Morgunblaðið - 21.12.2018, Síða 36

Morgunblaðið - 21.12.2018, Síða 36
36 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 21. DESEMBER 2018 Kaldhæðinn maður sagði reyndar einu sinni að góður veiðifélagi væri sá sem væri ögn verri veiðimaður en maður sjálfur. Þetta er þó ekki í öll- um tilvikum rétt og gerast dæmin nokkur um að fátt sé einmitt nauð- synlegra í veiðitúr en góður veiðimað- ur við hlið manns. Fyrir utan það eitt að illskárra er að einhver fái fisk í veiðitúr heldur en enginn, jafnvel þótt viðkomandi veiðimaður sé ekki maður sjálf- ur, þá getur það hreinlega bjargað lífi manns að vita af kvikum félaga í grennd við sig þegar vit manns sjálfs gerist grannt og maður kemur sér í skelfilegar ógöngur. Eina sögu af þessum meiði má rekja til þess er við vorum tveir sam- an félagar í nokkuð stríðu straum- vatni austan heiða að vorlagi þegar ísa hafði ekki leyst og ár voru sumar enn krapaðar af klaka. Það var kalt og fraus í lykkjum og hrollur í okkur báðum sem stóðum við ána. Sól var lágt á lofti og náði vart að skera fjalls- toppana nema stund úr degi. Áin var vatnsmikil en bara tveggja stanga og ekki víðfræg en það var ákveðinn kostur að geta hugsað til þess að mega ramba þarna tveir um eyrar án áreitis, eftir langa helgi við listgjörn- inga á Seyðisfirði. Svo héldum við hið minnsta. Við vorum þó ekki búnir að kasta nema í nokkrar mínútur þegar við komum auga á tvo menn, heldur óárennilega, sem stóðu mittisdjúpt úti í fosshylnum og lumbruðu vatn með sjávarveiðarfærum. Veiðifélagi minn er réttsýnn maður og taldi hann mikilvægt að við ræddum við menn- ina og gerðum atlögu að því að kom- ast að sannleikanum í þessu máli, hvort þeir væru með veiðileyfi og þá hvernig gengi að veiða með sjávar- veiðarfærum. Í sannleika sagt var fé- laga mínum ekkert mjög skemmt yfir þessu enda höfðum við greitt hvor sínar þrjú þúsund krónurnar á bens- ínstöðinni á Djúpavogi, einmitt í þeirri von að þennan dag yrði okkur fært að sneiða hjá leiðindamann- eskjum. Við tók hins vegar einn mesti hasar sem ég hef lent í á veiðislóð og kom þó fiskur þar hvergi nærri. Af fjölmiðlaumfjöllun að dæma má ætla að allnokkrir lesendur þessarar bókar hafi séð hina vinsælu kvik- myndaseríu Krúnuleika, Game of Thrones. Þessa ályktun dreg ég af miklum fréttaflutningi um alheims- vinsældir þessarar kvikmyndaseríu. Ég hef að vísu ekki séð hana en þó heyrt sögur af því hvað persónur þessara löngu kvikmynda geta verið hrottalegar. Mennirnir tveir sem stóðu úti í fosshylnum þennan dag sem við félagi minn vorum á ferð við straumþungu jökulána á Aust- fjörðum hafa allt frá þeim degi verið mínir aðalleikarar í Krúnuleikum hugans, enda hef ég við íslenska veiðiá ekki hitt illgjarnari menn að ytra borði. Ég verð sjaldan hræddur en ásýnd þessara manna og atgervi dugði þó til að gera mig svolítið skelk- aðan. Þetta voru annaðhvort tröll sem bera mátti saman við illyrmin úr þessari vinsælu kvikmyndaröð eða einhverjir hryllilegir sveitakrimmar með ógjörning af ólöglegum efnum í blóðinu. Sá sem dýpra stóð í foss- hylnum var á hlýrabol undir vöðl- unum og þakinn flúri upp á hálfar kinnar. Ég stakk upp á því við vin minn að við myndum fara. Hann er þó ekki maður sem lætur ógjörning aftra sér frá skipulögðu athæfi og vildi frekar tala við mennina heldur en lyppast burt eins og lydda af möl- inni sem aldrei hefði tröll séð. Ég gekk hægstígur á hæla hans. Hefjast nú orðaskipti milli félaga míns og mannanna sem eru öll á þá bók sem ég hafði gert mér fyrirfram í hugarlund. Þótt félagi minn sé dag- farsprúður maður hefur hann eins og áður segir litla þolinmæði fyrir yfir- gangi drumbhausa og varð enda fljótt ljóst að hér dugði lítt að koma fram af yndisleik; mennirnir brugðust satt að segja ekki vel við komu okkar og því síður þegar við sögðumst hafa keypt þau tvö leyfi sem seld voru í ána og hefðum gert ráð fyrir því að fleiri veiðimenn yrðu ekki á svæðinu. „Nú verður einhver drepinn,“ hugsaði ég með mér enda sat þá annar Krúnu- bræðra á ryðgaðri heyvinnuvél ónýtri og hélt á naglaspýtu við fjandsamlegt glott. „Þið hafið kannski farið dagavillt,“ sagði félagi minn. „Eða lent í vitlausri á?