Morgunblaðið - 22.09.2018, Qupperneq 28
28 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. SEPTEMBER 2018
Á leið heim frá
Stokkhólmi á síðasta
ári sat ég við hlið konu
sem var á leið til
Seattle. Hún var
starfsmaður í aðal-
stöðvum Starbucks
þar í borg og flaug á
Saga Class. Hún sagði
mér að frá 2009 þegar
Icelandair hóf flug til
Seattle hefði hún nán-
ast eingöngu flogið með félaginu í
ferðum sínum til Evrópu, átta til
níu sinnum á ári. Hún sagði ekki
ólíklegt að þetta væri sjötugasta
ferðin með Icelandair en jafnframt
sú síðasta. Hún hefði ákveðið að
færa sig yfir til British Airways og
fljúga um London, Terminal 5 á
Heathrow. Hún sagði sér líka mjög
vel við Icelandair en hún þyldi ekki
lengur að fljúga í gegnum Keflavík-
urflugvöll.
Í sömu viku var mér sögð svipuð
saga af National Film Board of
Canada, sem notað hafði Icelandair
en ætlaði nú að færa sig yfir á önn-
ur flugfélög í ferðum til Evrópu.
Ástæðan var óþægindi og erfið-
leikar við að skipta um flugvél í
Keflavík.
Eins og konan frá Starbucks orð-
aði það: að þurfa að ganga úr flug-
vélinni út í alls kyns veður, bíða í
troðfullri rútu til að komast inn í
flugstöð og olnboga sig þar í gegn-
um mannþröng til að komast að
langri biðröð í vegabréfaskoðun og
bíða síðan eftir næstu rútu og svo út
í rokið til að komast um borð í
næstu flugvél.
Því miður er þetta ástand sem
farþegar upplifa of oft í Keflavík,
sérstaklega farþegar Icelandair og
WOW. Flugstöð Leifs Eiríkssonar,
sem eitt sinn var besta skiptistöð í
Evrópu, er nú sú versta og það er
flugfélögunum dýrt. Sú ákvörðun,
sem stjórn Isavia tók fyrir ein-
hverjum árum að stækka ekki flug-
stöðina með fleiri landgöngubrúm
heldur að fjárfesta í útistæðum, hef-
ur skapað þetta ástand. Stjórnin
telur sig örugglega hafa réttmæta
ástæðu fyrir ákvörðun sinni en það
breytir því ekki að flugstöðin sinnir
illa sínu hlutverki og farþegar upp-
lifa hana sem erfiða og um leið
þjónustu flugfélaga sem slæma.
Tekjuleki sem hlýst af því að
missa fasta viðskiptavini er eitt
versta vandamál hvers flugfélags.
Fastir viðskiptavinir koma aftur og
aftur vegna þess að þeim líkar vel
þjónustan og finnst að flugfélagið
uppfylli vel þeirra
væntingar. Þeir sætta
sig við hærri fargjöld
ef flugfélagið mætir
þörfum þeirra og
væntingum að öðru
leyti. Ég veit ekki hve
marga fasta við-
skiptavini Icelandair
hefur misst vegna slæmrar aðstöðu
í Keflavík, en ef ég heyri af tveimur
stórum í sömu vikunni eru þeir
örugglega miklu fleiri. Hvort þeir
skipta hundruðum, þúsundum eða
tugum þúsunda er erfitt að segja.
Tekjuleki af þessu tagi er nánast
ósýnilegur en hann margfaldast
hratt. Vörn flugfélaga er jafnan sú
að styrkja sig á markaði með flug-
áætlun sem hentar viðskiptavinum,
hnökralausri þjónustu, samkeppn-
ishæfu verði og stundvísi. Ice-
landair, sem eitt sinn var eitt stund-
vísasta flugfélag Evrópu, er löngu
hætt að gefa út tölur um stundvísi,
svo ekki sé minnst á WOW. Að-
stæðurnar í Keflavík gera það nán-
ast ómögulegt að ná flugvél út á
tíma og hnökralaus þjónusta heyrir
sögunni til. Tekjuleki sem af svona
aðstæðum stafar á að vera óþarfur
en hefur alvarlegri áhrif á afkomu
en margir átta sig á.
Flugfélögin hafa að mörgu leyti
verið sjálfum sér verst. Þau hafa
kosið að vaxa nánast óhóflega inn í
aðstæður sem ráða ekki við vöxtinn
og lækka þannig hjá sér þjónustu-
stigið. Kapphlaupið um nýja áfanga-
staði vestanhafs virðist án raunsæis
enda bendir ekkert til að vöxtur síð-
ustu tveggja ára sé arðbær.
Það er vel þekkt í skiptistöðva-
fræðum að til að hámarka hagnað af
skiptikerfi þarf heimamarkaðurinn
þar sem skiptistöðin er að halda
ákveðnum styrk. Það stafar af því
að hagkvæmustu flutningarnir eru
til og frá heimamarkaði þar sem
einingatekjur af farþega sem flýgur
beint að heiman og heim eru hærri
en af gegnumstreymisfarþegum.
