Morgunblaðið - 28.03.2019, Page 60

Morgunblaðið - 28.03.2019, Page 60
60 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. MARS 2019 Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is Eins og margar konur er Svanlaug Jóhannsdóttir söngkona svakalega veik fyrir skóm. Svo veik að hún er með skóverk, sem lýsir sér í ein- leiknum Í hennar sporum – fetað í fótspor fyrirmynda, og hún frum- flytur kl. 20.30 í Tjarnarbíói í kvöld, fimmtudag. Pálína Jónsdóttir leik- stýrir, Einar Bjartur Egilsson spilar á píanóið, Hafliði Emil Barðason sér um ljóshönnun, Tinna Þorvalds- dóttir er sýningarstjóri og Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir sviðsstjóri. Á vef Tjarnarbíós segir að Svan- laug hafi safnað saman skóm frá konum sem hún lítur upp til. „Frá konum sem eiga sögu sem við hin getum nýtt okkur til þess að taka þau skref sem við þurfum að taka. Saga kvennanna og skónna, róm- antíkin, gleðin og átökin, er sögð með sögum, söngvum og tónlist úr öllum áttum,“ eins og þar stendur. Töfrar leikhússins „Viðburðurinn er í rauninni sagnakvöld,“ útskýrir Svanlaug, sem einnig er hugmyndasmiður og handritshöfundur skóverksins. „Við nýtum okkur töfra og möguleika leikhússins með sviðsetningu, lýs- ingu og þess háttar. Ég tengi saman konur og skó í sögum og söng. Meira í tali en tónum, því þótt ég leiki ekki beinlínis hlutverk set ég mig aðeins í spor kvennanna, geri orð þeirra að mínum og syng lög sem mér finnst eiga við hverja fyrir sig.“ Svanlaug segist oft hafa verið spurð eftir tónleika hvort hún sé líka leikkona og vissulega reyni kannski meira á leikhæfileika hennar í þessu verki en þegar hún kemur fram sem söngkona. „En Pálína hefur verið stórkostleg og hefur hjálpað mér mikið að taka þessi skref,“ segir hún. Sögurnar eru sannar, eða svo gott sem því Svanlaug viðurkennir að hafa fært þær pínulítið í stílinn. Þær eiga það sammerkt að tengjast skóm með einum eða öðrum hætti og vera byggðar á frásögnum eigendanna – eða réttara sagt fyrrverandi eig- enda. Svanlaug fékk skóna nefnilega gefins, samtals átta pör, eftir að hafa falast eftir þeim. „Ég titraði smá þegar ég sendi tölvupóst til Vigdísar Finnbogadóttur með þeirri und- arlegu beiðni að gefa mér gamla skó af sér og láta stutta sögu fylgja með. Líkt og hinar konurnar sem ég leit- aði til með sama erindi, var hún af- skaplega glöð yfir að taka þátt í leiknum.“ Átt þú skósögu? Meðal fyrirmyndarkvennanna sem Svanlaugu langar til að líkjast þegar hún er orðin stór, eins og hún segir, eru til dæmis Halla Tómas- dóttir, Herdís Egilsdóttir og Hug- rún Árnadóttir í KronKron, skó- hönnuður og -framleiðandi. „Ekki þó vegna þess að hún á ábyggilega flest skópör á Íslandi,“ segir hún bros- andi um þá síðastnefndu. „Ég syng fyrir hana spænskt lag vegna þess að hún lætur framleiða skóna á Spáni og þurfti því að læra spænsku,“ segir Svanlaug til marks um hvernig hún velur lögin sem hún syngur með tilliti til manneskjunnar. Til þess að freista þess að fá skemmtilegar sögur, setti hún einn- ig á facebook auglýsingu með fyrir- sögninni Átt þú skósögu? „Gegnum þá leið fékk ég nokkrar sögur og tvær þeirra detta inn í sagnakvöldið. Höfundur annarrar var alveg óþekktur þegar hann sendi mér sög- una. Þetta er mjög fræg kona á Ís- landi í dag.“ Svanlaug gefur ekki fleiri vís- bendingar, enda hyggst hún afhjúpa huldukonuna á frumsýningunni. Af þeim átta skósögum, sem hún segir og syngur, er ein frá karli, sem heitir Francis Ogweng og er frá Úganda. „Stórkostlegur karlkyns femínisti, sem berst gegn ofbeldi á konum í heimalandi sínu. Ég sá af tilviljun myndband á facebook þar sem hann skipulagði kröfugöngu með yfir- skriftinni Ein míla í hennar sporum. Í göngunni voru karlar með ker á höfði og ungbörn í reifum á mag- anum eins og konurnar þar eru gjarnan. Mér fannst Ein míla í henn- ar sporum ríma svo vel við verkið mitt að ég hafði samband við hann. Núna erum við vinir á facebook og hvetjum hvort annað reglulega til dáða og hann er búinn að senda mér skóna sína sem hann gekk í í göng- unni.