“ Krúnubræður sinntu þessu lítt og sögðust þarna í fullum rétti einhvers stórbokka sem ætti eyðibýli uppi á af- rétti; þeir hefðu hringt í hann og spurt hvort þeir mættu ekki renna í ána og hann hélt nú það, eflaust væri best fyrir okkur að hringja bara í hann sjálfir ef við tækjum þetta ekki trúanlegt. Á endanum nenntum við félagi minn ekki að gera meira veður út af þessu og sammæltumst um að einbeita okkur að því að veiða á þeim stöðum í ánni þar sem Krúnuleika- menn væru hverju sinni ekki. Þetta var eftir allt saman nokkuð stór og straumþung á. Það var pláss fyrir fleiri en okkur tvo. Við keyrðum því slóðann meðfram ánni og námum staðar við einhvers konar vik sem vék inn í landið en var þó fullt af vatni sem rann hægt eða ekki. Vikið var svona fimmtíu metra langt og sameinaðist ánni á litlu eiði þar sem fyrst sást til straums. Hvers vegna við stoppuðum þarna frekar en annars staðar veit ég ekki; við vorum hið minnsta komnir úr seilingar- fjarlægð frá Krúnubræðrum og þessi hægi pollur var á marga kanta veiði- legur; þarna gat sjóbleikjan hvílt sig á uppgöngu og fengið frið í smástund fyrir ágangi ísjakanna sem rak niður ána. Veiðifélagi minn í þessari ferð er mikill meistari í því að sveifla flugu- stöng og getur dundað lengi við að láta línuna svífa um loftið án þess að snerta vatnsflötinn þar til honum geðjast að láta færið síga á þann stað í ánni sem hann telur mestar líkur á því að fá fisk. Það leið ekki á löngu þar til Krúnubræður komu og hófu að fylgjast spekingslega með aðförum hans. Að lokum gekk annar þeirra til okkar með þær upplýsingar í fartesk- inu að í þessari á veiddi maður ekki á flugu, maður ætti að veiða á laxa- hrogn eða makríl eða ánamaðk, ef maður hefði ekki net, eða selspik eða lýsisvætta rækju eða jafnvel bút úr gúmmídekki sem hefði verið maríner- aður næturlangt í lúðubrák. Að veiða á flugu í þessari á var eins og hvers kyns fjarstæða frá Reykjavík; menn eins og við félagi minn gátum allt eins staðið hoppandi á einhverjum tón- leikastað í höfuðborginni eins og að rjátla þarna um dubbaðir upp í borgarfatnað að sveifla flugustöng. Til að gera manninum til geðs sagðist ég myndu reyna að kasta spún aðeins neðar í ánni; hann tók þessu fálega en þó sýndist mér á svip hans að þetta væri hið minnsta skömminni skárra. Svo líður og bíður og ég er kominn niður að brú með gamla kaststöng, níu feta Herkon, og kasta rauðum Hammer í gríð og erg út í jökulkergjuna þegar ég lít upp til dals og við mér blasir sýn sem ég mun aldrei gleyma, ekki í þessu lífi og varla því næsta. Veiðifélagi minn í þessari ferð fæst líka við skriftir og hann sagði mér síð- ar að á þessari stundu hefði hann ver- ið kominn upp í bíl að hlýja sér og hlusta á Leonard Cohen yfir mjög sterku kaffi og skrifblokk. Hann missti því af því sem gerðist og hefur barmað sér yfir því lengi, sem von er. Því sýnin var svona: Á straumbreiðunni um það bil 150 metrum ofan brúarinnar kemur jök- ulruðningur á hægri siglingu niður ána. Þetta er enginn borgarísjaki en þó sæmilega stór fleki á stærð við smábifreið og ofan á henni situr Krúnubróðir með netstubb öðrum megin og beituslóða hinum megin og dregur á. Hann brosir og virðist him- insæll yfir aðförum sínum. Uppi