Þetta á við um Reykjavík, Amster-
dam og Chicago og aðra staði þar
sem skiptistöðvar hafa náð að
blómstra. Það dytti engum manni í
hug að setja upp skiptistöð þar sem
enginn býr, svo sem í Síberíu eða
Labrador, þótt staðsetning sé hag-
stæð. Þar er enginn heimamark-
aður til að tryggja afkomu stöðv-
arinnar. Margt bendir til að hlutfall
gegnumstreymisfarþega sé nú orðið
svo hátt miðað við hlutfall farþega
sem fljúga til og frá Íslandi að kerf-
ið er ekki lengur arðbært. Lögmálið
um minnkandi afrakstur er farið að
bíta. Ég trúi því að þetta sé að
minnsta kosti stjórnendum Ice-
landair vel ljóst og vonandi verður
skekkjan fljótt leiðrétt. Til að mæta
óviðunandi aðstöðu í Keflavík ætlar
félagið að opna nýjan skiptibanka.
Brottfarar- og komutímar verða
góðir fyrir markaðinn milli Íslands
og Evrópu. Vestur um haf og að
vestan eru tímar hins vegar langt
utan þess tíma sem flest fólk vill
ferðast á og má búast við að
Icelandair þurfi að fikra sig enn
neðar í fargjaldastigann til að fylla
þessi flug. Aðstaðan í Keflavík kann
að vera það skásta sem Isavia vill
bjóða en hún dugar ekki fyrir góða
skiptistöð og grefur augljóslega
undan tekjum stærsta notanda flug-
stöðvarinnar.
Eitt sinn best,
nú verst
Eftir Pétur J.
Eiríksson
» Flugstöð
Leifs Ei-
ríkssonar, sem
eitt sinn var
besta skiptistöð í Evr-
ópu, er nú sú versta og
það er flugfélögunum
dýrt.
Pétur J. Eiríksson
Höfundur er fyrrverandi fram-
kvæmdastjóri hjá Flugleiðum og Ice-
landair Group.
petur@proaviation.is
Við Íslendingar er-
um eyjarskeggjar og
auðvitað einkennist
skapgerð okkar og
viðhorf nokkuð af
því. Er sjóndeild-
arhringur sumra lítill
og fer, þegar verst
lætur, niður í mús-
arholusýn.
Sumir hér eru svo
þröngsýnir og íhalds-
samir að þeir mála skrattann á
vegginn ef þeir horfa út fyrir
landsteina, svo ekki sé nú talað
um að gengið sé til samvinnu,
samstarfs og tengsla við erlend
öfl, þjóðir og ríkjasambönd.
Alþjóðleg mynt er í huga
margra illt mál og hættulegt og
ógnun við sjálfstæði landsmanna,
þó að gjaldmiðill landsmanna,
blessuð krónan, hafi reynst hið
mesta svikatól og bölvaldur, Svo
má illu venjast að gott þyki. Helst
verður að kalla þetta afdala-
mennsku.
Sem betur fer er verulegur hluti
þjóðarinnar frjálslyndur, fram-
farasinnaður og með víðan
sjóndeildarhring og skilning. Þetta
fólk skilur að ný samgöngutækni
hefur fært þjóðir nær hver ann-
arri síðustu áratugi og að jörðin
er orðin einn vettvangur sem allt
mannkynið verður að deila með
sér. Á þetta við um öll svið; loft,
láð og lög. Jarðarbúar eiga þetta
allt saman og verða að deila því
með tilliti til verndar, endur-
uppbyggingar og nýtingar. Gagn-
kvæmur skilningur, samstarf
manna og þjóða og virðing við líf-
ríki jarðar hljóta því að verða ein-
kunnarorð komandi kynslóða.
Stærð plánetunnar Jarðar er ekki
meiri en svo að við getum ferðast
hvert á jörð sem er á innan við
sólarhring.
Á síðustu dögum hafa afdala-
menn landsins látið að sér kveða í
vaxandi mæli og nú er hættan
þriðji orkupakki ESB. Jafnvel
mætustu menn, líka ritstjórar og
fyrrverandi ritstjórar, hafa blásið í
varnaðar- og hættulúðra. Mikið
liggur við! Jafnvel er gengið í
skrokk á félögum og samherjum,
sem þó hafa reynst íhaldssamir
vel í ýmsu öðru, og þeim brigslað
um brot á grundvallarstefnu
stjórnmálaflokka og hagsmunum
og sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta
upphlaup finnst und-
irrituðum með ólík-
indum.
Í 25 ár höfum við
verið á innri markaði
ESB, stærsta og öfl-
ugasta markaði heims,
með framleiðsluvörur
okkar og þjónustu.