“ Skópör með fortíð Uppistaðan í leikmyndinni er skór. Átta pör með fortíð, sem sögur og lög Svanlaugar hverfast um. Hún segir hugmyndaflugið hafa farið á flug þegar henni áskotnuðust eld- gamlir prinsessuskór með silfri og fíniríi, sem höfðu verið í eigu dóttur eiganda Hressingarskálans. „Ég fór að hugsa um hvernig lífi hún hefði lifað, hvort hún hefði borðað mikið af gómsætum kökum og fleira í þeim dúr. Upp úr þessu pælingum kvikn- aði sú hugmynd að skoða hvernig skór gætu hugsanlega haft áhrif á líf kvenna og hvort það speglaðist kannski í skónum þeirra. Mig lang- aði að setja mig í spor hennar og fleiri kvenna, fá að heyra sögurnar sem búa að baki eða tengjast skón- um þeirra. Það er hægt að segja sög- ur út frá svo mörgum sjónarhornum og ég er afskaplega þakklát kon- unum sem eftirlétu mér skóna sína og sögðu mér sögurnar. Þær sýndu mér mikið traust með því að leyfa mér að vinna með þær,“ segir Svan- laug. Fyrir tæpu ári prófaði hún hug- myndina í Hannesarholti, en þá með færri sögum og lögum og án leik- stjóra og útfærðrar sviðssetningar. Svanlaug segist hafa fengið dásam- legar viðtökur, sem hafi verið henni hvatning til þess að þróa verkið frek- ar. Að sama skapi finnst henni dásamlegt hversu Tjarnarbíó er góður vettvangur og aðgengilegur fyrir listamenn með nýjar hug- myndir. „Þar er ofboðslega vel tekið á móti manni og alltaf leitað leiða til þess að gera hlutina að veruleika,“ segir hún. Lærði tangósöng í Argentínu Svanlaug er klassískt menntuð söngkona og hefur oft sungið op- inberlega hér heima og erlendis. Hún lærði tangósöng í Argentínu fyrir nokkrum árum og hefur m.a. unnið sem aðstoðarleikstjóri og sýn- ingarstjóri í fjórum leikhúsum á West End í London. Hún var átta ára þegar hún kom oft fram með Eddu Heiðrúnu Backman í Stund- inni okkar. Samt viðurkennir hún að það sé töluverð áskorun að vera ein á sviðinu samfellt í meira en klukku- tíma. „Þótt mig hafi dreymt um að setja verkið á svið er ég um leið að ögra sjálfri mér. Ég hef fengið alls konar skemmtileg tækifæri gegnum tíðina, til dæmis að syngja með sin- fóníuhljómsveit þegar ég bjó á Spáni í fimm ár – og um leið afsökun fyrir að kaupa mér efnismikla glæsikjóla, ekkert smá gaman.“ Og Svanlaugu finnst ekki síðra að kaupa sér nýja skó. Hún man ekki einu sinni hversu mörg skópör hún á, en segir þau að minnsta kosti fylla skápinn heima hjá henni, sem er 1 m x 2,30 m. „Ég held að alltaf þegar við veljum okkur nýja skó séum við svo- lítið að sýna eitthvað nýtt í okkar karakter. Við kaupum skó bæði til að lyfta okkur upp og halda okkur niðri á jörðinni, sýna lit og taka þátt í hversdagslífinu.“ Áhorfendur fylgj- ast svo með þegar hún mátar skó- pörin átta og setur sig þannig í ann- arra manna spor. Tal og tónar Svanlaug Jóhannsdóttir, söngkona og handritshöfundur, á milli þeirra Pálínu Jónsdóttur leikstjóra og Einars Bjarts Egilssonar píanóleikara. Í sporum fyrirmyndarfólks  Svanlaug Jóhannsdóttir söngkona fetar í fótspor fyrirmynda sinna í Tjarnarbíói í kvöld  Sögur, söngvar og tónlist úr ólíkum áttum sem tengjast skóm og fólki  Rómantík  Gleði  Átök » „Ég held að alltafþegar við veljum okkur nýja skó séum við svolítið að sýna eitthvað nýtt í okkar karakter. Við kaupum skó bæði til að lyfta okkur upp og halda okkur niðri á jörð- inni, sýna lit og taka þátt í hversdagslífinu.“ Ljósmynd/Eydís Eyjólfsdóttir

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.