Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.09.2015, Blaðsíða 3

Fréttabréf Ættfræðifélagsins - 01.09.2015, Blaðsíða 3
Fréttabréf Ættfræðifélagsins í september 2015 http://www.ætt.is aett@aett.is3 Fáir staðir búa yfir meiri náttúrufegurð en Aðaldalurinn með sínum hljóðu hraunbollum og strýtum, mjúkum mosanum, bleiku beitilynginu, fjalldrapanum og einibrúskunum. Haustrauð Hvammsheiðin er augnayndi eins og Laxáin, þessi lífæð dalsins sem hefur hrakist heiða á milli undan hraunstraumum annarra og snöggt- um ógnþrungnari elva í árþúsunda sögu sinni. Öld fram af öld héldu grasigrónir árbakkarnir með grænum flæðiengjunum lífinu í íbúum dals- ins. Í slíkri náttúru þrífast engin meðalmenni, þess ber sagan glöggt vitni. Slík náttúra kall- ar aðeins fram það besta í sínum börnum. Og Aðaldalurinn hefur fóstrað börnin sín vel, hér hefur mannlíf og menning blómstrað öld fram af öld þótt fátæktin væri margra fylgikona. Við rætur Hvammsheiðarinnar sprakk einnig út hið fegursta blóm fyrir tveim öldum, lifði þar sína sæludaga en fölnaði allt of fljótt. Þetta litla blóm var Guðný Jónsdóttir skáldkona frá Klömbrum. Ung og ástfangin kom hún í Aðaldalinn vorið 1827, þegar náttúran er sem fegurst. Þá gerðist faðir hennar prest- ur á Grenjaðarstað. Þar blasti við henni víðáttumik- ið hraunið, grænkandi árbakkarnir og straumanda- skarinn sem flaug lágflug yfir merlandi Laxánni á björtum sumarmorgnum. Hönd í hönd gekk hún með nýfundnu ástinni sinni, glæsilega piltinum sínum, milli spegilsléttra hrauntjarnanna, með tæru lindar- vatninu, þar sem lonturnar leika sér á hlýjum sumar- dögum. Í kvöldkyrrðinni úaði húsandarsteggurinn á Breiðunni framan við bæinn og blés unga parinu í brjóst vonir og þrár. Ljúfur og skemmtinn Guðný var fædd snöggtum vestar, að Saurbæ í Eyja- firði. Hún leit fyrst dagsins ljós 20. apríl 1804. Foreldrar hennar voru Jón Jónsson prestur og mið- kona hans Þorgerður Runólfsdóttir Runólfssonar í Sandgerði Sigurðssonar. Faðir Jóns var Jón Jóns- son, prestur og læknir að Reynistað í Skagafirði Gunnlaugssonar, og kona hans Hildur Halldórsdóttir Hallssonar prests að Melstað í Miðfirði. Móðuramma Guðnýjar var Margrét Guðnadóttir sýslumanns í Kjósarsýslu og landfógeta, Sigurðssonar bónda í Sandgerði Runólfssonar lögréttumanns í Stafnesi. Guðfinna Ragnarsdóttir: Guðný Jónsdóttir skáldkona frá Klömbrum Séra Jón, faðir Guðnýjar, var fjölmenntaður gáfu- maður, þótti með lærðustu mönnum. Hann var sagð- ur góður fræðari og skyldurækinn embættismað- ur, ljúfur í framgöngu og skemmtinn. Hann útskrif- aðist úr Hólaskóla, kenndi þar um skeið og síðar í Reykjavíkurskóla en var veitt Möðruvallabrauð árið 1804 og hóf þá búskap að Auðbrekku í Hörgárdal. Séra Jón stundaði einnig lækningar allt fram á elliár, fékk fyrst leyfi landlæknis og síðar konungsleyfi. Sóttu menn til hans bæði af Norður- og Austurlandi. Þorgerður móðir Guðnýjar var sögð vel greind og annáluð gæðakona. Þau hjónin eignuðust sjö börn og var Guðný næst elst. Heimilið var alltaf mjög fjölmennt og vel efnum búið. Í næsta nágrenni var amt- mannssetrið á Möðruvöllum og séra Jón Þorláksson á Bægisá, með sín fallegu ljóð og þýðingar, var held- ur ekki langt undan. Guðný ólst því upp við mikla Guðnýjarkver. Um 150 ár liðu frá fæðingu Guðnýjar þar til kvæðasafn hennar kom út árið 1951 í útgáfu Helgu Kristjánsdóttur frá Þverá í Lxárdal. Uppskriftir af ljóðum hennar höfðu þó farið víða. Mjög mörg munu hafa glatast.

x

Fréttabréf Ættfræðifélagsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Ættfræðifélagsins
https://timarit.is/publication/885

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.