Morgunblaðið - 14.12.2018, Qupperneq 42
42 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 14. DESEMBER 2018
R
étt fyrir miðnætti sunnu-
daginn 28. desember 2014
lentum við 12 áhafn-
armeðlimir á varðskipinu
Tý á flugvellinum í Va-
lettu á Möltu í Miðjarðarhafi.
Týr var í höfn þar og voru áhafn-
arskipti fyrirhuguð eða að skipta út
12 af 18 manna áhöfn varðskipsins.
Landhelgisgæslan hafði sinnt
landamæravörslu fyrir landamæra-
stofnun Evrópu eða Frontex frá
árinu 2010 bæði með flugvél Gæsl-
unnar og varðskipunum Týr og
Ægi, mislengi eftir atvikum fyrst
undan ströndum Senegal í Afríku og
síðan á Miðjarðarhafi.
Þegar þarna var komið sögu var
Týr úti við eftirlitsstörf en flugvélin
og Ægir heima á Íslandi.
Týsmenn voru búnir að standa í
stórræðum undanfarnar vikur og
höfðu komið að björgun um 2.000
flóttamanna en skipið hafði farið út í
lok nóvember.
Á þessum tíma virtist það fara
vaxandi að skipulögð glæpasamtök
tækju stór skip, fylltu þau af flótta-
fólki sem borgaði aleiguna fyrir, eða
allt að sex til átta þúsund dollara, og
síðan voru skipin send af stað án
áhafnar. Flutningaskip hafði strand-
að við Ítalíustrendur skömmu áður,
það var fullt af flóttafólki og talið
hafa komið frá Tyrklandi.
Fyrirhugað var að sigla úr höfn á
Möltu þriðjudaginn 30. desember og
átti því að vera nægur tími fyrir
nýja áhafnarmeðlimi að kynnast að-
stæðum um borð fyrir brottför.
Flestir voru reyndar búnir að
vera á skipinu áður, en einhverjir
voru að koma þarna í fyrsta skipti
eins og einn háseti og brytinn.
Ég var búinn að segja Kristófer,
brytanum okkar, að nægur tími
gæfist fyrir hann til að komast inn í
málin, ganga frá kostinum o.fl. en
það átti eftir að breytast.
Mánudagsmorgunninn 29. des.
hófst með því að tekinn var kostur
og skipið undirbúið fyrir brottför
sem fyrirhuguð var daginn eftir.
Það var ekki langt liðið á morguninn
þegar okkur bárust fréttir af því frá
fulltrúa Landhelgisgæslunnar,
Níelsi Finsen í björgunarmiðstöð-
inni í Róm, að fréttir hefðu borist
um að grunsamlegt skip væri á vest-
urleið djúpt austur af Möltu, fullt af
flóttamönnum og allar líkur á því að
flýta yrði brottför Týs. Skipið var
talið koma alla leið frá Tyrklandi
eða jafnvel Kýpur. Nokkru síðar
kom fyrirspurn um það hvort skipið
gæti lagt úr höfn sem fyrst og var
ákveðið að verða við því og hafðar
hraðar hendur við að ganga frá öll-
um birgðum og gera skipið sjóklárt.
Haldið út til eftirlits
Haldið var úr höfn upp úr hádegi
sama dag og haldið með aukinni ferð
austur á bóginn eða á svæðið austur
af Sikiley á Ítalíu.
Miðvikudaginn 31. desember var
varðskipið komið á svæðið djúpt
austur af Sikiley.
Um kl.16.00 að staðartíma hafði
fulltrúi LHG í Róm samband við
okkur og vildi að varðskipið kannaði
svæðið sem það var komið á og sagði
að grunur væri um að flutn-
ingaskipið EZADEEN væri þar
með fjölda flóttamanna um borð.
Einnig var upplýst að skipið væri
að öllum líkindum með AIS opið, eða
svokallað auðkenningarkerfi skipa,
en þá sjást nöfn skipa ásamt stað-
setningum.
Seinnipart dags var varðskipið við
eftirlit á svæðinu um 130 sjómílur
austur af Sikiley og var stefnan sett
til norðaustur og síðar í norður.
Veður var afleitt eða norðaustan
bræla um 15-20 metrar á sek, tals-
verður sjór og ausandi rigning.
Haldið var áfram leit að skipinu á
umræddu svæði og um kvöldið
versnaði veðrið enn og bætti í vind
sem fór upp í 25 m/sek með hauga-
sjó, áfram var úrhellisrigning og
himinninn leiftraði af eldingum og
miklar þrumur heyrðust.
Kristófer bryti gerði sitt besta í
að hafa hátíðarkvöldverð en boðið
var upp á kalkún á þessu gamlárs-
kvöldi. Skiljanlega gekk það illa, það
sjá allir að erfitt var að matast við
slíkar aðstæður, skipið lét illa í þess-
um sjógangi sem þarna var.
Ég sagði við brytann eitthvað á þá
leið að við bara frestuðum áramót-
unum til næsta kvölds. Þá yrði von-
andi komið betra veður til almenni-
legs borðhalds.
Engar flugeldasýningar voru
þetta kvöld, enda bannað á sjó en þó
fengum við að sjá himininn með
leiftrandi eldingum. Þetta var stór-
kostlegt sjónarspil og eftirminnilegt
gamlárskvöld.
Flestir sem ekki voru á vakt fóru í
káetur sínar og hugsuðu eflaust
heim á kvöldi sem þessu.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Varðskipið Týr
Á siglingu í Eyjafirði.
Björguðu hundruðum flótta-
manna af stjórnlausu skipi
Neyðarástand Um borð í Ezadeen var fjöldi flóttamanna. Engin var áhöfnin og skipið sigldi stjórnlaust um Miðjarðarhafið.
Halldór B. Nellett, skip-
herra Landhelgisgæsl-
unnar, greinir hér frá
merkilegum dögum á
Miðjarðarhafi, þegar
áhöfn Týs bjargaði
fjölda flóttamanna sem
um borð voru í stjórn-
lausu skipi.