Litli Bergþór - 01.12.2014, Blaðsíða 41

Litli Bergþór - 01.12.2014, Blaðsíða 41
Litli-Bergþór 41 Litli-Bergþór fékk nýlega í hendur eftirfarandi pistil, eða hugleiðingar eftir Þorstein Sigurðsson heitinn á Vatnsleysu hér í Biskupstungum. Voru það Bragi Þorsteinsson á Vatnsleysu og Halla Bjarnadóttir kona hans, sem veittu góðfúslegt leyfi fyrir birtingunni. Þorsteinn var fæddur 1893 á Vatnsleysu og lést 1974, áttræður að aldri. Langafi hans, Eiríkur Eiríksson, var bóndi á Reykjum á Skeiðum og fjallar þetta greinarkorn m.a. um kveðskap hans. En það mun hafa verið skrifað einhverntíman uppúr 1960 í tilefni þess að vísur eftir Eirík voru fluttar í Ríkisútvarpið, en þar taldar þjóðvísur og vildi Þorsteinn leiðrétta það. Segir Þorsteinn í sambandi við þetta frá lífi forfeðra sinna á Reykjum og heimilisbragnum þar og gefur þar með skemmtilega innsýn í bændamenningu nítjándu aldar. Hefst þá pistill Þorsteins: „Sé ég eftir sauðunum“ Þátturinn, „Ertu með á nótunum“, sem fluttur var (í Ríkisútvarpinu, innskot L-B) 23. Júlí s.l., byrjaði á lagi eftir Emil Thoroddsen, Fóstbræður sungu. Lagið er lítið en vel gert, í þjóðlagastíl. Það er aðeins á færi snillinganna að gera listaverk af litlu efni. Lítil vísa getur verið listaverk og lítið lag ekki síður. Textinn við þetta lag Emils, („Sé ég eftir sauðunum“, innskot L-B), var kynntur sem þjóðvísa og þannig hefur það verið hingað til. En hvað er þjóðvísa? Árni Böðvarsson hefur stutt og laggott svar við þessu í Orðabók Menningarsjóðs, þ.e. stutt þjóðkvæði. En við þessa skýringu má bæta: sem enginn veit höfund að, en þjóðin hefur tileinkað sér. Nú er þessu ekki þannig farið með þessar sauðavísur. Höfundurinn var sunnlenskur bóndi, sem lést á barnsárum elstu núlifandi manna, Eiríkur Eiríksson á Reykjum á Skeiðum. Þessi langafi minn orti vísurnar í hárri elli, á árunum þegar lifandi sauðasala til Skotlands stóð sem hæst hér á Suðurlandi. Hann var þá alblindur, slík voru örlög hans síðustu 20 ár ævinnar. Á síðustu æviárum var hann þrotinn að líkamskröftum, en andlega heill. Hann stytti sér þá einatt stundir með því að færa í vísnaform daglega viðburði. Andleg ljóðagerð stóð honum þó hjarta næst. Hann hafði mikinn huga á að koma, þótt ekki væri nema einu versi, í sálmabókina 1886, en tókst ekki. Sjálfsagt hefur ljóðformið ekki þótt nógu listilegt, því að varla hefur skort á trúareinlægnina. Hann var mjög sterkur trúmaður, ágætur söngmaður og tónviss eins og allur fjöldi manna í þessari ætt. Hann var forsöngvari í Ólafsvallakirkju í full 40 ár. Þegar Eiríkur orti vísurnar um sauðasöluna, hvarf hugur hans til liðins tíma og þótti búskarhættir síst hafa farið batnandi. Sjálfur var hann gildur bóndi og Eiríkur Vigfússon, bóndi og hreppsstjóri á Reykjum, faðir hans, líklega öllu traustari bóndi. Þar var rausnarheimili. Fyrri kona föður hans var Ingunn Eiríksdóttir frá Bolholti á Rangárvöllum. Þeirra dóttir var Katrín kona Magnúsar Arngrímssonar, alþingismanns í Syðra-Langholti. Frá þeim eru miklar ættir komnar, kenndar við Langholt og Birtingaholt. Seinni kona Eiríks Vigfússonar var Guðrún Kolbeinsdóttir, prests í Miðdal, Þorsteinssonar. Séra Kolbeinn orti Gilsbakkaþulu um Guðrúnu, þegar hún fór að heimsækja afa sinn, séra Jón (Mið- Jón) að Gilsbakka, en þar sátu 3 prestar í röð, sem allir báru Jóns nafn. Bæði voru þau Reykjahjón vel hagmælt. Hvort þau hafa iðkað þá list nokkuð að ráði er ekki vitað, hitt er víst, að það er þá glatað. Ein vísa er þó mér í minni, sem Eiríkur orti líklega á fyrri hluta annars áratugar 19. Aldar. Vísan er um heimilisfólkið á Reykjum, ort um haust og segir frá hvernig umhorfs var á kvöldvökunni á 12 manna heimili á þeim tíma: Bóndinn Eiríkur brytjar mör, bryður hún Guðrún kjöt og smjör. Ingunn við tuggum tekur. Kolbeinn litli á kodda svaf, Katrín tók lykkju prjónum af, hjá Imbu lyppan lekur. Lyppu spann Bjarni löngum trúr, lagaði Jón orð dösku úr. Berþór var band að tvinna. Við þráðarspunann Þórdís sat, þagað Sigga við rokkinn gat. Gekk Fúsi um gólfið stinna. Börnin voru 5, tvær dætur frá fyrra hjónabandi, Katrín, sem fyrr er getið og Ingibjörg, báðar mjög ungar heimasætur. Seinni konu börnin voru þrjú, Vigfús elstur, Kolbeinn og Ingunn á fyrsta ári. Hún giftist Ófeigi hinum ríka í Fjalli, sem var vel þekktur um Suðurland og Gröndal gerði seinna þjóðkunnan. Og svo voru vinnuhjúin 5, þrír vinnumenn og tvær vinnukonur. Þegar þetta gerðist var Eiríkur, sá er sauðavísurnar orti, ekki fæddur. Það lítur út fyrir, að á Reykjum hafi verið velsældar heimili og við þau kjör ólst Eiríkur upp. Í hans búskapartíð var einnig nóg til að bíta og brenna. Í hárri elli horfir hann svo með söknuði til fyrri daga, þegar „Sé ég eftir sauðunum“ Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.