnukökunni sem
ég hélt á. Klukkan ellefu daginn eftir
héldum við á Hveravelli. Þar hittum við
Eirík frá Fellskoti, var hann þar vörður
við varnargirðingar. Heim komum við
svo að kvöldi, eftir góða ferð. Stefán
var hagmæltur og í ferðinni kastaði
hann öðru hvoru fram vísu, svoleiðis
kveðskapur á tæpast við nema á einum
stað og einu sinni en kryddar nokkuð
augnablikið. Eitthvað var um slíka
vísnagerð við vinnuna og einhvern veginn komst á
kreik saga um vísu sem gerð var án mikillar meiningar
og skrifuð á miða sem var settur undir mitt salargólfið.
Efni hennar var um að dömur sem dönsuðu þar
yfir,fengju einhvern amorsfiðring. Varð það til þess
að húsfreyja ein í sveitinni sendi smá ljóðabálk, vel
gerðann, nokkurs konar svar við vísunni. Þótti okkur
þá gamanið vera farið að aukast og jafnvel grána
aðeins. Ekki segi ég nánar frá þessum yrkingum, enda
ekki viss um að ég muni kveðskapinn nógu rétt.
Þó búið væri að vígja bygginguna þá var mikið
eftir og vorum við að fram í janúar 1962 við frágang
utanhúss og vinnu við kjallara og svo efri hæð, íbúð
húsvarðar, símstöð og bókasafn. Einnig frágang við
Barnaskólahúsið. Vorum þá í fæði hjá þeim Garðari
og Steinunni, húsráðendum í Aratungu og tók þá við
algjört sældarlíf því Stenna sýndi snilldartakta við
matargerðina. Ég tók mér mánaðarfrí í nóvember ´61
og sigldi með Gullfossi til Kaupmannahafnar svona til
að víkka sjónarhornið og Stefán brá sér til Ítalíu um
líkt leyti. Var þetta umbun sem við veittum okkur til
viðbótar Hveravallaferðinni þegar verklok nálguðust.
Ég minnist tímans í Tungunum af mikilli
ánægju. Vinnan skemmtileg og gaman að kynnast
heimamönnum. Ég vann nokkuð í öðrum sveitum
sýslunnar og skynjaði þá að um svolítið mismunandi
sveitabrag var að ræða, áberandi munur á sönghefð
svo eitthvað sé nefnt. Einhvern veginn er það svo
enn í dag að tilfinning mín er sú að þegar ég kem í
Tungurnar þá sé ég að nokkru leyti að koma heim.
Að mestu samið eftir minni. Stuðst við dagbókarkompur
mínar og minnissnepla frá þessum tíma.
Selfossi í júlí 2014.
Árni Sverrir Erlingsson
Fórum á Hveravelli kl. 4 um nóttina. Áning í Hvítárnesi. F.v. Ragnar á
Brautarhóli, Ásgeir Valdimarsson mjólk-urbílstjóri, Stefán Kristjánsson
yfirsmiður, Árni Sverrir, Eiríkur í Miklholti bílstjóri ferðarinnar.
Ljósm. Gústaf Jónasson.