í landi kemur hinn Krúnubróðir keyr- andi á gömlum pallbíl og lullar hægt eftir slóðanum á hraða frosna farar- tækisins sem bróðir hans siglir á nið- ur ána. Mér líður eins og ég sé kom- inn í existensíalískan vítisheim þar sem hinn illi og hinn góði takast á um völdin í veröldinni. Á ég að hlæja eða gráta yfir þessu? Á ég að óska mann- inum ófarnaðar eða koma honum til bjargar? Það líður ekki á löngu þar til jakinn fer að láta undan síga enda ekki beinlínis hannaður til þess að bera Krúnubróður niður á í skíta- kulda á íslensku frostavori. Krúnu- bróðir er með fisk á slóðanum og virð- ist ekki taka eftir því að farartæki hans er að falli komið, þar til jakinn liðast skyndilega í sundur og maður- inn sekkur ofan í ána. Í stað þess að sleppa taki á veiðarfærum sínum og reyna að synda í land leggst hann á bakið og lætur strauminn bera sig áfram niður. Vöðlurnar hans hljóta að vera þéttbundnar ofan mittis því að öðrum kosti væri vart að spyrja að ör- lögum hans. Það segir kannski ein- hverja sögu um það hversu illa fólk ætti að treysta mér þegar það lendir í lífsháska að ég stend óratíma frosinn í sporunum án þess að komast að skyn- samlegri ákvörðun um hvað ég eigi að gera til að reyna að forða manninum frá dauða. Hylurinn fyrir framan mig er of djúpur til að ég geti vaðið út í og beðið eftir manninum á siglingunni, svo það eina sem mér dettur í hug er að ganga fetið eins langt og ég þori, snúa stönginni svo við í höndum mér og grípa þar í hana ofarlega án þess hún brotni og beina skeftinu út yfir brúarhylinn í von um að Krúnubróðir geti slæmt í hana hendi þegar hann flýtur niður. En eins og ég kemst nú að þá er ég vitaskuld algjör nýgræð- ingur í því að bjarga mönnum í jökul- háska. Þegar fljótandi Krúnubróðir kemur loks glottandi á bakinu að brúnni þá stendur keyrandi Krúnu- bróðir ofan á henni neðanverðri og skákar þar niður járnstöng sem sá fljótandi grípur í. Allt gerist þetta á undraskömmum tíma, að sá fljótandi göslast í land með aðra hönd á járn- stönginni og fiskislóðann spriklandi í hinni upp á eyrina og þeir sameinast kampakátir bræðurnir uppi á landi og hlæja dátt að afrekum sínum. „Við höfum oft gert þetta áður,“ segir sá þurri við mig þegar ég geng til þeirra óttasleginn um líf hins. „Þetta er nú bara svona standard skemmtun hérna á vorin. Gangi ykk- ur vel, strákar. Það er yfirleitt fiskur uppi á Möl á þessum tíma, þið ættuð að prófa það.“ Með það keyrðu þeir í burtu og við stóðum eftir, borgardrengirnir, og áttuðum okkur á því að líklega væri okkar hlutskipti í þessari sveit að láta okkur hverfa og stefna frekar að því að hoppa á tónleikastað í Reykjavík um kvöldið. En tvennt sannaði þessi atburður þó fyrir okkur og það er að gildi góðs veiðifélaga (með þriggja metra járnstöng í farteskinu) verður seint metið og að hversu svo sem út- litið virðist svart um samkomulag fólks á veiðistöð, þá hverfa allir á braut sem vinir á endanum. Ég kýs að minnsta kosti að líta svo á. Gildi góðs veiðifélaga verður seint metið Í bókinni Undir sumarhimni – sögur af veiðiskap hefur Sölvi Björn Sigurðsson tekið saman sögur fjölmargra veiðimanna, sögur af þeim stóru sem sluppu, af fiskum á óvæntum stöðum, af því þegar allt gengur upp og því þegar ekkert gengur upp. Ljósmynd/Hermann Karlsson Veiðidella Sölvi Björn Sigurðsson er veiðimaður af lífi og sál. Framleiðum allar gerðir límmiða af mismunandi stærðum og gerðum Thermal Hvítir miðar Litamiðar Forprentaðir Athyglismiðar Tilboðsmiðar Vogamiðar Lyfsölumiðar Varúðarmiðar Endurskinsmiðar Flöskumiðar Verðmer Selhellu 13 • 221 Hafnarfirði • Sími 554 0500 • bodtaekni.is kimiðar Límmiðar

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.