Þetta hefur tryggt
okkur besta mögulega
verð fyrir afurðir okk-
ar, en þær fara 80%
til Evrópu. Á sama
hátt höfum við haft aðgang að því
vöruframboði annarra þjóða sem
innri markaður ESB býður upp á
– sennilega því besta í heimi – en
það hefur tryggt okkur lægsta
mögulega verð og mestu mögu-
legu gæði á vöruaðdrætti okkar.
Á sama tíma njótum við ferða-,
dvalar- og starfsfrelsis í 31 landi,
en gagnkvæm réttindi annarra
ESB-búa hafa tryggt okkur að við
gætum mannað öra uppbyggingu
ferðaþjónustunnar, byggingariðn-
aðarins og fyllt í eyður á ýmsum
öðrum starfssviðum, þar sem inn-
lendan starfskraft skorti.
Þessi frjálsu samskipti og sam-
keppni sem yfirstjórn ESB hefur
jafnan tryggt að sé sem sann-
gjörnust og réttlátust fyrir alla
markaðsþátttakendur – líka og
sérstaklega með tilliti til hags-
muna og öryggis almennings og
neytenda – hefur gert okkur Ís-
lendingum kleift að rífa okkur
fljótt og vel upp úr hruninu – sem
reyndar aldrei hefði orðið ef hér
hefði verið evra, ekki króna – og
byggja upp meiri velferð fyrir
landsmenn en áður þekktist.
Þeir menn sem beittu sér fyrir
inngöngu Íslands í ESB, í gegnum
EFTA og EES-samninginn, eiga
því miklar þakkir skildar fyrir þá
framsýni og það frjálslyndi sem
þeir sýndu, en þar standa fremstir
í flokki Jón Baldvin, Björn
Bjarnason og – undarlegt nokk –
Davíð Oddsson.
Vatns- og hveraorka okkar er
auðvitað eins og hver annar varn-
ingur sem gengur kaupum og söl-
um á grundvelli framboðs, eft-
irspurnar og markaðsverðs,
kaupendum og neytendum til
góðs, og má líkja henni við við-
skipti með olíu, kol eða kjarnorku.
Gildir það sama um orku lands-
manna og hátæknivörur, flutnings-
þjónustu, ál- og fisksölu – að ekki
sé nú talað um ferðaþjónustuna –
og aðrar afurðir. Ef gæði eru mik-
il og kostnaður lágur höfum við
allt að vinna og litlu að tapa með
því að fara inn á stóran og öflugan
markað, auk þess sem slíkur
markaður veitir okkur sjálfum að-
hald.
Auðvitað verður að tryggja að
við ráðum yfir eigin orku eins og
annarri starfsemi og framleiðslu í
landinu og mín skoðun á málinu
bendir skýrt til að svo sé. Vísa ég
þá einkum til minnisblaðs Ólafs
Jóhannesar Einarssonar, lög-
manns hjá BBA og fyrrverandi
framkvæmdastjóra Eftirlitsstofn-
unar EFTA, sem trúlega veit
manna mest og best um þetta mál,
en minnisblaðið var birt á vef at-
vinnuvega- og nýsköpunarráðu-
neytisins. Á ráðherra, Þórdís Kol-
brún, heiður skilinn fyrir að hafa
beitt sér fyrir þessari faglegu og
traustvekjandi úttekt á orkupakk-
anum.
Til viðbótar kemur að 30 aðrar
evrópskar þjóðir, líka frændur
okkar Norðmenn, Svíar, Danir og
Finnar, hafa samþykkt þennan
orkupakka og sjá sér hag í honum.
Enginn vill hér afsala sér forræði
og sjálfstæði frekar en við.
Annað mál er svo það að við er-
um hreint ekki inni á evrópskum
orkumarkaði þar sem við erum
ekki tengd því orkukerfi sem þar
er. Til þess þyrfti sæstreng til
Bretlands eða meginlands Evrópu
sem óvíst er að komi nokkru sinni,
en á meginlandi Evrópu er nánast
ótakmarkaður aðgangur að vind-,
sólar- og sjávarorku, en með nýrri
tækni, sem líka er í örri þróun, má
telja að meginlandið verði sjálfu
sér nægt með hagstæða græna
orku í framtíðinni.
Fyrir undirrituðum er hér því á
ferðinni stormur í vatnsglasi og
þeir sem að honum standa mega
gjarnan draga sig til baka til af-
dala sinna og halda sig þar.
Sjálfstæði fæst með
því að nýta tækifærin
í alþjóðasamskiptum
Eftir Ole Anton
Bieltvedt
Ole Anton Bieltvedt
» Við erum hreint ekki
á evrópskum orku-
markaði, þar sem við er-
um ekki tengd því orku-
kerfi. Til þess þyrfti
sæstreng til Bretlands
eða meginlands Evrópu
Höfundur er alþjóðlegur kaupsýslu-
maður og stjórnmálarýnir.
Smiðjuvegi 9 · 200 Kópavogi
Sími 535 4300 · axis.is
Vandaðar íslenskar innréttingar